Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Stórhreingerningapirringur

Bara að taka breik í miðri tiltekt til að hlaða batteríin, drekka smá vatn og tuða yfir rusli.  Ég er nefnilega byrjuð á hinu hundleiðinlega verkefni að taka til í vinnuherberginu.  Eins og áður hefur verið getið er hið skelfilega herbergi oft notað sem geymsla fjölskyldunnar og nú var það orðið svo þjappað að lítil eiginleg vinna gat farið þar fram.  Til að mynda er ég búin að finna jólaskraut og jólapappír sem hefur ekki náð að flytjast yfir í hina eiginlegu geymslu í sex-sjö mánuði.  Ég er búin að safna örugglega tuttugu kíló af tímaritum sem eiga að fara í blaðagáminn, þar eru reyndar einhverra ára byrgðir sem ég ákvað að láta gossa.  Og hið yndislega pappírsflokkunarmál sem er klassískt verkefni.  Það er reyndar ekki eins ógnandi og það hefur stundum verið því ég dreif í því í fyrra að kaupa alvöru skjalaskáp fyrir stöffið og tók maraþon sorteringu.  En frestunarárátta frúarinnar á sér einna skýrasta birtingarmynd í þessu herbergi.  En ég ætla að gera pleisið klárt til að ég geti unnið, loksins þegar ég er farin að hafa eirð í mér til þess að gera eitthvað.  Þangað til að þessi tiltekt er búin, lítur pleisið út eins og sprengja hafi sprungið, verður bara að hafa það.

Annars, í öðrum þrifafréttum þá tók ég til í herberginu hennar Huldu í fyrradag, henni og okkur til mikillar gleði, svo maður tali nú ekki um playmokallana og þeirra pínulitla dót.  Svo þreif ég bakaraofninn sem var mikið skítadjobb og hefði kostað sjálfa mig 18.000 kall í útseldri vinnu ef ég hefði haft vit á að rukka sjálfa mig fyrir vinnuna!

Pásan búin, byrjuð aftur!


Fjör hjá minni og góður matur

Vá, ég held að ég þurfi barasta að komast aftur í vinnuna til að hvíla mig!  Ekki það að það sé sérstaklega rólegur staður.  En það er búið að vera þvílíkt stuð að vera allan daginn með Huldu að maður er gjörsamlega búin á því á kvöldin.  En sú litla er að springa úr framtakssemi, stríðni, kátínu og bröndurum og má varla vera að því að fara að sofa á kvöldin.  Hún lýsir því yfir að hún sé búin í leikskólanum og ég sé að ég þarf að búa til dagatal handa henni þegar nær dregur leikskólabyrjun svo hún verði ekki alveg hlessa þann daginn.

Annars prófuðum við að kaupa fisk í Krónunni í gær, nánar tiltekið lax.  Tregðan við að versla fisk í lágvöruverslunum er byggð á því að einu sinni fyrir mörgum árum, þegar við vorum fátækir námsmenn, keyptum við ýsu í Bónus.  Þegar pakkinn var svo opnaður kom í ljós að þetta var fjarri því að vera mannamatur, lyktaði eins og gamalt slor og var snarlega hent í ruslið og ruslinu hent beint í tunnuna.  Þannig að síðan þá hef ég aldrei keypt forinnpakkaðan fisk og hef frekar farið í fiskbúðir og búðir sem ég veit að er með alvöru ferskan fisk.

En, aftur að laxinum.  Hann var frábær.  Hann var eldaður á afar einfaldan hátt: skorinn í bita og steiktur við hæfilegan hita á pönnu í smá smjöri og smáslettu af ólífuolíu.  Með honum voru bornar fram langar grænar baunir, soðnar en þó al dente, og nýjar kartöflur.  Punkturinn yfir i-ið er svo lime-smjörsósa sem er algjör snilld með fiski og við höfum líka borðað hana með kjúkling.  Systir mín benti mér á hana, ég er örugglega búin að tala um hana áður en hún er bara svo góð.  Það er líka hægt að gera hana með sítrónusafa og er alveg jafngott.  Og það þarf engar stórar slummur af henni svo það þarf ekki að bæta á sig milljón hitaeiningum þótt smakkað sé á henni.

En... farin að sinna órabelgnum, hafið það gott.


Eymsli í fríinu

Fyrsta vikan í fríinu búin að ganga skrykkjótt.  Tókst að skadda vöðva í hálsinum á mér í byrjun vikunnar svo mér er búið að vera illt í höfði og hálsi og hreint ekki búið að líða vel.  Er búin að borða verkjatöflur, brúka heitan grjónapúða og smyrja bólgu og verkjaeyðandi á auma vöðvann en ekki er þetta búið enn.  Spurning um að kíkja til læknis ef þetta fer ekki að lagast svo allt fríið verði ekki hálfómögulegt.  En við höfum þó ekki setið alveg auðum höndum og við Hulda fórum til dæmis til Njarðvíkur með Þórhildi og Guðrúnu á miðvikudaginn.  Svo skrapp kvennahersingin í hið helga musteri Ikea á föstudaginn og fékk sér hressingu í stóru, góðu og ódýru kaffiteríunni þeirra.

Reyndar var Ikea líka heimsótt í gær en þá fórum við Siggi með tengdamömmu að versla búsáhöld fyrir stórfjölskylduna og svo skroppið í Elko að versla heimilistæki.  Valgerður og Hulda voru heima á meðan og Valgerður æfði sig að baka pönnukökur sem hún ætlar svo að endurtaka í vinnunni sinni.  Eftir langa verslunarferð komum við svo heim og fengum nýbakaðar pönnsur.  Nú er Valgerður semsagt komin í kokkaafleysingar í eldhús og þótt hún muni ekki stunda fulla eldamennsku þá er nú einhver bakstur og fleira sem hún ætlar að taka að sér.  Þessi vinna er reyndar rakin fyrir hana því hennar kærasti partur af heimilisstörfum hér heima er að taka til í eldhúsinu.  Ef hún má velja hvað hún gerir þegar við erum að taka til, velur hún alltaf eldhúsið.  Svo finnst henni svakalega gaman að baka og er alltaf að gera tilraunir með nýjar kökutegundir (þessar mjúku línur fjölskyldunnar koma ekki af sjálfu sér, það þarf að vinna í þessu Wink).  Semsagt, rétt manneskja á réttum stað.

Meira matartengt:  Samlokugrill fjölskyldunnar brotnaði um daginn og lauk þar með margra ára dyggri þjónustu.  Í gær drifum við okkur og keyptum vígalegt panini/mínútugrill til að koma í staðinn.  Við kristnuðumst nefnilega alveg á Ítalíu inn í panini kúltúrinn og langaði til að geta gert það hér heima.  Þar kaupir maður panini sem skyndibita á örfáar evrur og það er grillað fyrir þig á meðan þú bíður.  Annað en hér þar sem panini kostar milljónkall og er borið fram sem dýrmætur sjaldgæfur og ekkert alltaf góður réttur.  Dýrmætur vissulega miðað við hvað þetta kostar en ....

Úti á sýningu tók okkur hálfan dag að læra að reyna ekki að troða sér inn á a) subbuleg self-service veitingahús b) veitingahús sem voru svo fín að það var varla hleypt inn á hálftóma staðina og þegar maður var kominn inn var undir hælinn lagt hvort væri tekin pöntun.  Það reyndi aldrei á það því við gengum út af pleisinu og fórum aldrei til baka.  Við höfðum hins vegar séð að Ítalirnir sigtuðu helst á að grípa sér samloku og borða á ferðinni en við ætluðum að hvíla fæturna svo vel á veitingahúsi þannig að það var fyrst ekki á dagskránni.  En við prófuðum þetta, fengum frábærar samlokur í hvert sinn og gátum holað okkur niður og hvílt þreytta fætur.  Miklu betra og ódýrara. 

Í lokin, smásamtal frá því í morgun: Ég spurði Huldu: "Jæja, eigum við ekki að skella okkur í fötin Hulda?".  Hulda varð dálítið döpur í framan og sagði: "Ég get ekki skellað mér í fötin!"  Ég sagði þá "Á ég þá að skella þér í fötin?".  "Já!" sagði sú litla fegin.


Komin í frí

Sumarfríið mitt er byrjað og nennan til að blogga er lítil.  Eins og maður segir á útlensku: "I can't be arsed".  En ég býst við að það hafi komið í ljós miðað við hversu strjált er skrifað.

Helst er í fréttum að Siggi keppist við að gera klárt fyrir steypu á pallaundirstöðum bak við hús.  Síðustu holurnar verða teknar á morgun og svo skilst mér að eigi að steypa um leið fyrir framan og aftan hús. 

Ég er búin að setja mér það verkefni að salla niður það óþarfa drasl sem hefur safnast hér á liðnum árum og helst að henda sem mestu (eða endurvinna).  Risavaxið verkefni sem vex mér dálítið í augum en mig langar samt svo að klára.  Það er einhvern veginn orðið tímabært að endurskoða ýmsa hluti í lífinu og þetta er einn af þeim.  Sendið góðar hugsanir, það veitir ekki af.

Annars komu gestir frá Múmínálfalandinu í heimsókn í gær og að auki lítill gestur úr húsinu á móti svo það var fjörugt hérna seinnipartinn.  Ég var doldið sólarsoðin í gærkvöldi og aloe vera túban er búin að vera við höndina í gær og í dag en ég er öll að hjarna við.

Hulda hefur það fínt og er komin með algjöra bókadellu.  Hugsið ykkur, fyrir svona ári, tveimur árum síðan vildi hún lítið sem ekkert sjá bækur og mátti alls ekki lesa fyrir hana (líklega af því hún skildi lítið það sem var verið að segja og vissi það).  Uppáhaldsbókin hennar þessa dagana er bók sem heitir 'Svona erum við' og er líffræðibók fyrir krakka.  Svo tekur hún Fables myndasögurnar sem við Siggi eigum og skoðar þær í gríð og erg þótt þær séu langt frá því að vera krakkaefni og hreint ekki aðgengilegar. Hún er skrítin en skemmtileg skrúfa hún dóttir mín.

Svo hvet ég ykkur til að kíkja á síðuna hennar Valgerðar og sjá nýja lúkkið á eldri dótturinni.


Smurf and Turf

Já, ég veit að það er langt síðan ég skrifaði síðast en það er sumar og búið að vera svooo gott veður.  Reyndar hefur líka verið hellingur að gera svona eins og í "So many social engagements, so little time."  Ég er guðslifandi fegin að fá smá rigningu því ég var orðin hreistruð af þurrkunum sem ganga hér yfir.  Já, í alvöru!  En svo var ég líka að glíma við svæsinn frjókornapirring sem er gott að fá smábreik frá.

En nú styttist alvarlega í frí, verð að vinna út þessa viku og fer þá í fjögurra vikna frí.  Sýnist þó að það verði drjúgt að gera í vinnunni fram að því þannig að maður stundar víst ekkert letilíf þar.  Ég býst nú heldur ekki við að liggja í leti hér heima því hér er enginn skortur á verkefnum.  Til að mynda er hin árlega allsherjar tiltekt í vinnurými mínu sem aðrir heimilismenn (og ég líka) nota allt of oft í stað geymslu.  En þegar hún er afstaðin er búið að lofa mér góðum stól í herbergið, svona stól sem hægt er að sitja þægilega og lesa í.

Í fyrradag stikuðum við eiginmaðurinn út plássið sem pallurinn fyrir aftan hús á að standa á.  Merkilegt nokk þá þróuðust hlutirnir þannig að það var talsvert af mannskap sem losnaði óvænt í það verkefni að moka út hlíðina og bora fyrir undirstöðunum.  Þannig að allt er (kannski) komið á ferð hérna eftir áralanga ládeyðu.  Og jafnvel, loksins, loksins, verður steypt fljótlega fyrir fremri pallinum.  Það er svona þegar samdrátturinn mætir á svæðið þá fara iðnaðarmenn loksins að hafa tíma til að gera hluti heima hjá sér!

Annars voru í gær liðin tuttugu ár frá því við Siggi kynntumst og var haldið upp á það.  Við ætluðum að vera flott á því og fara fínt út að borða en stemningin var ekki alveg að gera sig í þá áttina þannig að okkur leist betur á að vera bara heima hjá okkur og elda sjálf.  Ég eldaði nautalund og humarhala með sterku kryddsmjöri en mismælti mig þegar ég var að kynna réttinn fyrir Sigga og sagðist ætla að búa til Smurf and Turf!  Góðir þessir léttsteiktu strumpar!  Skemmst er frá því að segja að þetta var svoooo gott.  Og allir borðuðu vel.  Svo vel að Hulda taldi ástæðu til að benda okkur á að gubba út um eldhúsgluggann svona eins og gert er í Ratatouille!  Sem betur fer þáði enginn boðið.

En Hulda er í fínu stuði þessa dagana og gengur alltaf betur og betur að tala.  Maður finnur líka að sjálfstraustið er að aukast hjá henni og hún notar þá tungumálið meira.  Við tökum þó eftir að ef henni er mikið niðri fyrir notar hún það sem við köllum 'autisku' og notar þá skiljanleg orð í upphafi og enda setninga en hljóðarunur inn á milli.  Svo er hún voða góð við kisu og kyssti hann á munninn áðan af mikilli ástúð Sick.  En ég man reyndar eftir að hafa gert svipaða hluti þegar ég var lítil og var skömmuð fyrir!

En, best að fara gera eitthvað gáfulegt eins og að mæna á moldarsvaðið í garðinum dreymnum augum.Joyful


Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband