Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2006

Af spenanum!

Ég gat ekki loggað mig inn á bloggið alla helgina en ætlaði bara að láta ykkur vita að ég er ekki hætt!

En nú er semsagt búið að bóka Írlandsferðina og alla gistingu.  Hulda kemur ekki með því þetta er ekki alveg fyrir litlar manneskjur að díla við að mæta í brúðkaup og tilheyrandi og svo að þvælast um í borgarumhverfi.  Svo gefst okkur náttúrlega smá tími til að sinna stóru systur sem hefur dálítið setið á hakanum í sumar.  En Hulda og kisi verða í frænkupössun og nú þarf að kenna kisa að lúra inni í þvottahúsi á nóttunni svo hann hræði ekki pössunarpíurnar með næturstjákli.

Er búin að komast að því að ég þoli illa mjólkurvörur og eftir harmrænt sorgarferli er ég búin að sættast við þá staðreynd að ég er hætt á spenanum fyrir fullt og allt.  Enda kannski kominn tími til miðað við aldur og fyrri störf!  En mér sýnist að ég laumi enn um sinn smá mjólk í kaffið af og til.

Molluhiti og skýjað í dag og ég þarf að vinna í fjórar vikur áður en ég fer út.  Úff!


Logn og blíða, sumarsól!

Gat nú verið að góða veðrið kæmi þegar ég er byrjuð að vinna aftur!  Og á morgun er spáð glampandi sól og getið þið hver verður að vinna í gluggalausu herbergi lengst inni í húsi!  En þó skilst mér að eiginmaðurinn ætli að hætta kannski örlítið fyrr í vinnunni svo einhver nýting náist á góða veðrinu. 

 Svalur

Annars er ástandið meinhægt, ágætt að vera farin að vinna aftur og líka ágætt að vita að ég á dálítið frí eftir ennþá.  Helsti ókosturinn við að vera komin í vinnuna er sá að mér dettur ekkert í hug til að borða í hádeginu.  Heiti maturinn hjá Nóatúni er hvorki gómsætur, hollur né hagstæður í innkaupum.  Ég er orðin þreytt á að borða samlokur og sömuleiðis hið klassíska kombó: jógúrt/skyr/rúnnstykki/ávextir.    Salatborðið er svo sérkapituli útaf fyrir sig.  Stundum er barasta varla salat þarna, þetta er orðið svona safn af mismunandi pasta, couscous, kjötbollum, kotasælu og niðursoðnu grænmeti og ávöxtum.  Hvar er salatið?  Ég auglýsi hér með eftir brillíant hugmyndum að hádegismat. 

Hulda og Valgerður hafa það ágætt saman hér heima og eru mjög samtaka um að drasla til af lífi og sál.  Segið svo að 3ja ára og 14 ára geti ekki haft sama áhugamál!


Hver segir að strætó sé alltaf tómur?

Var að koma heim í smekkfullum strætisvagni.  Jafnvel of fullum þar sem frú Stinkerbell, sem sat fyrir framan mig, og Elnett hárspreyið hennar höfðu fullmikið vægi í mínu lífi í ca. 15 mínútur.  Mér leikur forvitni á að vita hvernig ástandið verður í haust þar sem stjórn strætó er búin að boða niðurfellingu á 10 mínútna ferðunum.  Og vesgú, leggja niður eina Stofnleið.  Sorrí góðir hálsar, þetta var stutt grín en óskemmtilegt! 

Það hefur eitthvað skolast til hvað hugtakið "Almenningssamgöngur" þýðir.  Sumir segja að Íslendingar hafi valið einkabílinn og strætó sé úreltur.  Vissulega eru ekki allir í strætó innræktaðir Íslendingar (já, ég meina in-bred) heldur eru sumir upprunnir í Póllandi og öðrum austantjaldslöndum, frá Asíu og í raun allra þjóða kvikindi að ógleymdum gamaldags mörlandanum.  Svo sér maður fjöldan allan af túristum á sumrin brúka strætó.  Og hvað með fólk sem á ekki jeppa, frúarbíl og pallbíl og hefur ekki efni á þess háttar lúxus?  Og núna þegar menn segjast vera umhverfissinnar til hægri og vinstri, er þá allt í góðu að fara fretandi um allt, aleinn á sínum bensínbíl? 

Mig grunar að fólkið sem segi svona hluti fari aldrei í strætó.  Og vissulega eru strætisvagnarnir oft fámennir á milli 9 og 15.30.  En halló, þá er fólk almennt að vinna eða í skóla.  Það mætti jú athuga að gefa svona strætóbreik í skólum landsins og á vinnustöðum svo fólki líði betur.  "Kennari!  Má ég skreppa og fara upp í Breiðholt og aftur til baka svo strætó sé ekki tómur?"  Er ekki alveg eins hægt að halda fram að þeir sem aki götur borgarinnar á þessum tímum í einkabíl hljóti nú að vera skrópagemlingar?

Menn eru samt alltaf ægilega ánægðir þegar þeir ferðast um í borgum erlendis og geta notað almenningssamgöngur á auðveldan hátt og fyrir lítinn pening.  Af hverju ættum við að vera eitthvað öðruvísi heima hjá okkur?  Og af hverju er ekki hægt að láta kerfið virka betur?  Gamla strætókerfið var hundónýtt, virkaði vel innan gömlu Reykjavíkur, en aðrir gátu meira eða minna étið það sem úti fraus.  Nýja kerfið var skömminni skárra en var langt í frá farið að virka eins og það gæti gert.   Stúdentaráð var að gera að tillögu sinni að haft yrði ókeypis í strætó í september til að kynna kerfið.  Að mínu viti væri þess vegna nóg að láta kosta 100 kall í strætó í þrjá mánuði til að gera þetta áhugavert.  Það er nefnilega meira en að segja það að smala smámynt saman í 250 kallinn sem strætó kostar.  En það væri meira aðlaðandi að geta alltaf hoppað upp í strætó fyrir 100 kallinn sinn.    Þetta á ekki að vera niðurgreiddur munaður, þetta er nauðsynlegt til að borgarsamfélagið þrífist og geti þjónað íbúum sínum. 


Lýsisstubba

Klukkan hálfsjö í morgun rölti lítil stúlka með Bangsimon sér við hönd, inn til mín og skreið upp í rúm.  Það var ilmandi upplifun því pabbi hennar hafði náð að sulla krakkalýsi í kollinn á Stubbu í gærkvöldi og ákveðið var að fresta böðun og hárþvotti til morguns þar sem frökenin var nýkomin úr baði.  Samt merkilegt hvað maður sættir sig við þegar svona lítið krullótt fólk kemur og hjúfrar sig hjá manni.

Hér er rífandi rok og mígandi rigning, ekkert hægt að fara út.  Ég vil fá endurgreitt fyrir þetta sumar, svei mér þá.  Á eftir þurfum við að berjast í gegnum slagviðrið til að versla og tilheyrandi og nú vildi ég svo gjarnan eiga regngalla.

Ég var að lesa í Blaðinu í morgun um fjölgun offitutilfella og örorku þeim tengdum.  Mér hefur alltaf þótt merkilegt að í Bónus, hvar hinir lægst launuðu og  öryrkjar versla helst, hefur alltaf verið gífurlega fínt úrval af sælgæti.  Þetta var meira áberandi hér einu sinni þegar þeir voru með minna úrval af almennri matvöru heldur en núna.  Og gotteríi raðað hér og þar við kassana þar sem biðraðirnar eru og freistandi að stinga hinu og þessu í körfuna.  Einu sinni gengu Hagkaupsmenn á undan með góðu fordæmi (áður en Bónusfeðgar keyptu sjoppuna) og voru ekki með sælgæti við kassana.  Það er liðin tíð.  Og núna kemur maður ekki í búð án þess að slikkeríið sé úti um allt og ekki síst við kassana.  Og stærðir á öllum pakkningum eru að stækka jafnt og þétt (eins og við séum svo hitaeiningasvelt að þess þurfi), öll súkkulaðistykki að stækka, risa þetta og risa hitt. Þetta er nefnilega eins og með lásí tónlist, mikil neysla á vondu efni deyfir hæfileikann til að njóta þess sem er virkilega gott.   Fyrir utan þá staðreynd að maður vanmetur það sem maður nartar hér og þar og hæfileika þess til að auka við mjúku línurnar.  Við höfum svo sannarlega étið okkar skerf af gúmulaðinu en kannski er mál að linni?

Þá er eiginlega næsta mál á dagskrá að ræða þessa slöku ávexti sem hér fást og hrágúmmísáferðina á þeim.  Þeir eru fluttir hingað óþroskaðir til að auka geymsluþolið en verða í staðin frekar ófétislegir.  Og sumt grænmetið sem kemur hingað er bæði þreytt og bragðlaust.  Þetta er varla verjandi þegar hægt er að flytja hluti á milli á einum degi.  Það er ekki meira mál en þegar menn eru að flytja vörur milli landa á meginlandi Evrópu.  Og allir sem hafa verslað í matinn í útlöndum þekkja muninn.

Að þeim orðum töluðum ætla ég að fara í búðina og kaupa 70% súkkulaði til að búa til franska súkkulaðiköku til að hafa sem eftirrétt í matarboðinu í kvöld.  En ég held að ég sleppi smákruðerínu mikið til héðan í frá.  Maður verður jú að leggja sitt af mörkum til betra lífs, ekki satt?


Nettenging.. ha!

Fyrir þetta, Valgerður, mokar þú kattakassann og klárar að telja flöskurnar!

Þín elskandi móðir.Svalur


Er komið sumar ?

Haldið að Kallurinn hafi ekki barasta verið heima í dag!  Þetta er víst eins konar sumarfrí.  Eða kannski bara frí þar sem sumarið hefur bara birst í mýflugumynd hingað til.  Við horfðum á Harry Potter í gærkvöld í á myndasöludæmi Skjásins.  Myndgæðin voru vægast sagt ömurleg og ég er almennt ekki yfir mig hrifin af myndgæðunum sem boðið er upp á í gegnum ADSL tenginguna.  Svo eru alls konar fídusar sem detta út eins og til dæmis möguleikinn á að skipta um tungumál og textavarpið dettur líka út.  Næst fer ég barasta og leigi DVD með gamla laginu.  En þó er bót í máli að á meðan gæðin eru svona þá er engin ástæða til að fara út í meiri hátta flatskjásfjárfestingar og gamla sjónvarpið má búa hér ennþá.  Enda stendur það sig með prýði og sóma.

En svo horfðum við líka á Green Wing sem ég var bara að sjá í fyrsta sinn í síðustu viku.  Meinfyndnir og súrrealískir þættir.  Held svei mér þá að ég myndi vilja eiga þetta á DVD þegar færi gefst.  Það er víst best að lafa sem mest fyrir framan sjónvarpið því við höfum ekki einu sinni haft ástæðu til að sækja stóru garðstólana okkar.  Stjúpurnar eru að tætast í sundur í rokinu og svo er spáð stormi og látum samkvæmt síðustu veðurfréttum.

Ég held ég verði innipúki á næstunni


"Oh, I do love a good rant!"

Í gær stóð til að fara og sjá Brúðubílinn hér á Hvammsvelli (local gæsluvöllur fyrir Sala og Lindahverfi).  Um morguninn var hins vegar mígandi rigning og rok og yours truly þurfti að þjóta út á svalir í hendingskasti og gera þær þannig að allt mitt góss fyki ekki út um allar koppagrundir.  Það gaf augaleið að göngutúr upp á Hvammsvöll var ekki á dagskrá.  Undir kvöld var veðrið svo orðið ágætt sem sýnir og sannar að við búum við sýnishornaveðurfar hér á Íslandi.  Og loksins þegar er búið að setja rimlagardínur í eldhúsið, svona til að forðast stiknun, þá hverfur sólin.  Ég er einhvern veginn ekki að finna taktinn eftir það sem gekk á í síðustu viku og langar helst að fara bara í vinnuna.  Skrítið ekki satt?  Veit ekki hvort ég vil fara til útlanda, hvernig eða hvert.  Veit ekki hvað ég á að gera við blessað barnið og er alveg ringluð.  Gat þó sofið næstum alla nóttina, vaknaði augnablik en í stað þess að vera vakandi í einn, tvo tíma eins og mynstrið hefur verið síðustu vikur þá gat ég sofnað fljótlega aftur.  Í mínu tilfelli er það kraftaverk. 

Myndlistamönnum á þessu heimili þótti fyndinn myndabrandarinn í Blaðinu í dag, um Zidane og Materazzi.  Þetta er hægt að sjá á bladid.net ef menn nenna að bíða eftir því að blaðið hlaðist niður.  Og talandi um fótbolta.  Allir sem mig þekkja vita að ég er ekki mjög áhugasöm um boltaíþróttir.  En mér finnst okurstarfssemin sem var í kringum sýningarnar á HM hér á landi ótrúlega lágkúruleg.  Og að heimta að Skjárinn lokaði fyrir þær stöðvar sem sýndu þetta.  Ég get mér þess til, ég hafði ekki lyst á að gá, að úrslitaleikurinn hafi líka verið í læstri dagskrá.  Ég hef af og til í gegnum tíðina nefnilega druslast til að horfa á leiki á HM og alltaf á úrslitaleikinn.  Hafi menn ævarandi skömm fyrir.   Hjá flestöllum þjóðum og þjóðum sem eru verr settar en við er HM sýnt í opinni dagskrá.  Public service, þið vitið.  En við Íslendingar erum víst svo "rík" að það dugar ekki hér. 

Skrítið, ég finn ekki fyrir öllu þessu ríkidæmi í mínu lífi!  Bíllinn minn er ekki Bentley, hann er 11 ára gömul Toyota Corolla sem er í þessum töluðu orðum í viðgerð svo hægt sér að kreista ögn meiri þjónustu út úr honum.  Vissulega bý ég í sérbýli en ég er að klára það smátt og smátt, svona til að forðast meiri háttar skuldsetningar svo ég er ekki á leiðinni í Innlit Útlit/Veggfóður á næstunni.  Og Íslendingar eru svo ríkir að þeir hafa ekki efni á að vera heima hjá börnunum sínum, hafi þeir áhuga á því.  Og nú eru sumir orðnir svo ríkir og vel settir að þeir geta vísvitandi farið að mjólka samborgara sína.  Þá er ég að vitna í góðmennin sem eru að kaupa upp sumarbústaðalönd þar sem leigusamningar eru við það að renna út.  Svo er fólki boðið að gera nýjan leigusamning upp á margfalda upphæð eða kaupa viðkomandi land á uppsprengdu verði.  Eiginmaðurinn kommenteraði á að þetta væri dálítið eins og Scrooge myndi haga sér.  Eða menn með Corleone eftirnafnið.

Prinsar á meðal oss, komnir til að taka alþýðuna í kakóið.  Bara smá fýla, eða eins og Billy Connolly sagði: "Oh, I do love a good rant!"


Sólskinssunnudagur

Vöknuðum snemma og fórum í leiðangur austur í Villingaholt ásamt tengdamömmu og Mumma.  Sáum þar sýningu Siggu á Grund sem er gífurlega fær tréskurðarkona og Huldu þótti afar merkilegt að sjá útskorna hesta, blóm, berar kvensur og fleira.  Skemmtilegra þótti henni þó að komast í leiktækin og sandkassann fyrir utan skólann þar sem sýningin var haldin og tók líka nokkrar atrennur í langstökksgryfjunni ásamt systur sinni.  Svo keyrðum við aðeins um Holtin og komum við í Meðalholti hjá Hannesi Lár og frú.  Mummi og Lóa héldu svo áfram í frekari ferðum en við fórum heim á leið og gripum Bjössa með sem hafði farið í göngu í Reykjadal á meðan við hin vorum að spóla um Suðurlandsundirlendið.

Við gerðum aðra atlögu að grasinu og náðum að klára flestallt en þurfum þó að beita orfi á part af brekkunni þar sem við megnuðum ekki að ná öllu.  Ég er alveg sammála nágrönnum mínum að það eigi bara að moka bölvaðri brekkunni burt og setja vegg.  Þær framkvæmdir verða næsta vor og gerðar við þrjú hús í einu.  Þá eykst fermetrafjöldinn í garðinum umtalsvert og meira skjól verður þarna.   Nude sunbathing anyone?

Einnig eru línur aðeins að mótast og skýrast varðandi hvernig er staðið að framlóðínni.  Nágrannakona mín kom með nokkrar hugmyndir um hana í gær en þau ætla aðeins að breyta og bæta hjá sér.  Hún benti okkur einnig á hús þar sem hún var búin að sjá mögulega útfærslu.  Það er mikið sem þarf að spekúlera varðandi þessi mál og markmiðið að sjálfsögðu að ná sem bestri niðurstöðu.

Annars tek ég við öllum hugmyndum og vinningshafinn fær nafn sitt skráð á spjöld sögunnar.  Eða kannski bara hér?


Okkar fyrsta...

Sláttuvél

Stóráfangi varð áðan þegar við hjónin marseruðum inn í BYKO, sóttum okkur sláttuvél og veifuðum debetkortinu flírulega framan í afgreiðslumanninn.  Enda er garðurinn farinn að líkjast meira frumskógi en settlegum bakgarði í Kópavogi.  Þetta er semsagt fyrsta sláttuvélinn okkar og við erum mjög stolt.  Eiginmaðurinn sagði mér að þótt ég hefði borgað hana þá mætti ég ekki nota hana.  Hann nefnilega ætlar að vera sá fyrsti sem slær með henni.  Svo ætlar hann að lána nágrönnunum hana.  Við keyptum svona gamaldags handvirka sláttuvél, einnig þekkt sem "bumbubaninn".  Þá finnst mér nú að ég eigi að fá að slá, ekki satt?Hlæjandi

Annars er bara stuð á liðinu, við erum öll að átta okkur og ná góðu gripi á hlutunum og allir steinsváfu í nótt.  Svo fast að kisi gat laumað sér upp í rúm til okkar (hvar Hulda var líka búin að koma sér fyrir) þannig að við sváfum fjögur í hjónarúminu í nótt.

Verkefni dagsins eru æsispennandi að vanda: þvo þvott og taka til.  Ég er búin að uppgötva að það er bærilegra að standa í þvottastússinu ef maður brýtur saman þvottinn á meðan maður er enn í þvottahúsinu.  Minn Akkilesarhæll er nefnilega að þvo og þvo og þvo og nenna svo ekki að brjóta saman.  En síðan að ég tók til á borðinu inni í þvottahúsi þá er þetta príma pláss til að ganga frá þvottinum.  Sem þetta náttúrlega var hugsað sem.  Einhver plön voru um að taka til í geymslunni og færa dótið hans kisa svo í þvottahúsið en það fer eftir veðri hvort þau plön ganga eftir.  Það er nebblega lítið spennandi að gaufa inni í ruslinu ef það er sól og blíða úti.

Ég klikkaði gjörsamlega á Lambruscoinu í gær og sullaði örlítið í bjór  í  staðinn.  Svo horfðum við á megnið af "The Last Remake of Beau Geste" með Marty Feldman og þó hún standi prýðilega fyrir sínu þá eru hún greinilega barn síns tíma.  Maður sér að klippingar eru miklu hægari en nú til dags og maður er orðin vanur snarpari framvindu.  Við höfðum ekki alveg þolinmæði í hana alla því miður.

Njótið helgarinnar!


Loksins sól og sumar!

Haldið að ég hafi ekki skroppið í Ríkið rétt áðan og keypt Lambrusco!  Já, það er rétt, gumsvínið (gums-vín, ekki gums-svín, þó það sé interesting) sem maður drekkur bara í svona veðri.  Reyndar held ég að við höfum sullað meira í áfengi í vikunni en við gerum að jafna en þetta var með erfiðari vikum.  Ég þakka innilega veittan stuðning frá vinum og fjölskyldum, þið eruð gulls ígildi.  En í dag ætlum við að taka okkur smá frí frá umræðunni og anda aðeins frá okkur.  Það verður örugglega nægur tími til að hafa áhyggjur.

Við mæðgurnar skruppum í sund í dag og merkilegt nokk var laugin bara hæfilega full af fólki.  Ég hélt þetta yrði meiriháttar kraðak, engir skápar og þess háttar stemning en þetta var mjög næs.  Eftir að við komum heim hef ég lítið gert gagnlegt nema að taka til í eldhúsinu og liggja svo fyrir framan sjónvarpið (það var orðið of hvasst til að hanga á svölunum) og flissa að henni Hyacinth okkar.  Hvað get ég sagt, engin stór plön nema að drekka umrætt Lambrusco og grilla pylsur, kannski glápa á eitthvað af okkar mörgu óséðu DVD myndum.  Vondu fréttirnar koma jú reglulega og sparka í rassinn á okkur en ég bendi á fyrri færslu frá í gær og kommentið frá henni Guðrúnu Björk.

Maður verður víst að taka þetta í þeirri röð sem þetta kemur eins og móðir mín heitin sagði gjarnan.

Ætlar virkilega enginn að prófa gestabókina?

 


Næsta síða »

Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 22210

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband