Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006

Í tilefni dagsins..

... er Þórhildi óskað hjartanlega með afmælið og vona að hún hafi það gott úti á Mallorca.

Hér á Skerinu er dáðleysið alveg að ganga frá manni vægast sagt.  Það er svo sannarlega erfitt að vera í fríi.  Spurning um orkudrykki eða amfetamínstera (sbr. Fóstbræður) til að hressa upp á sinnið.  Siggi er samt að fara að panta gler í innihurðirnar þannig að eitthvað mun þetta þokast hjá okkur. 

Á morgun eru svo liðin 18 ár frá því ég hitti karlhróið og umræður standa yfir hvort við eigum að drattast út að borða eða að elda eitthvað hér heima.  Lúxusvandamál...erfitt líf.

Letikveðjur,

Þórdís


Frí og Jónsmessa

Jæja, þá er fríið runnið upp þó það sé búið að hringja í mig þrisvar úr vinnunni að spyrja um ýmsa hluti.  Hófum fríið á föstudaginn í húsdýragarðinum þar sem foreldrafélag leikskólans hélt sumarhátíð.  Þar sáum við leikverkið Sigga og skessan í fjallinu sem Stoppleikhópurinn flytur.  Við Valgerður vorum reyndar búin að sjá þetta áður og ekki batnaði blessað verkið við endurflutninginn.  Hulda hafði þokkalega gaman af þessu framan af en fór svo að leiðast þar sem þetta er heldur langdregið fyrir þriggja ára stubba.   Mín skoðun?  Ég ætla að nota rétt minn til að viðra skoðanir mínar og svona eru þær:  Ég hefði frekar tuggið álpappír í hálftíma en að horfa á þetta ágæta leikrit.  Sorrí maður, svona er þetta.  Við fengum svo grillaðar pylsur og tilheyrandi, skoðuðum dýrin og tókum svo strætó heim.

Helgin hefur gengið þó í rólegheitunum og langt í frá að maður hafi náð þeirri afkastasemi sem stóð til að hafa í fríinu.  Ég er þó ekki jafnslæm og eldri dóttirin sem er ekki enn búin að taka upp úr töskunum, viku eftir að hún kom heim.  Og eitthvað er ég búin að þvo af þvotti í dag sem þó inniheldur lítið af plöggum téðrar dóttur.  Keyptum okkur borð á svalirnar í gær og að sjálfsögðu er alls ekki veður til að vera úti á svölum.  Þetta er svona gamaldags íslenskt sumar, ískalt. 

Í tilefni Jónsmessunnar útbjuggum við svona berjasnafs sem er eftir uppskrift sænsku matardívunnar Tinu Nordström.  Ég hef séð þessa ágætu konu í sænska sjónvarpinu af og til og svo hjá BBC.  Maður bókstaflega slefar yfir sjónvarpinu þegar hún er að störfum svo ég mæli eindregið með henni.  Það var að vísu ekki lifandi leið að finna sólber á þessum árstíma en mér skilst að systir mín ætli að láta mig hafa doldið af berjum í haust þegar hún fær sín sólber.  Við notuðum brómber í staðinn og verknaðurinn að troða berjunum ofan í vodkaflöskuna var með því spaugilegra sem ég hef gert lengi, sérstaklega þar sem maður þurfti að hlusta á brandara bóndans um kúk í formalíni og þess háttar grín.  Svo var þetta smakkað á laugardagskvöldið og þetta var verulega fínt.  Mjög elegant bragð af þessu og kom mér vægast sagt mjög á óvart.  Þannig að ykkur er óhætt að prófa, bara ganga hægt um gleðinnar dyr þar sem þetta er pjúra vodka.

Jú, á laugardaginn var borðað grillkjöt frá Pottagöldrum.  Frekar slakt kjöt falið í helling af grænu kryddi sem fuðraði upp utan á kjötinu.  Þetta er ekki Pottagöldrum til sóma sem annars framleiða ágætis krydd.  Það kvöldið var mestmegnis borðað af salati og grænmeti þannig að Danski kúrinn hélt óvart innreið sína á heimilið.  Hann verður ekki við lýði í kvöld þar sem hinar sígildu pylsur verða í matinn. 

Hafið það gott og hvernig væri að vígja gestabókina einhvern tímann fyrst ég er með svoleiðis í fyrsta sinn?


Pink lady - gleðilegan 19. júní!

Pink lady

Er nafn á svona fifties kokkteil en það er ekki málið í dag.  Þið munið stúlkur og drengir, tjalda bleika stöffinu í dag.  Við Hulda erum í það minnsta í bleiku og það er búið að skreyta gluggaóróann í stofunni með bleikri dulu.

Eigið góðan dag.


Hvað er íslenska heitið fyrir Heliochrysum?

Jæja, loksins, loksins er heilsan komin til baka.  Þetta voru nú meiri leiðindin.  Og Valgerður kemur til baka á morgun.  Núna rétt áðan var Hulda að læðast inn í herbergi til stórusystur að leita að henni.  Heyrðist voða lágt og huggulega "Hallóó", þannig að þetta verða örugglega fagnaðarfundir.

Við fórum í skrúðgöngu í gær og sáum Gunnar Birgisson og félaga á Rútstúni.  Hulda fékk snuðsleikjó og djús og horfði á Björgvin Franz í forundran þar sem hann brá sér í ýmissa kvikinda líki á sviðinu.  Svo fékk hún að fara í svona bollahringekju ásamt undirritaðri og skemmti  sér vel.

Við vorum svo feiknadugleg (not) í gærkvöldi og settum upp hengiplöntur á svalirnar.  Annars vegar Járnurt (verbena) sem lyktar alveg dýrðlega og er uppistaðan í uppáhaldskreminu hennar Huldu Katrínar og hins vegar eitthvað sem heitir Heliochrysum en ég veit ekki hvað íslenska heitið á því er.  Ef einhver veit það má sá hinn sami láta mig vita.  Þarf að skreppa í Garðheima á eftir og kaupa mat handa kettinum.  Er að spá í að kaupa nokkrar stjúpur svo vindurinn hafi eitthvað til að tæta í sig.

See you later!


Pestargemlingar einir í kotinu

Hyacinth

Eins og kom fram í síðustu færslu þá er Valgerður farin til Svíþjóðar og rétt áðan var Hulda Ólafía að fara upp á Þingvelli í fylgd vaskra meðlima Hulduhersins.  Ég er semsagt ein heima, Siggi í vinnunni en jú, kötturinn er enn hérna.  Það sem helst hefur sett svip á vikuna fyrir utan ferðir Valgerðar, eru veikindi fjölskyldumeðlima.  Hulda byrjaði í síðustu viku og var alveg ómöguleg alla Hvítasunnuhelgina.  Og af því að ungfrú þriggja ára hefur einstakt yndi af því að kyssa foreldra sína blautum kossum beint á munninn þá kom röðin að mér að vera lasin á þriðjudaginn og Siggi svo á miðvikudaginn.  Því miður er ég bara ekki enn orðin góð og sit hér og fitla við tölvuna á meðan verkjataflan mín er að virka.  Svo er hugmyndin að tína örlítið til í kotinu eftir róðarí vikunnar og gera svo eitthvað skemmtilegra.

Lágum í eymd okkar upp í sófa í gærkvöldi og horfðum á The Aristocrats hjá myndasölu Skjásins.  Vissi ekki mikið um myndina og hafði aldrei heyrt brandarann en þetta var mjög skemmtilegt.  Mæli eindregið með þessu en viðkvæmir ættu að forðast myndina.

Nágrannakona mín sem býr hér á móti var svo dugleg í morgun, þreif planið fyrir utan hjá sér með einhverri djöflamaskínu, setti sumarblóm í potta og gerði allt svo huggulegt.  Af hverju get ég ekki verið svona dugleg?  Sit hérna eins og ræfill með illt í hálsinum og hausnum og á ekki einu sinni almennilegt plan.  Búhú...  Þið hafið væntanlega heyrt frasann: "Keeping up with the Joneses..."  Eða bara "Keeping up appearances"  En þá þarf ég að eignast rósóttan kjól og fjólubláan hatt.   Ættingjar og vinir verða svo að skipa sér sjálfir í viðeigandi hlutverk.

Já, og svona að lokum.  Fann þennan link á síðunni hennar Valgerðar.  Nokkuð gott fyrir heilsuna að horfa á hann....


Valgerður farin!

Vöknuðum kl. 3:30 í nótt til að keyra Valgerði út á flugvöll þar sem hún átti að vera mætt kl. 5: 15. 

Hópurinn mun eitthvað blogga á http://blog.central.is/bblik og svo getið þið séð hér hinn stórskemmtilega gististað hjá fraukunni í Falun en hún semsagt gistir í gömlu fangelsi sem er búið að breyta í farfuglaheimili.

Og Valgerður, ef þú lest þetta, þá máttu endilega skella inn í kommentin eða gestabókina hvernig gengur hjá þér og náttúrlega email og SMS frá Símasíðunni.

 


Banka og skuldapælingar

Hér er ansi merkileg grein sem ég fann á BBC.  Væntanlega eru aðstæður eitthvað mismunandi á milli landa en engum dylst þó að skuldir almennings hafa hraðaukist á síðustu misserum.

Hvað segja viðskipta, rekstar og bankamennirnir í fjölskyldunni um þessi mál?


Smá skjálfti...

Dagurinn í dag hefur farið í prívatrólegheit hjá okkur Huldu.  Við vorum úti að þvælast í fast að tvo tíma hér síðdegis, löbbuðum um nágrennið, Hulda mokaði og svo fórum við út á róló þar sem Hulda fór tæplega milljón ferðir í löngu rennibrautinni.  Svo lék Hulda við tvær mismunandi stelpur og við fórum svo aftur heim að moka og slúðra við nágrannana.  Valgerður var hins vegar að vinna á móti hjá Breiðabliki og kom heim fyrir svona klukkutíma og er steinsofandi í sófanum.

Fréttum í gær að það er að koma röðin að Huldu á greiningarstöðinni, kemst að fyrstu vikuna í júlí.  Það var ekki laust við að blessuð hjónin fengju smá backflash og skjálfta við þær fréttir, eins órökrétt og það er því það er auðvitað bara verið að grafast fyrir um hvað er í gangi hjá stubbinum og reyna að hjálpa henni.  En það er að sjálfsögðu stór pakki að vera veginn og metinn og (vonandi ekki) léttvægur fundinn.  Og eins og frænkurnar bentu svo réttilega á í gær, þá væri þetta ansi óþægilegt ef maður ætti sjálfur að fara í svona greiningu.  En þegar við fyrst fengum þær fréttir í haust að ástæða væri til að athuga barnið frekar þá voru nokkrar vikur og jafnvel mánuðir þar sem okkur leið hreint ekki vel.  Það útskýrir kannski skortinn á jólakortum kæru bræður og systur í frysti!  En við erum hér ennþá og Hulda líka, öll saman, og munum taka því sem að höndum ber eins og víkingum sæmir!

Þeir sem vilja fréttir af kettinum, þá gengur honum afskaplega vel að samlagast heimilinu.  Hann fær að skreppa út að frílista sig á kvöldin og er orðin mikið til bumbulaus.  Samt er hann enn jafnþungur og hann var þegar hann kom og fær núna að borða tvisvar á dag svo hann er ekki sveltur.  Og þessi sómaköttur leggur aldrei kló á smábarnið þótt hann fái oft ansi óblíða meðferð hjá henni.  Gentle giant eða hvað?  Fjölskyldan er sammála um að þetta sé gæðaköttur, einn af þeim bestu.


Qu'ils mangent de la brioche

Ég er farin að halda að við Íslendingar búum við sama siðgæði og sömu innræktun og lítið mafíósaþorp.  Firringin er ótrúleg.  Í fyrsta lagi er Hæstiréttur búinn að leggja blessun sína yfir að stolin gögn séu brúkleg og til góðra hluta líkleg ef það er í þágu almennrar umræðu.  Ég sé rakin tækifæri hér til að leggjast á tölvur og póst góðborgaranna því það gæti verið í þágu almennrar umræðu.

Svo er ráðherrum hótað lífláti og eftir á að hyggja voru þeir bara ekkert svo mikið að meina það "Sorrí maður!  Við meintum Álgerði" ???  Er ekki í lagi heima hjá þessu fólki? 

Stundum hefur maður á tilfinningunni að íslenski veruleikinn sé að skreppa saman hægt og rólega og að herðast utan um hálsinn á manni.  Stéttskipting hefur svosem alltaf verið til á Íslandi þótt hún hafi ekki verið opinber en núna, með ofurríka fólkinu, þá eru hlutirnir komnir í annað og stærra veldi.  Og allir gleyma því að flestir þeir sem þjóta um á einkaþotum og Bentleyum eru að bruna um á hagnaðinum af Þorra Almennings, nokkuð sem gerist af því við erum á eyju og auðvelt að stýra hvar við verslum og við hvern.  Og bankarnir eiga þegnana með húð og hári.  En kannski er barasta spennandi að vera búin að fá alvöru íslenskan Aðal.  Við hjónin vorum að spá í því hvort það þyrfti að huga að búferlaflutningum þegar þetta verður endanlega Baugsland, til dæmis til Frans, en komust að þeirri niðurstöðu að betra væri að flytja inn franskt hugvit.  Nei, ég er ekki að hóta neinum!  Bara djók.  Sorrí maður!


Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 22209

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband