Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Dálítið þreytt

Mitt helsta áhugamál þessa dagana er að sofa.  Ekki þó svo að skilja að ég nái að sinna því eins og ég vildi.  Valgerður fer í vinnuna á morgnana, kallinn með og hver haldið þið að sjái um að vekja þau?  Við Hulda erum búnar að vera saman í meira en viku, það stóð til að hún færi í leikskólann á fimmtudaginn en vaknaði með augun samanklístruð og þótti ekki eiga erindi í leikskólann.  En hún kom með mér í vinnuna og át ömmusnúða, hrekkti Hörð inni í stúdíói og horfði á teiknimyndir.  En hún er orðin dálítið þreytt á rútínuskortinum og saknar leikskólans.  Þetta sýnir hún okkur með því að vera sérlega uppátektarsöm, stríðin og á köflum, í slagsmálum við systur sína.  Satt best að segja verð ég guðslifandi fegin þegar leikskólinn byrjar aftur! Og ég er vægast sagt uppgefin eftir þessa daga.

Annars er síðasti dagur ársins framundan, hátíðahöld plönuð og freyðivínsbolla sem við Guðrún erum búnar að plotta.  Ég sendi ykkur öllum hugheilar áramótakveðjur og vona að þið hafið það sem allra best á nýja árinu.

Kveðja,

Þórdís


Jólabörnin eru...

Jesús Kristur og Helga systir mín.  Semsagt, dúndur afmælisóskir handa systur minni, þótt ég hafi boðað þær í eigin persónu, bæði í gær og í dag!

Ég bæti við myndum af útsýninu sem okkur bauðst í dag.  Við meira að segja náðum ekki í kirkjugarðinn vegna veðurs!

Góðan jólan, eða þannig.

Þórdís

Jóladagsútsýni

Gleðileg jól!

Jóladagur loksins runnin upp og fólkið aðeins að ná öndinni (hún er að þiðna uppi í eldhúsi as we speak!)

Ótrúlega annasamur mánuður en það hjálpaði þó að helgin lá svona skemmtilega að jólunum.  Ég fer að vinna á þriðja í jólum, að vísu stuttan dag en verð svo í fríi daginn eftir.

Aðfangadagskvöld gekk alveg ágætlega fyrir utan trönuberjasultuna sem frúin brenndi á meðan hún var að snyrta á sér trýnið.  Fyrir einhverja stórfenglega tilviljun hafði tengdamamma gaukað að mér aukapoka af trönuberjum svo málinu var reddað.  En það er ekki útséð með að aumingja pottinum sem lenti í þessum hremmingum væri reddað.  Við borðuðum snigla í forrétt, að vísu ekki heimatilbúna i þetta sinn en góða engu að síður (mínir eru betri!)  Svo var eldaður kalkúnn, að þessu sinn að hætti Nigellu og útbúin "fylling" með kastaníum sem var bökuð sér.  Eftirréttinum var slaufað og borðað í staðinn gómsætt súkkulaði með chili og þurrkuðum appelsínum.

Hulda var afskaplega dugleg og þolinmóð í gegnum þetta allt en þegar henni fannst máltíðin vera farin að dragast á langinn fór hún að brúka sig aðeins, fleygja spilum til að ná athygli og segja "Ég fáa pakkana mína!"  Og þá var restin af máltíðinni hespað af og farið í pakkaopnun.  Hulda fékk gnótt góðra gjafa en sigurvegarar kvöldsins voru ótvírætt Öskubuska og Prinsinn í dúkkuformi sem áttu svo miklum vinsældum að fagna að þau voru tekin með upp í rúm.  Prinsinn reyndar var búin að bæta í kvennabúrið þremur nöktum barbie dúkkum sem ferðast um með honum á flesta staði.  Afar prinsalegur siður sýnist okkur.  Við gáfum Huldu rafmagnstrommur enda er hún búin að hafa gríðarlegan áhuga á trommum í haust.  Um daginn vorum við til að mynda í búð og Hulda stóð við tvær kökudósir og spilaði.  Einnig er minnisstæð ferð sem við fórum með Sigga í Rín og á meðan Siggi var að skoða gítara og spjalla við afgreiðslumanninn gekk Hulda í rólegheitum að rafmagnstrommusetti, tyllti sér á stólinn, setti á sig heyrnartólin og tók upp kjuðana.  Fór svo að spila, nokkuð taktfast og örugglega og hélt meira að segja rétt á kjuðunum.  Skemmst frá því að segja að allir í  búðinni voru gapandi, ekki síst afgreiðslumaðurinn sem hafði aldrei séð lítið barn gera svona.´

 Ég óska ykkur allra svo gleðilegra jóla og hafið það náðugt!  Ég veit að ég ætla að reyna þaðWink


Ég er ekki hætt...

...en ég hef haft mikið að gera.  Jólasísonið í fullum gangi í vinnunni og maður kemur heim og missir meðvitund í lok dags.  Ég hef ekki þorað að mæla blóðþrýstinginn síðustu viku en er uppálagt að mæta hjá heimilislæknunni í eftirlit á næstunni.  Var reyndar orðin ágæt en sjáum til.  Afrekaði að fá magapest í byrjun viku og vottar enn fyrir ógleði núna nokkrum dögum síðar.  Myndi það kallast hálfvelgja?

Var að fá þær fréttir að ný frænka hefði bæst í heiminn í Kanada hjá þeim Jóni og Nicole.  Sendi árnaðaróskir vestur um haf og ég þori varla að hugsa um hvað ég er orðin margföld ömmu og afasystir.Smile

Og ekki er ég neitt sérstaklega dugleg hér heima fyrir í dag verð ég að viðurkenna.  Ekki búin að baka sautján sortir eða gera neitt sem virðulegar húsmæður gera.  Og kallskrattinn ætlar að yfirgefa mig á morgun til að fara í vinnuna.  Kannski get ég gert eitthvað "myndarlegt" á meðan.

Þó ekki víst.


Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband