Viðbætur...

Ég bætti við tenglum í tenglalistann.  Þar er Hörður samstarfsmaður minn sem er mikill áhugamaður um ljósmyndum.  Einnig þótti mér kominn tími á að setja inn vinnustaðinn því þar er ég jú flesta daga vikunnar.  Einn fyrirvari er þó á þeirri síðu, myndin sem er af mér þar er stórfurðuleg vægast sagt.  En mér finnst það reyndar bara fyndið, álíka og þegar menn draga upp ökuskírteinin og fara að bera saman listaverkin sem þar finnast.

Einnig drattaðist ég til að setja inn smá höfundarupplýsingar og nú er bara eftir að setja uppfærða mynd af yours truly þar sem hárlengdin á myndinni er orðin úrelt.

Já, by the by, ég hef sjaldan fengið jafnmikið hrós um hárið á mér eins og núna þegar fer að halla í fimm mánuði frá síðustu klippingu og litun yfir gráu hárin!  Hvað á það að þýða?


Tveggjaviknapistillinn

Margt og mikið búið að gerast á síðustu tveim vikum.  Vinnan fór í óvissuferð um síðustu helgi og við eiginmaðurinn þar með.  Ég þurfti reyndar að koma sjálfri mér með afli af stað því ég er ekki duglegasta manneskjan í svona hópefli.  Skemmst frá því að segja að það var svakalega gaman.  Skruppum svo til Gaflaranna á eftir, Siggi var í stuði og drakk kaffi en ég kúrði mig bara niður í sófann og svaf!  Daginn eftir var svo kallinn afskaplega þreyttur og mér skilst að vinnufélagarnir hafi líka haft "rólegan dag"!

Annars er eins og alltaf, búið að vera mikið að gera.  Kallinn er búinn  að moka holurnar fyrir pallinum og er að fara að viða að sér efni í undirstöðurnar.  Fyrir svo ykkur sem viljið vera nær mér þá er húsið við hliðina á mér komið á sölu! 

Hulda er í banastuði þessa dagana en er ógurlega upptekin af mömmu sinni núna.  Ég á helst að gera allt fyrir hana, halda á henni sem mest og um daginn þegar ég setti hana í rúmið að sofa kom setningin (með ánægjudæsi): "Er ég og mamma!"  Hvað get ég sagt annað en það er svakalega gaman að vera mamma núna!  Ekki að það sé leiðinlegt verk.

Unglingurinn sést varla hér heima vegna vinnu og vinkvenna en lét þó svo lítið að vera heima á föstudagskvöldið og glápa á video með foreldrunum. 

En, dagurinn bíður og heilt fjall af þvotti sem þarf að vinna á, fjöldi af búðum sem þarf að fara í og bílskúr til að taka til í svo hægt sé að framkvæma meira hérna.  Huldan er að fara að hitta frænkurnar svo hún trompist ekki í búðarröltinu. 

Eigið góðan dag!


Ýmis tímamót

Í dag á afmæli fröken Stefanía Helga og myndi vera orðin tvítug!  Til hamingju með afmælið!Wizard
Í gær átti svo hann Mummi afmæli og við erum að fara að borða á Víðivöllum í kvöld af því tilefni.  Sú heimsókn þjónar líka þeim tilgangi að Valgerður hitti föðurfólkið sitt því hún er alltaf að vinna þegar við förum í laugardagsmatinn til ömmu hennar.

Maddama Kristrún, daglega nefnd Kiddý, ein af mínu bestu vinkonum, varð fertug þann fyrsta september.  Hún var að sóla sig á Mallorku á afmælisdaginn þannig að ég ætla að fara að gera mér ferð í Hafnarfjörðinn til að gefa frúnni pakka!  

En ekki eru öll tímamót af sama toga þessa dagana.  Hún Kristín, mamma hans Helga, lést í síðustu viku og við vottum fjölskyldunni innilega samúð okkar.  Mætur og vænn maður tengdur vinnunni minni lést um daginn og ég var við jarðarför hans í síðustu viku.  

Af okkur er það að frétta að heimilisfaðirinn keppist við að grafa holur fyrir utan húsið og gengur allvel með verkið.  Við fórum svo á svokallaðan þjónustuteymisfund á vegum Kópavogsbæjar vegna hennar Huldu Ólafíu á miðvikudaginn.  Þar hittast allir þeir aðilar sem koma að uppfræðslu og aðbúnaði stúlkunnar á einn eða annan hátt svo þetta verða ansi stórir fundir.  En þetta var gríðarlega jákvæður fundur og meðal annars var stuðningur við stúlkuna aukinn um einn klukkutíma á dag, án þess að við bæðum um það.  Talsvert önnur saga en sumir foreldrar einhverfra barna í Reykjavík hafa verið að segja, en þau segja flest frá því að það þurfi að berjast með kjafti og klóm til að ná einhverjum framförum á þessu sviði.  Þannig að grínlaust, það er gott að búa í Kópavogi.

Mér finnst ég aðeins vera farin að ná andanum og hlutirnir smátt og smátt að verða viðráðanlegri.  Eitt er þó sem ég er í bölvuðum vandræðum með og þarf að fara að gera gangskör í.  Það er að grisja fatabunka fjölskyldunnar.  Úr sér gengin föt sem enginn notar lengur, stífla fataskápa og þvottahús heimilisins eins og illvíg hægðatregða og koma í veg fyrir að núverandi föt séu geymd og haldin á skikkanlegan hátt.  Það eru einhver ár síðan ég tók rassíu í þessu svo ég þarf að láta hendur standa fram úr ermum núna og láta Rauða Krossinn njóta þess sem hægt er.
En...þangað til næst, hafið það gott.

Ráðskona óskast í sveit!

Enn eru kvefrestar að gera okkur lífið leitt, ekki síst vegna þess að það hefur verið mikið að gera hjá öllum og enginn hefur haft tíma til að dorma heima og láta sér batna almennilega.  Enda hrundi ég í sófann þegar ég kom heim í gærkvöldi og sofnaði, nokkuð sem ég hef ekki gert í einhver ár.  Svo fór ég sómasamlega að sofa um kvöldið og var ekki í nokkrum vandræðum með það, svaf aðeins frameftir og hefði alveg getað sofið lengur.  Enda hefur ástandið á heimilinu ekki skánað nein ósköp í vikunni.  Svei mér þá að maður þyrfti að  hafa ráðskonu eða þá svona karakter eins og hann Jeeves er fyrir Wooster.  En maður þarf víst að hafa rýmri fjárráð en ég hef í svipinn til að hafa svoleiðis lúxus.

Hulda sagði áðan við pabba sinn eftir að hann hafði verið að stríða henni ítrekað (taka húfuna af henni)  You are mean!  Sagt hægt og ákveðið! 

Jeeves 

Svo er Pavarotti búinn að yfirgefa samkvæmið.  Móðir mín heitin dró mig á tónleika með honum þegar hann kom hingað til að syngja á Listahátíð.  Ég hafði varla hundsvit á því hvað ég var að hlusta á á þeim tíma en er búinn að læra að meta manninn núna.  Hann er fastagestur hér á jólunum og syngur fyrir okkur á aðfangadagskvöld og jafnvel oftar yfir árið.  Og aðrir söngvarar fölna flestir við hliðina á honum.

Kveð ykkur að sinni, farin að sinna húsverkum og fjölskyldu.  Kallinn segist vera búinn að opna rauðvínið og að ég eigi bara að vera niðri og skipta mér ekki af þessu.  Best að leiðrétta þennan misskilning strax!


Þriðjudagur

Við höldum áfram hérna megin að skiptast á kvefpestum og núna er unglingurinn búinn að vera óstarfhæf í tvo daga.  Einhverjar heitstrengingar er hún með að fara í skólann á morgun og ég vona heitt og innilega að hún sé ekki að dreifa sýklum meira en orðið er.  Hulda byrjaði á stóru deildinni í morgun og var nokkuð hróðug með þá þróun mála þótt henni þætti dálítið óþægilegt að það væri rætt of mikið um þessa þróun mála.  Í vinnunni er talsvert mikið af því sem kallast á engilsaxnesku "busywork", mikil vinna, ekkert sérstaklega gefandi.  En vinnufélagar mínir plana þó óvissuferð 22. september, eitthvað sem innifelur aukaföt fyrir þáttakendur.  Vona að það sé ekki of subbulegt!

Í dag var svo jarðsettur Árni Ibsen sem er mikill missir fyrir íslenskt menningarlíf, en mestur þó fyrir fjölskyldu hans.  Það síðasta sem ég sá eftir hann var Himnaríki, náði með naumindum í síðustu sýningu og sú sýning er ein af þeim bestu sem ég hef séð í leikhúsi.  Ég er ekki mikið fyrir farsa en þetta verk stóð öllum slíkum verkum sem ég hef séð öðrum mun framar og innihélt miklu meira en bara brandara sem eru yfirleitt uppistaðan í slíkum stykkjum.  Ekki svo að skilja að þá hafi skort, en þetta var eitursnjallt stykki, frábær texti og svínvirkaði í leikhúsi.  Góður rithöfundur er genginn og við þökkum innilega það sem hann gaf okkur.


Haustkvef

Frekar erfið vika að baki.  Gríðarlega stór verkefni í vinnunni, mikið stress en allt hafðist þó að lokum.  Fékk að auki leiðindakvef og er enn að fást við það vandamál.  Létum slæma heilsu þó ekki koma í veg fyrir að við skryppum á Ljósanótt í gær.  Skoðuðum haug af sýningum, flestum í amatöradeildinni fyrir utan eina.  Sú var skipulögð af Guðmundi Rúnari Lúðvíkssyni og við lá að við misstum  af henni af því hún var uppi á lofti og við höfðum ekki rænu á að fara þangað.  Guðmundur hins vegar sá Sigga út um gluggann og kallaði á okkur upp.  Sýningin í það minnsta endurvakti trú mína á mannkyn og myndlist þann daginn.  Svo var heilsað upp á pabba og Immu og borðaðir frábærir hamborgara hjá Helgu og Stefáni.  Hulda var margmál eftir flugeldasýninguna:  "Þetta er fínt.  Og fallegt.  Og flott.  Vááá!"

Húsið er bókstaflega í rúst  eftir vikuna.  Bara það allra nauðsynlegasta hefur verið gert, annars hefur áherslan verið á að fara skikkanlega að sofa og ná heilsu.  Þannig að í dag verð ég í húsverkunum og húsbóndinn er með það verkefni að fara út og grafa holur fyrir pallinum alræmda.  Ef ég hef nægilegt bragðskyn elda ég hugsanlega nýslátrað lambakjöt með rótargrænmeti í kvöld, með betri réttum sem ég veit.  Annars eru allrar athygli verðar flöskurnar frá Firefly Tonics sem fást núna í búðum.  Búið til af grasalæknum og á  víst að vera magnaður metall.  Ég prófaði eitthvað sem heitir Self Defence (tvisvar)  þegar pestin fór að gera vart við sig og hingað til hefur mér gengið betur að losna við þetta heldur en Sigga sem er búinn að fást við þetta í rúma viku.

Fjölskylda og vinir flykkjast nú til að skrá sig á Facebook og ég er þar ekki undanskilin enda afar góð leið til að halda sambandi við fólk.  Skoðið málið!


29 ára...ennþá

Þá er afmælisdagurinn runnin upp og ég er að sjálfsögðu enn 29 ára.  Lítur út fyrir að dagurinn fari í að taka til í bílskúrnum og henda rusli og í þessum töluðu orðum eru Siggi og Valgerður í Sorpu að losa heimilið við flöskur og dósir.  Það hafa engin ósköp gerst fyrir utan hús þar sem bóndinn hefur verið að vinna á kvöldin og brá sér meira að segja frá í miðju götugrilli á laugardagskvöldið og skrapp í vinnuna til að gera stykki sín (hí hí - það heitir víst að lakka nokkur stykki en hitt er fyndnara).  Götugrillið var svakaskemmtilegt og ég og Valgerður enduðum inni í eldhúsi hjá Eddu nágrannakonu að kjafta frameftir nóttu.  Daginn eftir var afskaplega rólegt í götunni svo ekki meira sé sagt.  Við Hulda gláptum dálítið á sjónvarp og fórum svo og hittum Valgerði í vinnunni hennar og borðuðum með henni.  Svo var rölt heim á leið og stoppað í sjoppu til að kaupa súkkulaðidýr handa Huldunni og komið við á róló að æfa sig í rennibrautinni og að leika í litla húsinu sem þar er.  Kvöldið var nokkuð mellow, unglingurinn kominn niður á Miklatún og við gamla fólkið elduðum okkur pasta og horfðum á sjónvarpið.  Í nótt dreymdi mig svo að John Cleese væri að kenna mér að búa til sápu með prímus og smjörpappír og honum fannst ég afleitur nemandi.  Ég var víst í stórhættu með að sprengja allt draslið í loft upp og gott ef æfingin endaði ekki með að herra Cleese hljóp öskrandi í burtu.  Þessa dagana er ég að lesa Fragile Things eftir Neil Gaiman, einn af mínum uppáhaldshöfundum, og þess má geta að myndin Stardust sem er að koma er gerð eftir sögu hans.  Svo maður minnist ekki á Sandman sem er algjör klassík.

En kvöldið í kvöld verður haldið heimavið, heilgrillaður grís, varðeldur, dansandi sveinar....nei, ætli það verði ekki eitthvað rólegra en það.  En kannski fæ ég pakka!


Óglaður dagur

Sumarfríið er búið og ég er búin að vera í vinnunni í tæpa viku.  Hafði þó ekki af að fara í dag þar sem ógleði og kveisa herja á mig.  Er að vona að heilsan sé að batna.

Hulda fékk hlaupahjól í gær, svona mini útgáfu með þremur hjólum sem kemst blessunarlega ekki mjög hratt.  Hún er ekki alveg búin að ná tökum á tækninni með að ýta sér áfram þannig að aðalsportið núna er að standa á hlaupahjólinu og láta tábrotna móður sína trilla sér fram og aftur um gangstéttina!  Hún er farin að vera duglegri að vera úti og stingur ekki af eins og hún gerði áður.  Svo þegar maður er með hana úti hittir maður nágrannana, þá er að gera sig vel að segja fólki frá því hvernig manneskja Hulda er og mér sýnist að hún fái konunglega meðferð fyrir vikið.  Skemmtileg og jákvæð þróun sem ég vona að haldi áfram.

Fyrsta "skóflustungan" að pallinum fyrir framan var tekin í gær þegar við byrjuðum að stinga upp bévítans grasið sem við ösnuðumst til að setja fyrir framan hús.  Lífið væri svo sannarlega einfaldara ef við hefðum bara hent afgangstorfinu þegar var tyrft aftan hús í stað þess að vera nýtin og troða því fyrir framan hús.  Eiginmaðurinn er búinn að fá áætluð verð á efni í pallinn en það er, nota bene, áður en bræður hans prútta verðið niður.  Og við erum að fá grófa kostnaðaráætlun á hellulögnina.  Við skruppum og skoðuðum Fornalund hjá BM Vallá til að spekúlera hvaða grjót okkur líst á en eitthvað gekk mér illa að settla mig á eitthvað ákveðið.  Línur gætu þó farið að skýrast.

Bókin á náttborðinu er Unstrange Minds og fjallar um hvort einhverfa sé raunverulegra að verða algengari eða hvort þetta sé spurning um breyttar skilgreiningar og betri greiningar.  Fyrir bók sem er skrifuð á fræðilegu nótunum er hún mjög læsileg og hreinlega bara gaman að lesa hana.  Svo er ég að sjálfsögðu búin að lesa Harry Potter hinn síðasta og fannst hún mjög góð.  Um daginn las ég svo "To kill a mockingbird"  sem ég hafði aldrei lesið áður og sama einkunn og hinar, snilldarbók.  Ég hef ekki lesið svona margar bækur í röð í nokkur ár held ég.  Þess ber að geta að ég fékk bókasendingu frá Amazon um daginn.  Næsta mál á dagskrá er að útvega sér fleiri bókahillur - eða halda tombólu!


Að taka eftir litlu hlutunum.

Af því mér gengur afleitlega þessa dagana að framkvæma stórverkin sem liggja fyrir, er ágætt að veita litlu hlutunum stöku sinnum athygli.

Húsið mitt er farið að líta út eins og vísir að nornabústað.  Á svo sem bærilega við! Wink
En það eru semsagt allnokkrar köngulær búnar að gera myndarlega vefi uppi við þakskeggið og ég hef  leyft þeim að gera þetta í næði.  Svo hef ég horft á þær stækka viku frá viku.  En í staðinn hefur varla komið fluga inn í sumar og ég vona að þær veiði vel þegar geitungasísonið byrjar (Köngulærnar uppi á Víðvöllum gæða sér á geitungum - ég hef staðfest vitni!).   Hulda fylgist líka vandlega með þessu og bendir mér á þær reglulega enda mikil áhugamanneskja um köngulær.  

Í eldhúsinu er hins vegar farinn að spíra lítill grænn sproti í potti eftir að ég stakk niður sítrónufræi í sumar.  Hafði enga trú á því að neitt myndi gerast en þetta kom skemmtilega á óvart.  Mér finnast laufblöðin í sítrustrjám svo falleg þannig að ég vona innilega að þetta vaxi vel.

Úti á svölum er líka farinn að vaxa hvítlaukur þar sem við Hulda stungum niður rifjum í vor.  Að vísu virðist bara einn af níu ætla að koma upp en einn er betra en ekki neitt.

Og Hulda kerlingin er farin að nota smáorð og ávörp í miklu meira mæli í sumarfríinu.  "Góðan daginn mamma!", "Já mamma" svo eitthvað sé nefnt.  Ég vona líka að þessi þróun haldi áfram.

Kötturinn er farinn að finna sér leið út úr húsinu á nóttunni.  Ég hef ekki hugmynd um hvar því gluggarnir eru bara opnir á efri hæðinni.  Honum er reyndar alveg trúandi til að hafa fundið leið niður fyrst hann getur hoppað upp á svalir!  Svo gólar hann og grætur fyrir utan gluggann minn þegar hann vill komast inn um miðja nótt og nágrannarnir eru örugglega farnir að hugsa honum þegjandi þörfina.  Og ég, sem sef laust, er sú sem opnar fyrir prinsinum!

Þetta var semsagt smáatriðapistill dagsins!  Þegar röðin kemur að stóru hlutunum eins og palla og garðasmíði, hellulagningu plansins eða tiltekt í þvottahúsinu, mun ég blogga um það af offorsi! (Vona að það verði sem fyrst!)


Ferðir...

Eins og alþjóð (eða í það minnsta okkar nánustu) veit, endasentumst við norður í félagi við Njarðvíkurliðið.  Vorum þar í góðu yfirlæti hjá okkar fólki en náðum því miður ekki að samstilla okkur við Kristínu.  Ég er að starfa í því að koma myndunum sem ég tók, í notendavænt form og mun koma þeim til ykkar (norðanfara og gestgjafa) við fyrsta tækifæri.  Innilegar þakkir fyrir okkur.

Á laugardaginn skruppum við í fertugsafmælið hans Braga og fær hann hér með opinberar hamingjuóskir með að hafa náð þessum virðulega aldri!  Þetta var um daginn og um kvöldið skruppum við á Þingvelli og hittum Gunna og Kiddý, Ólöfu og Örnu vinkonu hennar.  Þar var grillað, borðað, drukkið, Hulda elt út um allt tjaldstæði og dregin frá öllum hundum tjaldbúa og svo gistum við í nýja smáauratjaldinu okkar. Daginn eftir var orðið þungbúið svo öllu var pakkað saman og mátti ekki seinna vera því fyrstu droparnir féllu sirkabát um leið og allt var komið í bílinn.

Við gengum svo aðeins um á Þingvöllum, skoðuðum Nikulásargjá hvar Hulda henti allnokkrum krónupeningum ofan í, skoðuðum Þingvallabæinn og fórum inn í kirkjuna.  Á meðan við vorum að rölta þarna um heyrðum við ógurleg sírenuhljóð og ennþá að streyma lögreglubílar að á meðan við vorum að keyra í burtu.  Við vissum ekki hvað þetta var fyrr en við komum í bæinn og heyrðum hinar skelfilegu fréttir sunnudagsins.  Það er ekki laust við að maður væri ansi sleginn eftir daginn.

 En að lokum... mynd af fjölskyldunni á la Simpsons!  Ég er þessi síður brosandi!

familian


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband