Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Galdrar

Fyrir einhverjum vikum var Hulda hjá mér uppi í rúmi og átti í erfiðleikum með að sofna.  Ég kveikti á útvarpinu þar sem það róar stundum okkar manneskju og í gangi var djassþátturinn 5/4 sem Lana Kolbrún Eddudóttir er með.  Það er reyndar alveg pottþéttur þáttur og gaman að hlusta á hann alla jafna.  En kvöldið sem um ræðir var hún eingöngu að spila tónlist með Esbjörn Svenson Trio - EST.  Við lágum semsagt þarna í myrkrinu og hlustuðum á heilan þátt af góðri tónlist.  Hulda var reyndar löngu sofnuð þegar þátturinn var búinn en ég kláraði að hlusta á hann.   Nokkrum dögum seinna pantaði ég miða á tónleikana sem þeir félagar halda hér á Listahátíð.
Þeir tónleikar voru semsagt haldnir í gær á Nasa og svo verða reyndar aðrir í kvöld.  Skemmst frá því að segja að þeir voru ótrúlega góðir, héldu manni dáleiddum frá fyrstu nótu til hinnar síðustu.  Ekki slegið feilpúst.  Brjálæðislega góðir hljóðfæraleikarar. Og ótrúlega góður hljóðmaður sem þeir hafa með sér.  Ef eitthvað er laust enn á tónleikana í kvöld, mæli ég með að fólk kíki.  Ég keypti einn disk, Tuesday Wonderland en ætla að bæta smátt og smátt í safnið.

Svo er að sjá hvernig gömlu mennirnir í Deep Purple og Uriah Heep standa sig annað kvöld.

Einhverfudívan

Valgerður er komin heim, kát og hress og sjarmeruð upp úr skónum af þýskum sjentilmönnum.  Hulda var innilega ánægð með að sjá hana og faðmaði og kyssti hana.  Kötturinn hins vegar var dálítið snúðugur til að byrja með en gaf sig svo og er líka nokkuð sáttur.

Mig langaði til að benda ykkur á snilldarsíðu.  Hún er skrifuð af konu að nafni Donna Williams sem er einhverf og er ötul baráttumanneskja fyrir réttindum einhverfra.  Hún kallar sjálfa sig The Autism Diva og ég held hún beri það heiti með sóma.  Ég datt inn á síðuna hennar fyrst þegar grunur kom upp um að Hulda þyrfti frekari skoðunar við og það var virkilega gott fyrir andann og sálina að lesa það sem konan skrifar.  Hún er reyndar sálfræðimenntuð líka svo eitthvað hefur konan til sín máls.  Svo myndi ég líka benda ykkur á að kíkja á tenglana á síðunni hennar, þar kennir margra grasa sem eru þess virði að skoða.

First Lego League í fullum gangi!

Hvet ykkur til að kíkja á heimasíðu Nanóveranna (Legoliðið sem V. er í) sem eru að keppa fyrir Íslands hönd í First Lego League.  Þau eru búin að blogga nokkuð oft í dag eftir því sem líður á keppnina og bara nokkuð gaman að lesa hvað þau eru að gera.  Þar er líka linkur á beina útsendingu frá keppninni, fyrir þá allra hörðustu.  Svo er bara að senda góðar hugsanir fyrir lokaatrennuna.

Gangi ykkur vel og góða skemmtun!  Hlökkum til að sjá ykkur aftur!


Heia Norge!

Nú er unginn kominn til Bodö að keppa í First Lego League.  En fyrst er haldið upp á þjóðhátíðardag Norðmanna í dag og Valgerður er búin að æfa sig ítrekað í að syngja norska þjóðsönginn skv. handskrifuðum blöðum frá Geir Haarde og Siv Friðleifsdóttur!Wink
Enda Norðmenn að mæta hér með her og tilheyrandi innan tíðar.  Það er minnisvarði hér í Kópavoginum um síðustu afrek þeirra félaga (1262)!
Þess utan virtist vera ágætt hljóð í dömunni þegar ég talaði við hana í gær nema hvað hún var að vonum þreytt eftir langa ferð og lítinn svefn.
Hulda Ólafía fer í dag í sveitaferð í Biskupstungur með Njarðvíkingum svo undirrituð verður ALEIN (fyrir utan köttinn) að taka til og hringla um í húsinu.  En ég ætla að sjá hvort mér gangi ekki eitthvað að sinna mínum verkum hér heima fyrir án þess að heyra reglulega sönginn: "Mamma, ég vil pissa!" Merkilegt hvað hún Valgerður þarf ennþá hjálp við þetta! Bara að grínast gott fólk!

Gleðilegan Upsteppers Day! (Ja vi elsker dette landet)
 

Einhverfupælingar

Ég ætla að að leyfa mér að setja stórt spurningamerki við myndina Hear the Silence sem er í kvöld á RÚV.

Hún fjallar um þær hugmyndir að bólusetningar með MMR bóluefninu (samsett bóluefni v/ mislinga, hettusóttar og rauðra hunda) valdi einhverfu.

Þessi hugmynd kom fram í kjölfar einnar rannsóknar sem seinna var talin gölluð og allmargar rannsóknir hafa verið gerðar í kjölfarið sem hafa ekki fundin nein tengsl á milli bólusetninga og einhverfu.

Mér sýnist að efnið sé sett fram á vilhallan hátt svo sem má sjá í dómi Guardian. Ég ætla samt að renna myndinni inn á harða diskinn og líta á hana seinna.

Ég veit það bara að dóttir mín 'versnaði' ekki eftir bólusetningar. Hulda er búin að vera það sem hún er frá fæðingu. Hún horfði alltaf miklu meira á fólk heldur en hluti og hlustaði frekar á tónlist frekar en tal. Fantafínn krakki, hvað sem hún kallast á fagmáli.

En það er örugglega freistandi að finna blóraböggul þegar unginn manns reynist vera öðruvísi en önnur börn. Það er óhemju sárt og erfitt að þurfa að horfast í augu við slík sannindi. Og bólusetningin er gerð á svipuðum aldri og einhverfa fer að verða greinanleg. En einhverfa var til löngu áður en bólusetningar urðu almennar. Einhverfa finnst líka þar sem börn eru ekki bólusett. En síðustu árin hafa sjúkdómarnir sem bólusett er gegn, látið á sér kræla í þeim samfélögum þar sem bólusetningartíðnin hefur lækkað. Í fyrra minnir mig að breskur drengur hafi dáið af völdum fylgikvilla mislinga.

En kannski liggur vandamálið frekar í því að nútímasamfélag gerir miklar kröfur um að allt sé fullkomið. Börnin fullkomin, bíllinn fullkominn, húsið fullkomið,lífið fullkomið (Helst ekki að deyja. Það er bæði ósmekklegt og vandræðalegt!) Við skiljum sennilega ekki enn að varíantar finnast í nátturunni, líka hjá okkur. Við gleymum hreinlega að gera ráð fyrir því að lífið sé óútreiknanlegt.

Og við værum ekki hér í dag nema vegna þess að lífverurnar sem voru á undan okkur tóku stökkbreytingum og voru ekki allar eins.

Og ef einhverfurófið væri þurrkað út væri vafalaust hægt að leggja niður einhverjar deildir í Háskólanum.

Annars.... það líður að kosningum og ég mun fagna þegar kosningapósturinn hættir að berast. En ég ætla að fylgjast með kosningasjónvarpinu á morgun, svona á eftir Júróvisjón. Vona að frambjóðendur verði sáttir við sinn árangur og landslýður sömuleiðis.


Uppfærslur og hvatningar

Valgerður er komin með síðu hér á Moggablogginu.  Tengill hér til vinstri hefur verið uppfærður en endilega kíkja á stúlkuna.

Svo hvet ég þá sem ekki gera það nú þegar að kíkja á síðuna hennar Auðar hvar hún segir frá ævintýrum sínum á Sri Lanka og í Malaysíu.  Sérdeilis góður penni hún systir mín.

Svo finnst mér að Garún megi byrja að blogga aftur, tala nú ekki um að segja frá yfirvofandi framkvæmdum í Vesturbænum. 

Ég sjálf er í hæfilegu stuði, mikið að gera og margt að hugsa um þessa dagana.  Valgerður að fara út í næstu viku, fer til Bodö og það virðist ekki vera mikið vorveður þar, frekar en hér.

Lifið heil.


Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband