Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Fjölgar í heiminum

Gærdagurinn var greinilega annasamur hjá vinum og frændgarði.  Guðrún Mary vinkona mín sendi mér skilaboð síðdegis í gær að lítill drengur væri fæddur og svo um kvöldið komu fréttir frá Danmörku að Kristín frænka væri orðin þriggja barna móðir og þar á bæ bættist einnig við karlkynið.  Við sendum að sjálfsögðu stormandi fagnaðaróskir í allar áttir og vonum  að öllum líði sem allra best!

Pabbi minn á svo afmæli í dag, hann mun vera 78 ára í dag.  Og eins og áður var nefnt, átti Auður systir afmæli um helgina.  Ef ég svo leiði þetta lengra áttu tengdamóðir mín og mágur minn einnig afmæli um síðustu mánaðarmót

Við erum umkringd af Sporðdrekum.


Legófréttir og afmæliskveðjur.

Liðið hans Jóns míns náði ýmsum góðum áföngum í dag og voru tilnefnd fyrir rannsóknina sína, bílahönnun og til lokaverðlauna og hlutu verðlaun fyrir skemmtiatriðið sitt.  Ekki urðu þau allsherjarmeistarar eins og í fyrra en það verða víst fleiri að komast að!Wink  En krakkarnir eru búin að leggja hörkuvinnu í þetta og stóðu sig eins og hetjur. 

Valgerður og Kristín vinkona hennar komu í kvöldfréttum útvarpsins og lýstu frumkvöðlahugmyndum sínum um orkuframleiðslu.  Einnig er smáleskafli hér á RÚV. 

Auður systir mín lauk við afmælið sitt fyrir þremur kortérum, búin að senda prívatheillaóskirnar og hér koma þær opinberu:  TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ!!  En við sjáum konuna í eigin persónu á  morgun er mér sagt.

 


Legókeppni!

Dóttirin er að keppa í Legókeppninni í Öskju í dag.  Eru með þeim efstu, hægt að fylgjast með hér.

Liðið hennar heitir Liðið hans Jóns míns.  Um að gera að senda góða strauma í Vesturbæinn.


Froskagleypingar

Vinkona mín sagði mér frá froskagleypissögum um daginn.  Ég er of löt til að endurorða þetta svo ég vísa á einn af mörgum tenglum.

En ég semsagt er í miðjum klíðum að gleypa einn heljarstórann frosk.  Ég byrjaði nebblega að laga til í vinnuherberginu mínu í dag og ef æðri máttarvöld lofa mun ég klára það á eftir.  En ég er þó búin að skapa nýtt vandamál annarsstaðar með því að selflytja dót sem ekki átti að vera hér inni, fram á gang.  En ég er búin að óska eftir liðsinni hjá eiginmanninum við að ganga frá því líka, helst í kvöld.  En skemmst er frá að segja að ég er búin að vera að ýta þessu verkefni á undan mér frá því í sumar þegar ég byrjaði að starfa í haugnum.  Þá henti ég djöfuldóm af drasli en átti alltaf "eitthvað smá" eftir.  Einn lítinn frosk sem svo óx og jafnvel tímgaðist hér í vinnuherberginu mínu.  Nú eru dagar hans taldir, sem betur fer.

En ég sagði alltaf að ég vildi prófa froskalappir.


Þörf umræða

Hún Jóna vakti athygli á síðunni sinni, á nýrri síðu: Styrkur sem annar bloggari, Dísa Dóra, stendur fyrir.  Ég hvet ykkur til að líta á síðunna, hún er innihaldsmikil, fræðandi og snertir við manni.

Þörf umræða og öflugt framlag.


Óvænt yfirlýsing

Hulda sagði mér í óspurðum fréttum í gær: "Ég elska þig mamma."  en þar sem hún talar ekki beinlínis skýrt hváði ég og sagði "Hvað!  Elskarðu mig?". Og svarið kom strax: "Já.  Þig."  Ekki átti ég von á svona yfirlýsingum frá stúlkunni svo ég var næstum farin að brynna músum.

Það er hreinlega bara ekki til neitt betra.

 


Ekki örvænta!

Ef einhverjir fylltust skelfingu við síðustu færslu þá ætla ég að taka skýrt fram: Ég er ekki að fara að skrá mig í frönsku útlendingahersveitina, ekki að hlaupast á brott og taka þátt í sirkus, ekki að leita eftir ráðahag við Jóakim Danaprins eða kollega hans eða standa í neinum stórkostlegum breytingum á tilverunni.

Það sem ég meinti var að ég þarf að fínpússa hlutina hér heima og innra með minni stórfenglegu persónu svo ég gangi ekki fram af sjálfri mér aftur andlega og líkamlega.  Svona virkja innra eftirlitið í fyrirtækinu.  Hugsanlega leiðir það til einhverra breytinga en það kemur bara í ljós með tíð og tíma.  Ég hins vegar hef ekki grænan grun hvar ég á að byrja en er þó komin með þá niðurstöðu að maður eigi að drekka meira vatn.  Smile


Tilvistarkreppa og korselettþus

Hér sit ég í lögskipuðu straffi og velti fyrir mér hvað ég eigi að gera varðandi framtíðina.  Það er víst löngu kominn  tími á uppstokkun en ég hef ekki grænan grun um hvað ég eigi að gera af mér.  Eitt er víst að ég verð að greiða úr kaosinu sem mér hefur tekist að hræra saman því ef núverandi stefnu er haldið til streitu, kafna ég úr streitu!

Þannig að síðastliðna viku hef ég lítið gert annað en að sitja í miðjum ruglupollinum, ekki vitandi mitt rjúkandi ráð.  Best að snúa sér strax að öðrum viðfangsefnum því mér gengur ekkert betur að skrifa um þessa hluti en að díla við þá í alvörulífinu.

Ég er því miður eins og hinar prinsessurnar núna, að bíða eftir patentlausninni á hvíta hestinum, aðferðarfræði sem mér líkar engan veginn því ég hef alltaf haft þá trú að maður eigi að finna út úr hlutunum sjálfur, ekki bíða eftir að málunum sé bjargað af utanaðkomandi öflum.  En það gáfulegasta sem mér hefur dottið í hug hingað til er að drekka meira vatn!  Ég er eiginlega viss um að maður þurfi meira til að móta líf sitt eftir, ekki satt?

Talandi um patentlausnir, og nú þarf ég að þusa svolítið:  Hvað er með þessa hábölvuðu þætti 'How to look good naked'?  Það eina sem manngreyinu dettur í hug með þessar konur er að troða þeim í lífsstykki þannig að aukakílóin vella upp úr og niðurúr.  Það fór dágóður tími og orka í að venja fólk af þessum óhollu flíkum og ég er viss um að kvenréttindakonur síðustu aldar væru ekki hrifnar af þessari þróun.  Í þessum þáttum er áherslan um að njóta eigin fegurðar hverfandi miðað við hversu mikil áhersla er lögð á þetta bull.  Og af hverju er þetta karlmaður að ráðskast með konurnar, væri ekki eðlilegra að konur kæmu að þessu máli svona eins og dömurnar í 'What not to wear'?  Það er gott og blessað að hjálpa fólki með sjálfsálitið en mín skoðun er sú að það sé ekki gert með gamaldags, þvingandi hjálpartækjum og röfli um brjósta og appelsínuhúðarkrem.  Ef eitthvað þá er slíkt andstætt upprunalega markmiðinu.  Svona!  Búin að rasa út yfir þessu í bili.

Annars vorum við Valgerður að horfa á myndina 'Miss Potter' með Reneé Zellweger áðan.  Skemmtileg mynd um áhugaverða konu.  Heimilisstörf voru í lágmarki í dag, tekið til í eldhúsinu og ....ekkert sérstakt annað.  Mig vantar reyndar heimilishjálp - grínlaust.  Ef þið vitið um góða manneskju þá sést netfangið mitt ef smellt er á höfundarmyndina.

En, ég er víst að fara að borða voða góðan mat í kvöld...hafið það gott elskurnar mínar!


Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband