Gleðileg rest...

Ég er loksins búin að klára textaskriftirnar sem ég minntist á í síðustu færslu.  Nú þarf ég bara að dratthalast til að prófarkalesa sjálfa mig og koma þessu frá mér.  Býst við að ég fái kallinn til að hjálpa mér því betur sjá augu en auga (eða fjögur í stað tveggja).

En ég ætlaði líka að segja frá matarævintýrum fjölskyldunnar.  Þannig var mál með vexti að við vorum orðin dálítið kjötþreytt þegar leið að áramótum svo við fengum þá hugmynd að elda hnetusteik á nýjársdag.  Þegar ég nefndi þetta í áramótapartíinu gerðust gestir afar yfirlýsingaglaðir og fannst þetta greinilega frekar kúnstugar hugmyndir.  Ég var búin að lofa að segja hvernig þetta gekk svo here goes:  Ég bjó fyrirbrigðið til frá grunni og studdist við þrjár uppskriftir.  Ég sleppti þeim uppskriftum sem innihéldu eitthvað sem mér fannst vont á bragðið og myndi ekki borða eitt og sér, hvað þá að setja í annan mat.  Þetta var talsverð handavinna og kannski aðeins meiri en ég hefði nennt á svona degi en allt gekk í sómanum.  Hnetusteikin var svo borin á borð með couscous, sveppasósu úr kastaníusveppum, salati og rósakáli sem var borið fram með möndlum og smá smjöri.  Þetta var gríðarlega gott, satt best að segja.  En við áttum samt talsverðar leifar af þessu því þetta var dágott magn.  Leifunum var fyrirkomið með því að setja þær í tortilla pönnukökur með salsa, salati, tómötum, sýrðum rjóma og osti.  Það lá við að það væri betra!  Ég veit ekki hvort ég myndi nenna þessari eldamennsku aftur á svona degi sem maður vill helst gera sem minnst en ég er alveg til í að elda aftur hnetusteik.

Á þrettándanum elduðum við lambaribeye, höfðum keypt rúm 600 grömm en merkilegt nokk, torguðum bara helmingnum.  Afgangurinn af þessu góða kjöti var svo afgreiddur með því að skera í litla bita, brúna á pönnu og borða svo í pítubrauðum (þessum frystu, ekki svampinum í loftþéttu umbúðunum!) með salati, tómötum og hvítlaukssósu.  Þið vitið, svona svipað og Grikkir borða.  Þetta var eins og fyrrnefnda restin, hrottalega gott.  Oftast gleymum við svona matarafgöngum í ísskápnum og þetta breytist í svona "Mystery Meat" og er hent en þetta var góð ráðstöfunum á restum.

En ég hef ekki grænan grun hvað skal elda í kvöldmat núna!


Ertu skarpari en skólaepli?

Þetta syngur yngri dóttirin hástöfum, að vísu ekki alveg skýrt en 'skólaepli' skilst vel.  Enda er þarna feikna epli í logoi þáttarins.

En...fyrsta blogg ársins, gleðilegt ár til ykkar allra og vona að þið eigið gott, skapandi og hamingjusamt ár!  Hér höfum við haft það ágætt þó svo að það hafi verið hörkuvinna að elta litla dýrið sem er uppátækjasöm með afbrigðum!  Fyrir svona fimm mínútum var ég að stoppa frökenina í að hella flösku af chilisósu út í kókglas (sitt eigið sem betur fer!) og lýsti hún yfir, sigri hrósandi, að þetta væri kók (kób). Ég var ekki sammála og sagði að þetta væri bjakk og það þótti henni gríðarlega fyndið.

Hér heima er nóg að starfa að vanda og að auki er ég með heimavinnu tengda vinnunni sem ég ætla að klára núna um helgina.  Ætla þó að leyfa mér þann "munað" að taka til í eldhúsinu áður en ég byrja, svo ég minnist nú ekki á þörfina til að blogga áður en ég byrja!  Sálfræðingurinn kallar þetta forðun og ég býst við að það sé það sem ég er að gera núna.  Fór í alvörunni að hugsa um hvort ekki væri tímabært að taka til í fataskápunum núna en stoppaði sjálfa mig af á þeim tímapunkti.  Þá er kannski betra að bíta á jaxlinn og setjast fyrir framan tölvuna að vinna!  Fljótlegra líka.

Ég ætla að reyna að vera vænni og betri við sjálfa mig á þessu ári.  Það er hægara sagt en gert skal ég segja ykkur því ég hef gríðarlega tilhneigingu til að láta sjálfa mig mæta afgangi.  Þessi pæling kemur líka af því að á síðasta ári leiddi þessi hegðun til veikinda og þar finnst mér eiginlega eitthvað vera komið yfir mörkin, allrækilega.  Það verða engin stórfengleg heit um megrun/hreyfingu/bindindi/meira sokkaprjón því ég held að það sé forgangsverkefni að líða vel í eigin skinni, þá fylgir restin á eftir.  Þegar ég keypti mér nýja tölvu í nóvember var það gert á þeim forsendum að Hulda væri svo áhugasöm um tölvur og þessi týpa af tölvu væri aðgengilegri en aðrar.  Ég nefndi þetta við sálfræðinginn minn og hún tók til þess að ég þyrfti afsökun til að fá mér tölvu, að það væri allt í lagi að leyfa sér að fá sér hluti sjálfur!  Hárrétt hjá henni og ég veit svei mér ekki hvernig hlutirnir þróuðust svona.  Ég ætla líka að huga að því að minnka aðeins við mig vinnu, á þó eftir að spekúlera það út nákvæmlega.

Hulda hefur tekið gríðarlegum framförum í tali í jólafríinu og greinilega allt kraumandi í litla kollinum. Hún á erfitt með að ná sér niður á kvöldin því það er svo mikið í gangi og þetta er fyrir utan hinn týpiska sólarhringsviðsnúning sem verður hjá landslýð yfir jólin.  Skringilegt samt að hún notar ennþá "il e" og "ell e" í stað þess að segja "hann er" "hún er" "það er".  Við höfum stundum grínast með að hún hafi byrjað of snemma að taka inn tungumálið því ég var í frönsku á síðustu mánuðum meðgöngunnar og hún hefur vafalaust heyrt góðan skammt af "Il est/elle est" og hefur ekki beðið þess bætur síðan!Wink

Ég fékk í jólagjöf frá fjölskyldunni DVD diska með Hercule Poirot sjónvarpsmyndunum.  Það eru þessar sem eru með David Suchet í aðalhlutverki, það dugar ekkert annað!  Einhvern veginn finnst mér alltaf vera punkturinn yfir i-ið ef maður á góða breska þætti til að horfa á yfir jólin.  Sitja með tebolla eða rauðvínsglas og glápa á sjónvarpið.  Svo eru í þessum þáttum svo fallegir leikmunir og liggur við kennslustundi í Art Deco stílnum sem ég hef elskað út af lífinu frá því ég var unglingur.  Og svo var afar gaman að sjá aftur Hastings með heiðríkjusvipinn og Japp hjá Scotland Yard að ógleymdri henni Miss Lemon.

Nú er Hulda farin að halda konsert með munnhörpu og víst komið að mér að tína til í eldhúsinu og setjast svo í textaskriftir (sem ég fæ borgað fyrir - ekki þetta!)

Poirot

Dálítið þreytt

Mitt helsta áhugamál þessa dagana er að sofa.  Ekki þó svo að skilja að ég nái að sinna því eins og ég vildi.  Valgerður fer í vinnuna á morgnana, kallinn með og hver haldið þið að sjái um að vekja þau?  Við Hulda erum búnar að vera saman í meira en viku, það stóð til að hún færi í leikskólann á fimmtudaginn en vaknaði með augun samanklístruð og þótti ekki eiga erindi í leikskólann.  En hún kom með mér í vinnuna og át ömmusnúða, hrekkti Hörð inni í stúdíói og horfði á teiknimyndir.  En hún er orðin dálítið þreytt á rútínuskortinum og saknar leikskólans.  Þetta sýnir hún okkur með því að vera sérlega uppátektarsöm, stríðin og á köflum, í slagsmálum við systur sína.  Satt best að segja verð ég guðslifandi fegin þegar leikskólinn byrjar aftur! Og ég er vægast sagt uppgefin eftir þessa daga.

Annars er síðasti dagur ársins framundan, hátíðahöld plönuð og freyðivínsbolla sem við Guðrún erum búnar að plotta.  Ég sendi ykkur öllum hugheilar áramótakveðjur og vona að þið hafið það sem allra best á nýja árinu.

Kveðja,

Þórdís


Jólabörnin eru...

Jesús Kristur og Helga systir mín.  Semsagt, dúndur afmælisóskir handa systur minni, þótt ég hafi boðað þær í eigin persónu, bæði í gær og í dag!

Ég bæti við myndum af útsýninu sem okkur bauðst í dag.  Við meira að segja náðum ekki í kirkjugarðinn vegna veðurs!

Góðan jólan, eða þannig.

Þórdís

Jóladagsútsýni

Gleðileg jól!

Jóladagur loksins runnin upp og fólkið aðeins að ná öndinni (hún er að þiðna uppi í eldhúsi as we speak!)

Ótrúlega annasamur mánuður en það hjálpaði þó að helgin lá svona skemmtilega að jólunum.  Ég fer að vinna á þriðja í jólum, að vísu stuttan dag en verð svo í fríi daginn eftir.

Aðfangadagskvöld gekk alveg ágætlega fyrir utan trönuberjasultuna sem frúin brenndi á meðan hún var að snyrta á sér trýnið.  Fyrir einhverja stórfenglega tilviljun hafði tengdamamma gaukað að mér aukapoka af trönuberjum svo málinu var reddað.  En það er ekki útséð með að aumingja pottinum sem lenti í þessum hremmingum væri reddað.  Við borðuðum snigla í forrétt, að vísu ekki heimatilbúna i þetta sinn en góða engu að síður (mínir eru betri!)  Svo var eldaður kalkúnn, að þessu sinn að hætti Nigellu og útbúin "fylling" með kastaníum sem var bökuð sér.  Eftirréttinum var slaufað og borðað í staðinn gómsætt súkkulaði með chili og þurrkuðum appelsínum.

Hulda var afskaplega dugleg og þolinmóð í gegnum þetta allt en þegar henni fannst máltíðin vera farin að dragast á langinn fór hún að brúka sig aðeins, fleygja spilum til að ná athygli og segja "Ég fáa pakkana mína!"  Og þá var restin af máltíðinni hespað af og farið í pakkaopnun.  Hulda fékk gnótt góðra gjafa en sigurvegarar kvöldsins voru ótvírætt Öskubuska og Prinsinn í dúkkuformi sem áttu svo miklum vinsældum að fagna að þau voru tekin með upp í rúm.  Prinsinn reyndar var búin að bæta í kvennabúrið þremur nöktum barbie dúkkum sem ferðast um með honum á flesta staði.  Afar prinsalegur siður sýnist okkur.  Við gáfum Huldu rafmagnstrommur enda er hún búin að hafa gríðarlegan áhuga á trommum í haust.  Um daginn vorum við til að mynda í búð og Hulda stóð við tvær kökudósir og spilaði.  Einnig er minnisstæð ferð sem við fórum með Sigga í Rín og á meðan Siggi var að skoða gítara og spjalla við afgreiðslumanninn gekk Hulda í rólegheitum að rafmagnstrommusetti, tyllti sér á stólinn, setti á sig heyrnartólin og tók upp kjuðana.  Fór svo að spila, nokkuð taktfast og örugglega og hélt meira að segja rétt á kjuðunum.  Skemmst frá því að segja að allir í  búðinni voru gapandi, ekki síst afgreiðslumaðurinn sem hafði aldrei séð lítið barn gera svona.´

 Ég óska ykkur allra svo gleðilegra jóla og hafið það náðugt!  Ég veit að ég ætla að reyna þaðWink


Ég er ekki hætt...

...en ég hef haft mikið að gera.  Jólasísonið í fullum gangi í vinnunni og maður kemur heim og missir meðvitund í lok dags.  Ég hef ekki þorað að mæla blóðþrýstinginn síðustu viku en er uppálagt að mæta hjá heimilislæknunni í eftirlit á næstunni.  Var reyndar orðin ágæt en sjáum til.  Afrekaði að fá magapest í byrjun viku og vottar enn fyrir ógleði núna nokkrum dögum síðar.  Myndi það kallast hálfvelgja?

Var að fá þær fréttir að ný frænka hefði bæst í heiminn í Kanada hjá þeim Jóni og Nicole.  Sendi árnaðaróskir vestur um haf og ég þori varla að hugsa um hvað ég er orðin margföld ömmu og afasystir.Smile

Og ekki er ég neitt sérstaklega dugleg hér heima fyrir í dag verð ég að viðurkenna.  Ekki búin að baka sautján sortir eða gera neitt sem virðulegar húsmæður gera.  Og kallskrattinn ætlar að yfirgefa mig á morgun til að fara í vinnuna.  Kannski get ég gert eitthvað "myndarlegt" á meðan.

Þó ekki víst.


Fjölgar í heiminum

Gærdagurinn var greinilega annasamur hjá vinum og frændgarði.  Guðrún Mary vinkona mín sendi mér skilaboð síðdegis í gær að lítill drengur væri fæddur og svo um kvöldið komu fréttir frá Danmörku að Kristín frænka væri orðin þriggja barna móðir og þar á bæ bættist einnig við karlkynið.  Við sendum að sjálfsögðu stormandi fagnaðaróskir í allar áttir og vonum  að öllum líði sem allra best!

Pabbi minn á svo afmæli í dag, hann mun vera 78 ára í dag.  Og eins og áður var nefnt, átti Auður systir afmæli um helgina.  Ef ég svo leiði þetta lengra áttu tengdamóðir mín og mágur minn einnig afmæli um síðustu mánaðarmót

Við erum umkringd af Sporðdrekum.


Legófréttir og afmæliskveðjur.

Liðið hans Jóns míns náði ýmsum góðum áföngum í dag og voru tilnefnd fyrir rannsóknina sína, bílahönnun og til lokaverðlauna og hlutu verðlaun fyrir skemmtiatriðið sitt.  Ekki urðu þau allsherjarmeistarar eins og í fyrra en það verða víst fleiri að komast að!Wink  En krakkarnir eru búin að leggja hörkuvinnu í þetta og stóðu sig eins og hetjur. 

Valgerður og Kristín vinkona hennar komu í kvöldfréttum útvarpsins og lýstu frumkvöðlahugmyndum sínum um orkuframleiðslu.  Einnig er smáleskafli hér á RÚV. 

Auður systir mín lauk við afmælið sitt fyrir þremur kortérum, búin að senda prívatheillaóskirnar og hér koma þær opinberu:  TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ!!  En við sjáum konuna í eigin persónu á  morgun er mér sagt.

 


Legókeppni!

Dóttirin er að keppa í Legókeppninni í Öskju í dag.  Eru með þeim efstu, hægt að fylgjast með hér.

Liðið hennar heitir Liðið hans Jóns míns.  Um að gera að senda góða strauma í Vesturbæinn.


Froskagleypingar

Vinkona mín sagði mér frá froskagleypissögum um daginn.  Ég er of löt til að endurorða þetta svo ég vísa á einn af mörgum tenglum.

En ég semsagt er í miðjum klíðum að gleypa einn heljarstórann frosk.  Ég byrjaði nebblega að laga til í vinnuherberginu mínu í dag og ef æðri máttarvöld lofa mun ég klára það á eftir.  En ég er þó búin að skapa nýtt vandamál annarsstaðar með því að selflytja dót sem ekki átti að vera hér inni, fram á gang.  En ég er búin að óska eftir liðsinni hjá eiginmanninum við að ganga frá því líka, helst í kvöld.  En skemmst er frá að segja að ég er búin að vera að ýta þessu verkefni á undan mér frá því í sumar þegar ég byrjaði að starfa í haugnum.  Þá henti ég djöfuldóm af drasli en átti alltaf "eitthvað smá" eftir.  Einn lítinn frosk sem svo óx og jafnvel tímgaðist hér í vinnuherberginu mínu.  Nú eru dagar hans taldir, sem betur fer.

En ég sagði alltaf að ég vildi prófa froskalappir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband