Laugardagur. Allar vélar fullar og eru í óðaönn að þvo og þurrka. Við Hulda búnar að skreppa í hádegismat til tengdó og borða þar heimavistarkássu. Snjórinn að detta í blautum hlössum af þakinu og sólin farin að góna inn til okkar. Kominn tími á að panta sólverjandi gluggatjöld hér á suðvesturhliðina því núna verður ekki líft hér á efri hæðinni fyrr en í október!
Við fórum í leikhús í gær að sjá Kommúnuna ásamt Göflurunum. Ágætis útfærsla en vantað samt dálítið kjarna og kraft í þetta miðað við myndina. Og var gert hálffarsakennt á köflum sem mér fannst óþarfi. En svo er náttúrlega spurning hvernig þetta gengur í þjóðir sem hafa aldrei séð myndina.
Ég er reyndar á einhverju innrænu trippi þessa dagana, nokkuð sem gerist af og til, og vil helst ekki vera mikið í margmenni. Við fórum að sækja leikhúsmiðana á fimmtudagskvöldið og fórum í framhaldi af því í Hagkaup í Kringlunni til að versla. Allt of mikið af fólki, of mikil nálægð, of mikil lykt og ég var afskaplega fegin þegar ég slapp út. Sömuleiðis var erfitt að vera í mannþrönginni í leikhúsinu af sömu ástæðum. Já, ég veit að einhverfa er erfðatengd og líklega á ég minn part í þessu. En ég skil svo sannarlega hana Huldu þegar hún fer að láta illa í margmenni. Það hefur reyndar minnkað um örugglega níutíu prósent frá því sem var fyrir svona einu og hálfu ári síðan. Þá var helst ekki hægt að taka hana með í búð. Maður gleymir nefnilega undrafljótt hjöllunum sem maður er kominn yfir og kannski er það bara ágætt. Það sem fylgir svo þessum pirringi í frúnni er að það verður óhóflega ertandi og leiðinlegt að hlusta og horfa á fjölmiðla, sérstaklega auglýsingar.
Þannig að nú er verkefnið að bauka bara eitthvað rólegt á heimaslóðum, horfa bara á það sem maður velur sjálfur, kannski lúsast út í göngutúr og ná aftur andanum. Í kvöld ætlum við að elda fiðurfénað og horfa svo á Stardust sem við vorum að kaupa. Hafið það gott!
Bloggar | 8.3.2008 | 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þetta eru búnir að vera skringilegir tímar á heimilinu síðustu viku. Hitt og þetta hefur bilað og önnur hver pera hefur sprungið á stuttu tímabili. Og svo kom Hulda Katrín með flakkara í heimsókn í gær, sem er nota bene, eins og okkar flakkari. Reynt var að tengja viðkomandi við tölvuna en eitthvað var hún lítið áhugasöm að sjá hann. Það gekk þó að lokum og flakkarinn birtist, en ekki var hægt að opna hann. Svo bara hvarf hann alveg. Ergo, bilaður og virðist hafa fallið undir niðurrifsálögin sem liggja yfir heimilinu þessa dagana. Sem betur fer hafa þessi áhrif ekki fylgt mér í vinnuna þar sem maður meðhöndlar tugi tækja á degi hverjum, það væri skelfilegt, 7-9-13 (bankar í hausinn). Hulda Katrín kom reyndar líka með nýja bjórinn, Skjálfta, og gaf okkur. Nokkuð góður fannst mér og sniðugt að Íslendingar séu farnir að búa til alls konar afbrigði af bjór. Til að mynda finnst mér Kaldi, afskaplega vel heppnaður. Takk fyrir mig Hulda.
En það gengur þokkalega að fá Huldu Ólafíu til að sofna og hún svaf til að mynda alla nóttina í sínu rúmi í nótt. Vaknar hress og kát og er með alls konar spaugsemi yfir morgunmatnum. Svo er hún búin að ná nýju stigi í málþroskanum og byrjaði á því um síðustu helgi. Það er hið alræmda "Hvað er þetta?" stig. Við höfum ekki undan því að svara allri upplýsingaöfluninni sem er í gangi. En þar sem þetta er einhverjum árum of seint eru þetta sæt orð og ég set sko ekki fyrir mig að svara. Hulda Kata benti reyndar á að nú myndi líklega fylgja í kjölfarið "Hvað ertu að gera" og "Af hverju" og vonandi gengur það eftir. Reyndar fylgir líka með að hún nefnir hluti: "Þetta er köttur. Þetta er kall. Þetta er stóll." og svo framvegis.
Síðasta helgi var ótrúlega annasöm, á góðan hátt þó. Við fórum í útskriftarveislu sem var aldeilis fínt og frábær matur á borðum. Þaðan fórum við beint í Laugardalshöllina að sjá Þursaflokkinn og Caput og það voru fínir tónleikar. Helst að ég myndi kveina yfir að Caput fékk full mikinn þátt í mixinu á kostnað Þursaflokksins en það er minni háttar steytingur því þetta var afar gott á heildina.
Á sunnudagskvöldið var svo haldið á Nasa að sjá Hayseed Dixie. Það var dálítið erfitt að hafa sig af stað, því það er dálítið strangt að fara að heiman báða daga helgarinnar, en þegar á staðinn kom var þetta algerlega þess virði. Stórskemmtilegir tónleikar og jafnvel þess virði að fara bara til þess að heyra sögurnar á milli. Náunginn er sögumaður af guðs náð, ótrúlega gott.En ég er svoddan heimalús að mér finnst erfitt að vera alltaf á útstáelsi svo þessi helgi verður hér í rólegheitunum. Eldað eitthvað gott og einfalt og glápt á sjónvarpið.
Að lokum: Við fórum á sýningaropnun í gær í Anima Gallerí sem er á Freyjugötu. Þar var að opna sýningu Jón Henrýsson, skólafélagi Sigga úr Mynd og Hand. Dúndurgóð sýning eins og við er að búast af þessum manni.
Núna gengur Hulda á milli herbergja og segir mér að þetta og hitt ljósið sé bilað. Ég þarf að leggja í meiriháttar ljósaperuinnkaup um helgina og reyndar fleira sem þarf að dytta að. Ég vona svo að lokum að flakkaranum batni og nái fyrri heilsu aftur.
Bloggar | 1.3.2008 | 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bloggar | 27.2.2008 | 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Síðan á þriðjudag hefur yngsta manneskjan verið í dálítilli svefnmeðferð. Við erum að fikra okkur hægt og rólega á réttar brautir og nú er fjölskyldan búin að fá í það minnsta þrjár nætur af bærilegum svefni. Hulda sofnaði um níuleytið í gær og svaf í tólf tíma takk fyrir. Vaknaði sjálf sprellhress í morgun, borðaði morgunmat og skellti sér í sjónvarpsgláp og fór svo að leika sér. Manni er barasta næstum farið að líða eins og venjulegri manneskju (yeah, right!).
En vikan í vídeóglápi hefur verið dálítið þematengd. Hulda fékk Ratatouille í afmælisgjöf frá frændum sínum og við höfum verið að horfa saman á hana. Svo horfðum við á í Kastljósinu í gær hvar nemendur í matreiðslu voru að undirbúa veislu. Hulda var á því þegar hún sá stóru húfurnar að það ættu að vera rottur undir þeim! Svo horfðum við eiginmaðurinn á No Reservations í gær, eina bíómyndin sem ég hef séða auglýsta í Bon Appétit. Doldið klisjukenndur söguþráður en afbragðs leikur og alveg bærileg afþreying.
Annars kom Hulda með okkur í Hagkaup á fimmtudaginn og kom þar auga á Sollu stirðu hjól. Hún var með andköfum hvað þetta væri nú æðislegt hjól og lýsti yfir: "Það er svo fallegt! Það er fullkomið!". Eitthvað er semsagt málbeinið að liðkast á minni.
En árnaðaróskir dagsins fara til Huldu Katrínar sem útskrifast í dag sem stjórnmálafræðingur.
TIL HAMINGJU HULDA! ÞÚ GETUR ALLT!
Bloggar | 23.2.2008 | 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar ég var lítil var toppurinn á tilverunni að fá nýja liti. Nýjan, ósnortin pakka með fullt af fallegum litum og alveg sérstakri lykt sem er af nýjum vaxlitum. Ég gat setið vel og lengi og litað, föndrað og síðast en ekki síst, raða litunum upp í "rétta" röð (einhver að velta því fyrir sér hvort einhverfa sé ættgeng?). En þetta var auðvitað ekki gert nema maður hefði pappír til að brúka og oft var fátt um fína drætti í þeim efnum á þeim tíma. Ég hef í gegnum tíðina litað og teiknað á alls konar afgangspappír, ritvélapappír sem manni var skammtað sem dýrum djásnum og svo var afar vinsælt að gera sér ferðir í prentsmiðjur og fá afskurði. Úti á Nesi voru tvær prentsmiðjur og við fórum oftast í prentsmiðjuna sem var rétt hjá Nýjabæ til að afla fanga. Svo þegar maður átti vist í Vesturbænum voru tvær prentsmiðjur þar sem hægt var að leita til. Enn þann dag í dag líður mér langbest ef ég á bunka af pappír og nokkrar teikniblokkir. Einnig hef ég tekið út pakkann með að versla blýanta og datt aldeilis í lukkupottinn þegar ég fann blýanta af öllum stærðum og gerðum í Tékklandi, en eins og ALLIR vita (ég), framleiða Tékkar blýanta. Strokleður eru minna spennandi, meira svona nauðsyn, þótt ég sjálfsagt gæti með herkjum dregið upp sögur af vellyktandi strokleðrum sem strokuðu minna en ekki neitt en þóttu mikið þarfaþing við sex-sjö ára aldurinn. En í þeim bransa notar maður bara tvennt, Boxy strokleður og/eða hnoðstrokleður. Eða ekki neitt sem var ordran í teikningu í Mynd og Hand.
Ég upplifði svo góða stund í dag þegar ég kom við í Pennanum í Hallarmúlanum og kíkti á liti. Það var svo fantagaman að skoða og spjalla við konuna sem var að vinna þarna um liti, pallettur og pappír. Ég ætlaði upphaflega að kaupa dálítið af vatnslitum þar sem mínar túbur eru löngu samanskroppnar og uppþornaðar (svo maður tali nú ekki um týndar í vinnustofudraslinu í bílskúrnum!) en sá svo að heimurinn hafði mikið þróast í fjarveru minni og það var komið fullt af tæknilegum nýjum litum sem gera það sama og tvo til þrjá miðla hefði þurft fyrir nokkrum árum. Skemmst frá því að segja að ég skilaði vatnslitunum og keypti eitt undurfagurt sett af háþróuðum litum.
Og pappír!
Bloggar | 20.2.2008 | 22:56 (breytt kl. 23:21) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Við bregðumst við áskorunum um mynd og setjum inn eina sem var tekin rétt áðan af afmælisbarninu. Tekið með vefmyndavél svo gæðin eru ekki stórkostleg.
Bloggar | 10.2.2008 | 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Við Valgerður vorum með stór plön um tiltekt og skápahreinsun þegar við komum heim í dag en hingað til hefur dagurinn farið í tölvufikt og sjónvarpsgláp. En kannski rætist úr því á eftir?
Hulda mætti í talþjálfun í gær eftir rúmlega tveggja mánaða hlé. Kjaftaði á henni hver tuska, leiðrétti hana Ástu sína ef henni fannst þörf á og almennt bara brilleraði á öllum sviðum. Enda hefur hún tekið miklum og stórstígum framförum og hefur að auki tognað þokkalega úr henni á stuttum tíma. En á morgun á daman afmæli og kom með kórónu úr leikskólanum í gær. Það eru semsagt fimm ár síðan hún kom í heiminn og daginn sem hún fæddist var hraustlegt óveður, eitthvað svipað og við erum að upplifa þessa dagana. Einnig eru þessa dagana fimm ár síðan við fluttum hingað inn og það er svo sannarlega gott að vera hérna. Formleg afmælisveisla frestast þó um viku en auðvitað verður gert eitthvað skemmtilegt fyrir stúlkuna á morgun.
Ég náði þeim stórmerkilega áfanga í fyrradag að taka vel til í herberginu hennar Huldu, flokka allt smádótið og fjarlægja nokkra hluti. Það hjálpaði líka til að við höfðum keypt hirslu í Ikea með fullt af plastskúffum svo núna eiga Barbie dúkkurnar sér skúffu, dúkkuföt sér skúffu og svo framvegis. Jafnframt voru kubbar settir utan seilingar fyrir stúlkuna, afgreiddir stöku sinnum eftir pöntun því hún á það til að sturta úr öllum kössum þegar sá gállinn er á henni. Áður en við settum barnalæsingu á fataskápinn gerði hún oftast það sama við allar hillurnar, gjörsamlega tæmdi þær og skreið svo sjálf upp í hilluna, nokkuð sem okkur fannst þokkalega hrollvekjandi. En næsta mál á dagskrá inni hjá henni er einmitt að laga til í skápnum og flokka svo það sé vinnandi vegur að finna fötin hennar þegar á þarf að halda.
Eiginmaðurinn kallar mig veðurperra því mér finnst gaman að öllu veðrinu sem nú gengur yfir. Ég hef reyndar alltaf verið áhugasöm um veður og af því að stúdera himininn og það er sérstaklega skemmtilegt núna þegar alvöru vetrarveður gengur yfir. Svo erum við auðvitað í stúkusæti svona hátt uppi yfir höfuðborgarsvæðinu og maður getur séð éljabakkana koma skríðandi yfir. Það skal viðurkennt að það er erfiðara að komast á milli staða, ekki síst fyrir manneskju eins og mig sem treystir talsvert á tvo jafnfljóta til að komast leiðar sinnar. En þetta hefur þó þá kosti að maður fær afbragðslærvöðva á því að vaða í gegnum snjóskaflana. Það fór ca. vika í vægar harðsperrur fyrstu vikuna sem var svona mikill snjór en það er að baki. Enda er ég gefin fyrir að troðast frekar í gegnum skaflana, yfir holt og hæðir frekar en að fara eftir huggulegum göngustígum sem eru þrisvar sinnum lengri. Ég verð víst seint fullorðin!
En nú er víst orðið tímabært að stugga aðeins við letidýrinu í sjálfum sér!
Góða helgi!
Bloggar | 9.2.2008 | 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég er búin að vera algjör innipúki það sem af er liðið ári. Vil helst vera heima, glápa á sjónvarpið, hanga í tölvunni, lesa og vera dálítið innávið því mér finnst svartasta skammdegið oft ansi erfitt. En núna er aðeins að birta til og sólin skein meira að segja dálitla stund inn um gluggana mína í dag. Yfir háveturinn er hún nefnilega meira að dunda sér á bak við Rjúpnahæð svo það er alltaf jákvætt þegar hún fer að heilsa manni aftur. Er búin að lesa heilmikið, bæði jólabækur og svo allra handa bækur sem ég hef fengið frá Amazon. Svei mér þá ef vantar ekki bara fleiri bókahillur á heimilið eða þá að gefa það sísta í Góða hirðinn! Ég er þó aðeins byrjuð að tína út úr skápunum og tæmdi fataskápinn minn um daginn. Því sem næst bókstaflega því það voru ca. fimm flíkur sem voru eftir í hillunum. Restin fer í fatasöfnun Rauða Krossins. Það þarf að græja aðra fataskápa á heimilinu á svipaðan hátt, ásamt geymslu og bílskúr. Ég býst við að Sorpa á Dalveginum þurfi að loka í nokkra daga til að díla við stöffið ef ég verð of dugleg!
En það líður að afmæli ungu stúlkunnar og Íslandsbanki var að senda stúlkunni Latabæjar afmæliskort með tíu dag fyrirvara! Ekki ráð nema í tíma sé tekið. Ég er farin að undirbúa jarðveginn með því að ræða hvað hún er gömul og hvað hún muni verða gömul. Eitt er þó víst, eftir kökufíaskóið í fyrra, þegar við fengum ranga mynd á afmæliskökuna (lögga í stað prinsessa og algjör skortur á bleikum), sem var svo illa lagfært, þá er öruggt að frúin bakar afmæliskökuna sjálf. Þó það taki mig alla helv.. nóttina áður.
Bloggar | 2.2.2008 | 17:24 (breytt kl. 17:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Við Hulda sitjum hér heima með kverkaskít og pestareymsl og ég að auki með illvígan höfuðverk. Búnar að horfa á snjóinn hrannast upp hér fyrir utan í allan dag og loksins að stytta upp. Hulda er búin að horfa á báðar myndirnar með Skógardýrinu Húgó og ég er búin að lesa Stúlku með perlueyrnalokk. Nú eru bæði myndir og bók búin svo við verðum að finna eitthvað annað til að stytta okkur stundir í eymingjaskap okkar. Annars er ágæt tilbreyting að fá fullt af snjó, lífgar upp á annars daufan janúar sem reynist mér oftar en ekki þungur. Hér er snjólagið á svölunum, það er ca. 60-70 cm. þótt það sjáist ekki alls kostar á þessari mynd.
Svo er hérna Rjúpnahæðin og fallegi himininn sem kom í ljós þegar stytti upp:
Að lokum er svo mynd af jötunni eftir að Hulda var búin að endurraða í og við hana. Búið að hópa saman rollur og vitringa og snúa Búddha svo hann geti líka fylgst með. Auðvitað ágætlega viðeigandi! Bastet stytturnar voru ekki taldar þess verðugar að fylgjast með kraftaverkinu sem var að gerast í fjárhúsinu. Og, ég er auðvitað búin að taka jötuna niður, það þurfti bara að skjalfesta atvikið áður en fólkið færi aftur ofan í kassa!
Nú er Hulda búin að leggja fram ósk um að horfa á "Oj!" sem er það sem hún kallar Allt í drasli. Barnið er einlæg áhugamanneskja um hreingerningar sem er bæði skrítið en þó skiljanlegt miðað við heimilið sem hún elst upp á! Best að verða við þeim óskum og stúdera annara manna dót í stað fyrir sitt eigið!
Bloggar | 18.1.2008 | 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gvendur bróðir minn á afmæli í dag!
Bloggar | 9.1.2008 | 19:15 (breytt kl. 19:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
- Febrúar 2009
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
Jan. 2025
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Ýmislegt áhugavert
- Auður AkureyrarAuður
- Birta og Helgi Danmerkurgengið
- Guðrún Björk Garún, Garún
- Hulda Katrín Eldri krullhausinn
- Valgerður Dóttirin
- Guðrún Mary Seltjarnarnesdaman
- Björninn Bjössi bekkjarbróðir
- Hörður Myndasmiður Myndirnar hans Harðar
- Vinnan Mitt daglega starf
- Drawn Krotarablogg
- Cartoon Brew Hreyfimyndablogg
- Autism Diva Donna Williams
- IllustrationMundo Krotarar alheimsins