Útskrift og undirskriftasöfnun

Rólegheit hérna eftir allt fjörið um síðustu helgi.  Eftir hádegsmat komu Helga og Stefán og sóttu Huldu og Valgerður fékk að fljóta með í Vesturbæinn.  Ég ákvað að slaufa öllum framkvæmdum og taka mér smá frí.  Settist niður og las svolítið fyrst það var næði.  Lagði mig svo stutta stund því það er svo gott að lúra þegar rigningin skellur á þakinu.  Vaknaði og var eitthvað að dandalast um húsið þegar síminn hringir.  Og þar hringdi hún Erla æskuvinkona mín, nýkomin frá U.S of A, eftir margra ára fjarveru.  Það sem mér fannst svo vera hálftíma spjall sagði mælirinn á símanum mér að hefði verið tveggja tíma spjall.  Time flies when you're having fun!

Annars útskrifaðist Valgerður úr grunnskóla á miðvikudaginn með glæsibrag.  Hulda Ólafía og amma Lóa komu með og litla dýrið hagaði sér barasta vel á meðan á athöfninnin stóð.  Að vísu líkaði henni ekki klappið og hélt fyrir eyrun í hvert sinn og tautaði: "Það er búið að plappa!".  En það er svo ótrúlega stutt ,finnst manni, að Valgerður byrjaði í skólanum (ári eftir að skólinn var opnaður) og öll þessi stuttu börn sem maður sá þá hafa umbreyst í ungt og myndarlegt fólk.  Ég er ekki frá því að stúlkan sé strax farin að sakna skólans síns en fjölskyldan missir þó líklega ekki tengslin því líkurnar eru góðar á því að Hulda hefji þarna sína skólagöngu þegar þar að kemur.

Önnur heiðursvinkona mín, hún Rannveig, var að koma frá Múmínálfalandinu í dag.  Hún sendi mér ábendingu um undirskriftalista sem er í gangi hér á netinu gegn meðferð Spánverja á hundategundunum Galgo og Podenco.  Ég fór og las mér til og skrifaði umsvifalaust undir.

Hérna getið lesið um hvað er í gangi og hérna getið þið skrifað undir.


Skemmtileg helgi

Helgin hjá okkur var þéttpökkuð og vel heppnuð.  Hinn sígildi laugardagsmatur var borðaður hjá tengdó eins og getið var um í fyrri færslu og að því loknu brenndum við í Vesturbæinn að skoða Hagaskóla.  Hulda var nokkuð impóneruð að sjá skólann hennar mömmu og hófst handa um leið og hún kom heim að pakka í tösku nokkrum vel völdum hlutum og bókum og kvaðst svo vera að fara í skólann.  Henni er reyndar alltaf bent á skólann hennar Valgerðar (sem hún kveður eftir tvo daga), þegar við göngum framhjá og er farin að koma með yfirlýsingar um að hún eigi líka að fara í skóla.  Um kvöldið komu svo Hafnfirðingarnir og borðuðu hjá okkur með tilheyrandi kjaftatörnum á eftir.

Ég og eiginmaðurinn tókum svo daginn snemma í gær og fórum í Blómaval.  Keyptum helling af stjúpum og króknuðum næstum í leiðinni í þessu ekki-vorveðri!  Versluðum vikuinnkaupin og gerðum svo það sem við aldrei annars gerum, borðuðum sunnudagsmatinn á miðjum degi!  Svo brenndi fjölskyldan upp á Víðivelli, sótti fleiri blóm og drifum okkur í Fossvogskirkjugarðinn.  Bræðurnir nebblega skipta með sér umhirðu á leiðum eftir árum og núna er okkar ár.  Hreinsuðum beð og settum niður blóm hjá pabba hans Sigga, ömmu hans og föðurbróður.  Settum svo einnig blóm niður hjá steininum hennar mömmu.  Afskaplega forvitnir og spakir fuglar nýttu sér jarðvegsvinnuna og nældu sér í feita ánamaðka um leið og maður mokaði holur fyrir blómin. 

Um kvöldið mættu svo Þórhildur og Guðrún til að vera hjá Huldunni á meðan við skruppum ásamt Valgerði í Borgarleikhúsið að sjá Ladda 6-tugan.  Bara nokkuð hressileg skemmtun.  En það hefði eiginlega þurft að vera þriðji frídagurinn til að jafna sig eftir allan hamaganginn.  En, það styttist í sumarfrí!


Ættingjar og vinir í útlandinu...kíkið á!


Alls konar afmæli

Hér er bara nokkuð þægilegur laugardagur að fara í gang.  Við vöknuðum í fyrri kantinum og héngum að sjálfsögðu dálítið á náttfötunum fyrir framan sjónvarpið.  Svo tók við byrjun á hreingerningu sem verður lokið við eftir hádegið.  Hádegismatur á Víðivöllum og svo langar mig að kíkja í augnablik í Vesturbæinn og í Hagaskóla sem heldur upp á 50 ára afmælið sitt í dag.  Það var náttúrlega minn skóli og einhver nostalgía tók sig upp.  En þegar Landakotsskóli var með álíka afmælishátíð um árið langaði mig ekki að fara og gerði það ekki.

Svo er náttúrlega 100 ára afmæli í Hafnarfirði og óskum við Göflurunum hjartanlega til hamingju með það.  En ekki veit ég hvort ég leggi leið mína þangað, það verður að koma í ljós.  Annars ætla Gaflararnir að kíkja hingað í kvöld og borða hjá okkur, spurning hvað verður svo gert?Whistling

Hulda sat í gær og horfði á fréttirnar með mér þar sem var verið að sýna myndir frá Suðurlandsskjálftanum.  Hún tjáði mér að tröll hefði verið að hrista þarna og núna væri það búið.  Bara fyndið, en ég var að spá í hvort þetta hafi verið til umræðu á leikskólanum og það vantaði hugtak inn í þetta sem hún kann ekki ennþá: "eins og".  Annars eru merkileg orð sem heyrast og ég vissi ekki að konan kynni.  Núna á meðan ég var að skrifa sat Hulda í sófanum og borðaði múmínálfakex.  Svo heyrist í henni: "Ummm!  Þetta bragðgott!"

Annars drifum við familían okkur og kíktum á búðirnar sem var verið að opna niður í Skógarlind.  Svaka flott Krónubúðin og þar sem þetta er næsta lágvöruverslunin þá er þetta líklega staðurinn þar sem vikuinnkaupin verða gerð.  Við kíktum inn í Elko og Hulda fékk að versla Dalmatíuhundana á DVD.  Við eigum þá á VHS á ensku en markmiðið er náttúrlega að styðja stúlkuna í íslenskunni þannig að þetta er hið besta mál!

En, farin í hádegismatinn, eigið góða helgi!


Shaken but not stirred!

Jæja, það þurfti víst heilan Suðurlandsskjálfta til að hrista bloggletina af mér. 

Við Valgerður vorum staddar í vinnunni hjá mér og sátum inn í eldhúsi ásamt flestum af vinnufélögum mínum.  Fyrst hélt maður að það væri enn einu sinni verið að sprengja út við Höfðatorg en þegar þetta hélt áfram minnir mig að ég hafi sagt "Út" og allir drifu sig út.  Þokkalegur hristingur og ekki góðar fréttir sem berast af Selfossi.  Í Kópavoginum var allt með kyrrum kjörum, kötturinn pollrólegur og ekkert sem hefur fært sig úr stað.  Svo er bara spurning hvenær eftirskjálftinn mætir á svæðið.  Ég er í það minnsta búin að tína rauðvínsglösin úr grindunum fyrir ofan eldhúsborðið til að minnka líkur á að þau hristist laus og rigni yfir eldhúsið.  En þetta er náttúrlega ekki neitt til að tala um miðað við hvernig ástandið er á Suðurlandinu. 

Annars er allt meinhægt hjá okkur fyrir utan hristinginn.  Við höfum verið að skipuleggja bakgarðinn aðeins betur og erum búin að hugsa hann svoleiðis að ekki þarf að kalla til stórvirkar vinnuvélar til að framkvæma hugmyndirnar.  Hins vegar er full þörf á því sem heitir á útlensku "Elbow grease", semsagt þetta verður hörkupúl og mokstur.  Einhverjar hugmyndir eru um að steypa loksins fyrir pallastoðum í næstu viku, vona að það gangi eftir.

Annars, farið þið vel með ykkur, og þið á suðvesturhorninu, farið varlega og hugið að jarðskjálftavörnunum fyrir næstu atrennu!


Seinni hluti - Flórens - Firenze

Hér kemur seinni partur af ferðabloggi.  Seinni parturinn snýst því sem næst eingöngu um Flórens og kannski heppilegra að birta myndir en að láta dæluna ganga.  En við komum til Flórens með lest, síðdegis á sunnudegi og drottinn minn dýri hvað það er gott að sofa í lest.  Sérstaklega ef maður vaknaði klukkan hálfsex í Como.  En að fara í gegnum Toscana hérað var dálítið eins og að fara í gegnum ævintýraland númer tvö (eftir Como það er að segja). Við stauluðumst út úr lestinni og versluðum okkur miða í strætó og fórum svo með fullhlöðnum strætó yfir Arno ána í hverfið sem hótelið okkar er í.  Það hótel heitir Hotel Silla og hverfið heitir  Oltrarno ( hinum megin við Arno), nánar tiltekið San Niccolo.  Hótelið er fyrrverandi nunnuklaustur og telst vera þriggja stjörnu en miðað við þá dúndurgóðu þjónustu sem við fengum var upplifunin nær því að vera á fimm stjörnu hóteli.  Starfsfólkið var boðið og búið að hjálpa okkur, var ávallt elskulegt, pantaði fyrir okkur pláss inn á ofursöfn borgarinnar og var almennt frábært.  Án þess að taka aukakrónu fyrir liðlegheitin.  Þannig að við mælum óhrædd með Hotel Silla og við munum nota það ótvírætt aftur ÞEGAR við komum aftur til Flórens

Annars er stóra málið héðan í frá að láta myndirnar tala:

Ponte Vecchio

Ponte Vecchio= Gamla brúin.  Þarna voru upphaflega slátrarar og sútarar en þeim var fleygt út á milli 1300 og 1400 vegna ólyktar og óþrifnaðar.  Þá tóku við gullsmiðir sem eru þarna enn þann dag í dag.  Og verðin eru þannig að maður verður feiminn að horfa í gluggana.  En hlutirnir að sama skapi undurfallegir.

Uffizi safnið

Uffizi- Skrifstofubyggingin (Ufficio-Office) - þar sem heimsgersemarnar eru í stríðum straumum.

Nice parking!

Nánar aðferðir til að leggja bílum (Smart bíll og ónefndur þriggja hjóla bíll, rétt hjá hótelinu okkar í San Niccolo.)

Steinkista Michelangelos

Í kistunni liggur Michelangelo, kallinn, bara höfundur mestu meistaraverka sem mannkynið hefur búið til!  Þetta er tekið í Santa Croce kirkjunni sem við slysuðumst inn í eftir að hafa eytt góðum tíma í ítalska póstþjóna og að ná yfir samskiptagjánna sem liggja á milli íslensku og ítölsku (enska, franska og ansans hórerís ítalska voru notuð in the process!).  Virkaði að lokum og póstfólkið má eiga það að það hjálpaði okkur af stökum hetjukskap alla leið þrátt fyrir tungumálaörðugleika!

Perseifur

Hér er stytta eftir Cellini sem sýnir Perseif þegar hann er nýbúin að slátra Medúsu. 

Júdit og Hólófernes

Hér höfum við Júdit og Hólófernes.  Veit ekki hvort það er til að hafa áhyggjur af en ég fíla vel hálshöggvimyndirnar.  Ekki nema það sé gyðingablóðið sem hoppar svona ákaft við þessa sýn?  En sennilega er skýringin frekar sú að myndin er sterk og sagan er sterk.

 

Davíð kallinn

Og hér er Davíð, skapaður af Michelangelo.

 

Pisa

Og þegar við fórum frá Ítalíu, gegnum Pisa flugvöll, blasti við okkur hinn lafandi turn í Pisa, alveg óvart.

En það er ekki hægt að gera þessari heimsókn almennileg skil á blogginu sínu.  En það er líka því sem næst vonlaust að ætla sér að gera Flórens skil í þessari stuttu heimsókn okkar og ef við eiginmaðurinn (bæði búin að læra myndlist/listasögu/listaheimspeki) hefðum ætlað að meðtaka allt sem Flórens býður hefði líklega þurft að flytja okkur bæði burt í sjúkraflugi á blæðandi stúfunum því allt sem er í boði þarna er ómissandi í veraldar og listasögunni og það er líklega margra mánaða og ára verk að ætla sér að komast yfir þetta allt saman.  En við fengum yndislegar móttökur og ætlum örugglega að mæta aftur (og aftur og aftur) til að njóta alls þessa sem þessi fallega borg hefur upp á að bjóða.  Og ef einhver þarf frekari upplýsingar/ljósmyndir þá er ykkur velkomið að hafa samband.  Þetta er fjársjóður sem allir þurfa að njóta!


Konur standa saman

 Ég sá þetta á síðunni hennar Dísu Dóru og birti það hér með 

Sunnudaginn næstkomandi munu konur standa saman, í bókstaflegri merkingu, fyrir betri heimi komandi kynslóðum til handa. Konur geta tekið sig saman og staðið í garðinum heima hjá sér, í sumarbústaðnum eða hvar sem þær eru staddar kl. 13 á Hvítasunnudag.

Á Reykjavíkursvæðinu er konum, og ástvinum þeirra, stefnt í Laugardalinn nánar tiltekið við Þvottalaugarnar. Það verður safnast saman og íhugað í þögn í 5 mínútur um betri heim með hreinu drykkjarvatni, nægum mat og lífi án ofbeldis, öllum börnum til handa. Hringt verður inn í þögnina kl. 13:00.

„Standing Women" er alþjóðleg hreyfing kvenna sem tók höndum saman 11. maí á síðasta ári fyrir betri heimi. Í ár verður sami háttur á og nú með þátttöku íslenskra kvenna en í fyrra stóðu konur saman í öllum heimsálfum, samtals 75 löndum. Á þessari slóð má sjá myndband frá atburðinum í fyrra: http://www.youtube.com/watch?v=_eNJ4oVQKxU

Undirrituð samtök kvenna á Íslandi eru í forsvari fyrir viðburðinum hér á landi og hvetja félagsmenn sína jafnt sem konur á landinu öllu til að taka þátt!
Kvenréttindafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, UNIFEM á Íslandi, Blátt áfram og Stígamót.


Sunnudagsletiblogg

Ég ætlaði að halda áfram með seinni partinn af ferðasögunni um helgina en ákvað að fresta því um smátíma.  Við erum að reyna að hafa hægt um okkur á meðan Valgerður les fyrir prófin og tókum duglegan verslunarleiðangur í dag.  Dingluðum okkur í búðum og keyptum óþarfa í þrjá og hálfan tíma!  Annars er pestin á undanhaldi og ferðaþreytan að minnka.  Svona fyrir utan lúrinn sem ég stal mér áðan! 

Hulda er í banastuði þessa dagana, kjaftar á henni hver tuska og framtakssöm í meira lagi.  Gengur vel að halda svefnrútínu og vaknar hress á morgnana.  Guðbrandur er kringlóttur og mér skilst að hann hafi verið duglegur að telja pössunarpíunum trú um að hann væri afar svangur, alltaf og ávallt og núna nær hann varla aftur á bak að þrífa sig af því belgurinn er svo stór.  Valgerði blöskraði ástandið á honum um daginn og setti hann í bað og ótrúlegt en satt, hún komst upp með það!  Kötturinn lét þetta yfir sig ganga og það eina sem hann mun hafa gert er að væla svolítið!  Síðast þegar ég reyndi að baða kött var þegar Svarti Pétur heitinn hafði skriðið undir bíl og var með olíu í feldinum.  Ég var rækilega blóðrisa eftir þá rimmu og kötturinn hataði mig örugglega í hálfan dag!  En ég náði þó að þrífa dýrið.  Hulda tók svo að sér að passa upp á kisu sína og krafðist þess að það væri keyptur harðfiskur handa kisu í búðinni áðan.  Guðbrandur trúir örugglega ekki hver er velgjörðarmaður hans í dag!


Ferðasaga: frá Íslandi til Mílanó/Como

Hér kemur loksins fyrsti parturinn af ferðasögunni en mér hefur verið lífsins ómögulegt að gera nokkuð á kvöldin annað en að skríða upp í rúmið mitt.  Tvisvar hef ég sofnað á undan Huldu, nokkrum sinnum í sófanum og ég er loksins farin að hafa rænu á því að fara snemma í rúmið.  Ég er búin að vera með pestina frá Víti í tvær vikur, já líka þegar ég var úti, en hún náði nýjum hæðum eftir að ég kom heim og ég eyddi til að mynda nokkrum morgnum í að hósta upp afsteypum af lungnaberkjunum.  Huggó, ekki satt?

En nú er morgun, ég búin að ná níu og hálfs tíma svefni (hefði alveg getað sofið meira en Huldu vökutími ræður) og það er frí svo ég sest við skriftir.

Ferðalagið hófst á hinn venjubundna hátt þegar maður fer af Skerinu, rífur sig upp á eyrunum á óguðlegum tíma, keyrt til Njarðvíkur, bíllinn skilinn eftir á meðan Helga systir (engill í mannsmynd) skutlaði okkur á völlinn.  Flogið til London og skipt yfir í tengiflug til Bergamo með hinum all-leiðinlegu Ryanair.  Við höfum notað Ryanair áður en bara til og frá Írlandi og það var talsvert óhentugra að nota þá í svona ferð.  Flugvellirnir sem þeir nota eru yfirleitt á stað sem er í talsverðri fjarlægð frá áfangastaðnum.  T.d. kalla þeir þessa flugleið 'Milan-Bergamo' en Mílanó er í klukkutíma akstursfjarlægð frá Bergamo, hvað þá ef þú ætlar að fara upp til Como.  Flugvélin sem flutti okkur þessa leið var öll blá og gul að innan, og sætin úr platleðri og plasti.  Lággjaldaflugfélag náttúrlega.  En þau voru svo þétt að meira að segja mér sem er 1.58 á hæð fannst þau þröng, hvað þá ferðafélögum mínum Sigga og Mumma sem eru TALSVERT stærri.  Loftlaust og einn farþeginn sprakk á limminu, gubbaði og þurfti að fá súrefni til að meika restina af ferðinni.  Bergamo er svo ekki stór flugvöllur, minnti mig á Reykjavíkurvöll og við vorum fljót að vippa okkur upp í rútu til Mílanó.  Á leiðinni sáum við það sem er vafalaust ekki fegursta hlið borgarinnar: raðir af verksmiðjum.  Plastverksmiðjur, efnaverksmiðjur og meðal annars átti ein þeirra vafasamasta logo sem við höfum vitað en það var blóm sem var við það að fá á sig dropa úr tilraunaglasi!  Það var komið myrkur þegar okkur var hent út við Centrale stöðina í Mílanó og talsvert var af ferðalöngunum dregið svo upplifunin var ekkert sérstaklega jákvæð.  Gígantísk stöð, ég held hún hafi verið byggð af fasistum til að láta lýðinn finna til smæðar sinnar, og að auki standa viðgerðir yfir sem gerir pleisið ekki beint aðlaðandi.  Fengum lestarmiða til Como og gripum okkur bita á meðan við biðum.  Þegar til Como var komið var okkur mikið létt, falleg borg, meira að segja í myrkri og rigningu og ágætis hótel, þrátt fyrir að vera tveggja stjörnu og frekar fábrotið.  Já, ég gleymdi að minnast á það að hótel eru sjaldséður lúxus í Mílanó á meðan á stórsýningum stendur og helst á maður að panta með sex mánaða fyrirvara.  Við skipulögðum okkar ferð með fimm mánaða fyrirvara og okkar besti kostur var Como sem er í klukkutíma fjarlægð frá Mílanó með lest.  Og sumir taka gistingu lengra frá, annað er ekki í boði.  Við hefðum meira að segja geta tekið gistingu í Sviss en þurftum nú ekki að gera það í þetta sinn. 

Como

Daginn eftir vöknuðum við snemma, mygluð með afbrigðum, borðuðum morgunmat og drifum okkur svo í lestina.  Þaðan var svo farið í metró til sýningarsvæðisins Rho Fiera og ég hef aldrei séð svona pakkaða lest, enda allir að fara á sama stað.  Kostulegt að sjá fólk taka tilhlaup inn í lestina, kasta sér á mannþröngina og takast að troða sér inn!  Og stemningin þegar mannfjöldinn er að labba úr lestina og í áttina að sýningarsvæðinu er svipað og að fara á stóra rokktónleika.  Sýningin sjálf er samsett úr fimm sýningum, óvarlega farið með eru þetta eldhúsasýning, baðinnréttingasýning, heimilistækjasýning, og húsgagnasýningar hefðbundin og nútímaleg hönnun.  Sýningarsvæðið er 345.000 fermetrar svo það gefur kannski smáhugmynd um hversu gígantískt þetta er.  Við skoðuðum eldhúsasýninguna fyrri daginn og nútíma húsgagna og hönnunarsýningu seinni daginn.  Skemmtilegustu básarnir að mínu mati voru Arclinea, Schiffini og Scavolini.  En auðvitað var fullt af öðrum góðum hlutum þarna.  Varðandi strauma og stefnur þá eru áferðir að koma sterkt inn á móti háglansinum sem hefur verið ráðandi undanfarið.  Og sérstaklega finnst mér gott hvað er farið vel með við og hann vel unnin og fær að njóta sín.  En við vorum vægast sagt gengin upp að hnjám eftir þetta.  Fæturnir bláir, bólgnir og marðir og glænýju Skechers skórnir búnir að sanna sig sem algjörir táfýluskór!  Og ég hef ALDREI verið táfýlumanneskja.  Ég veit svei mér ekki hvað ég á að gera við þá núna, kveikja í þeim, henda þeim eða selja Írönum þá sem efnavopn!

Rho Fiera

Hápunkturinn við vistina norðanmegin á Ítalíu hlýtur að vera vistin í Como.  Þrátt fyrir að eiga bara örlítinn tíma þarna á kvöldin er þetta dýrðlega fallega staður og ég verð að koma þarna aftur í betra tómi.  Síðasta kvöldið ætluðum við með lest upp fjallshlíðina (funicular train, ísl. kannski togbraut? - upp snarbratta brekku.) og skreppa á matsölustað sem Mummi hafði frétt af.  Þar er semsagt lítið þorp sem heitir Brunate, brjálað útsýni og er örugglega enn betra að degi til.  Þegar við erum að stíga út úr vagninum er allt í einu sagt við okkur á íslensku: Góða kvöldið.  Þá er þar komin íslensk stúlka sem er au pair þarna í þorpinu.  Hún heitir Aðalheiður og sagði okkur vera fyrstu Íslendingana sem hún hefur rekist á á förnum vegi frá því að hún kom þarna fyrir meira en ári.  Hún labbaði með okkur aðeins um, vísaði okkur á veitingastaðinn og sagði okkur heilmikið um staðhætti og fleira.  Alveg stórmerkilegt hvar maður hittir Íslendinga og ótrúleg tilviljun.  Takk Aðalheiður, ef þú rekst hingað inn.  Veitingastaðurinn var svo við það að loka en við létum það ekki á okkur fá, röltum aðeins um og tókum myndir og tókum svo lestina niðureftir aftur.  Fórum svo inn á annan veitingastað hvar við sátum úti í tíu gráðu hita en fengum frábæran mat.  Svo rosalegan að maður gat ekki torgað öllu og því sem næst valt heim á hótel.  Morguninn eftir ætluðum við snemma inn til Mílanó því við áttum bókaðan tíma að sjá síðustu kvöldmáltíðina hans Lenna (Leonardo).  Ekki hafði okkur tekist að sjá að lestirnar ganga strjálar á sunnudögum svo við vorum komin of seint inn til Mílanó.  Lítið var við því að gera nema koma sér inn á kaffihús og fá sér morgunmat.  Mummi átti bókað flug til Prag eftir hádegið og við ætluðum suður til Flórens um svipað leyti.  Við fórum svo í Parco Sempione og skoðuðum kastala Sforza manna, dragandi töskurnar á eftir okkur.  Svo skildu leiðir, Mummi fór til Malpensa og við skelltum okkur í næstum þriggja tíma lestarferð til Flórens.

Meira næst!

Sforzesco


Frú Syfja skrifar

Ég er búin að vera lasin frá því ég kom heim og hef til dæmis sofnað í sófanum á hverju kvöldi.  Sofnaði meira að segja á undan Huldu í gærkvöldi.  En ferðasagan verður að bíða þar til ég er búin að ná meira þreki.  Set þó inn eina mynd sem ég tók í Flórens.  Brúin á myndinni heitir Ponte Grazie.

272

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband