Skamm!

Í kvöld er ég alveg gáttuð.  Og jafnvel meira en hneyksluð.  Því úrslit prófkjörs Samfylkingarinnar hér í Suðvesturkjördæmi eru alveg með ólíkindum.  Samfylkingarmenn hafa semsagt ákveðið að Katrín Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir hafi minna fram að færa en Gunnar Svavarsson.  Með fullri virðingu fyrir þeim karli. en þá hafði ég ekki heyrt  á hann minnst fyrr en í prófkjörsundirbúningnum sem fór fram undanfarna daga.  En þessar tvær sem lentu "undir" kallinum eru búnar að vera starfandi af fullri einurð  og heldur sýnilegri en þessi náungi.  Og þetta kemur vel á vondan þegar formaðurinn er búinn að vera að andskotast út í alla aðra flokka en sinn eigin fyrir slakan árangur í að kjósa kvenmenn sér í forsvari.  This makes me bloody furious.  Og það er sennilega merkilegast fyrir þær sakir að ég er flokksbundin Sjálfstæðiskona frá því í fyrravor en það kemur samt ekki í veg fyrir að ég þekki góðar gáfur, einurð og fylgni við málstaðin þrátt fyrir andstæðar skoðanir í pólitík.  Eins og eiginmaðurinn segir (sem er miklu helblárri en ég!), mér finnst þetta viðbjóður.  Skamm!  Þið getið gert svo miklu betur.  Skamm skamm!

 


Hollerasserí (datt engin fyrirsögn í hug)

Margt hefur á daga oss drifið frá því síðast...

Missti reyndar af heljarinnar reunion partýi hjá Hagaskólafólkinu en framkvæmdamaðurinn Björn Friðgeir hefur sett saman póstlista fyrir fólkið og ber að hrósa honum í hástert fyrir það.  Hér kemur það: HÁSTERTUR!!  Mæti næst, ekki spurning.

En þá helgina skruppum við smáfjölskyldan upp í Biskupstungur og vorum í sumarbústað.  Nauðsynlegt eftir annasamt haust.  Og við gátum gert allt sem við ætluðum að gera sem var: sofa, hanga í pottinum, borða góðan mat, drekka oggulítið af rauðvíni, hlusta á góða tónlist, horfa á velvaldar myndir, fara í góðan göngutúr, prjóna, hanga meira í pottinum og í tilfelli Huldu Ólafíu, leika sér að nýju legókubbunum sínum.  Huldu fannst reyndar afar merkilegt að fylgjast með þegar sokkar voru prjónaðir.  Göldrum líkast að breyta einhverjum spotta í snotra bleika ullarsokka sem pössuðu svo á hana sjálfa!

Á þriðjudaginn átti svo heiðurskonan hún tengdamóðir mín áttræðisafmæli og við skruppum upp á Víðivelli með fangið fullt af rósum til hennar.  Gat nú verið að hún ætti afmæli á Hrekkjavökunni! Einnig tókum við þátt í að gefa henni forláta hægindastól og Hulda var afskaplega dugleg að hjálpa til við að bera hann inn.  Verst var þó að þegar var búið að setja stólinn upp vildi Hulda sitja í honum, fikta í sveifinni sem setur upp fótskemilinn og hundskammaði hvern þann sem reyndi að taka stólinn af henni.  Amma fékk þó aðeins að prófa, með semingi þó!

Keyptum borðstofuborð og stóla notaða á miðvikudaginn.  Tekk og líklega smíðað um eða uppúr 1960.  Ég slysaðist nefnilega til að skoða smáauglýsingarnar á Moggavefnum og fann þetta þar.  Kúnstugt, því ég skoða þær svo til aldrei.  Borð sem er stækkanlegt, gæti passað við stólana mína og reyndar vantar alltaf stóla þegar stórfjölskyldurnar hittast.  Við þurfum aðeins að pússa og fínisera þetta en þetta eru fallegir gripir.   Ekki skemmir að núna fæ ég hitt borðið niður og get notað það sem vinnuborð sem var víst alltaf upphaflega meiningin. 

 Víst þarf ég að útvega mér skjalaskáp líka.  Sé það núna þegar ég horfi á köttinn leggja sig í miðri hrúgunni!

Í vinnunni er jólavertíðin hafin.  Ótrúlegar annir og maður er eiginlega útbrunnin á milli tvö og þrjú um daginn.  Svo kemur maður heim, missir meðvitund á sófanum nema hvað yngri dóttirin kemur reglulega, hristir mann og segir: "Vakna, vakna, komdu!"  Í fyrra fékk ég magabólgu fyrir jólin af stressi og kaffiþambi.  Kaffidrykkjan er reyndar því sem næst horfin núna þegar ég nota ekki lengur mjólk svo kannski ætti maður bara að panta valíum hjá heimilislækninum og vera í rólyndisrússi í jólaösinni!Shocking   Nei, ætli það....

Ég ætlaði að fara að tjá mig um önnur og alvarlegri málefni hér núna en nenni því ekki í bili.  Set kannski upp gáfumannasvipinn  næst.  Haha, sénsinn!


Játningar línperrans

Restar af kvefi ennþá að hrjá mannskapinn.  Reyndar með ólíkindum hvað vikan líður hratt, mér finnst eins og það hafi verið mánudagur í gær.

Það hefur verið algjört bíó að fylgjast með hlerunar og samsæriskenningum og ég held að ég þurfi ekki að bæta neinu við þá revíu sem er í gangi þar.  Sýnist að bryddað verði upp á mörgum försum í vetur, svona í aðdraganda kosninganna.  Ég var að hugleiða í alvöru hvort maður ætti að hvíla Moggann á meðan á þessu stæði en það er hálftilgangslaust þar sem önnur blöð gubbast hvort sem er linnulaust inn um lúguna.  Maður er orðinn fastagestur í grenndargámunum, í örvæntingu að henda öllu blaðaflóðinu.

Svo er hin óskiljanlega ákvörðun að hefja hvalveiðar aftur, einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni að þarna sé bara verið að hygla einhverjum kallskröttum sem hafa verið að pússa skutlana í tuttugu ár.  Persónulega finnst mér hvalkjöt óþverri og mér finnst þessi ákvörðun skemmandi fyrir landið okkar. 

Svo komst ég að því að ég er svokallaður línperri.  Það er nefnilega einstök nautn að strauja hvítu bómullarrúmfötin mín með heklaða milliverkinu og fara svo og sofa í þeim.  Tekur óratíma en alveg þess virði.  Ég er í fúlustu alvöru að hugleiða að fara í L'Occitane og kaupa svona línvatn sem maður steinkar þvottinn með svo rúmfötin fái huggulega lykt í leiðinni.  En það dugar ekki að gera svona við gömlu druslurnar sínar.  Nei, þetta verða að vera alvöru rúmföt.  Öðruvísi mér áður brá því ég er yfirlýstur andstraujari.  Svo bregðast krosstré sem önnur....

En á morgun er útskrift Meistara Guðrúnar og við mætum að sjálfsögðu, galhress, í okkar fínasta pússi og með pakka í sveittum litlum lófunum.


Lesið þetta

Ég ætla að leyfa mér að tengja inn á þessa síðu.  Með betri greinum sem ég hef lesið.

Kvef í Kópavogi og aðrar gleðifréttir

Fyrst ber að nefna og fljóta hér miklar og gífurlegar hamingjuóskir með: Lilju og Braga var að fæðast annar sonur og mun allt hafa gengið að óskum.  Enn og aftur þá óskum við foreldrum og stóra bróður innilega til hamingju með snáðann.

Lítið að frétta annars frá okkur, kemst reyndar sjaldan í tölvuna þessa dagana og spurning um að fara að spara krónurnar sínar fyrir fartölvu til að vera fær í flestan sjó.

Huldu tókst að smita mig af einhverri leikskólakvefpest en ég hef þó mætt í vinnuna og reynt að gera mitt til að dreifa ósómanum. Glottandi Nei, ég hef verið stillt og reynt að stilla mig um að spreyja vírusum á kúnna og samstarfsmenn.

Fagnaðarlætin halda áfram því IKEA hið risastóra er að opna og húsmæður á höfuðborgarsvæðinu þurfa ekki að hanga heima hjá sér frekar en þær vilja!  Í það minnsta sjáum við systir mín það að við getum mæst þarna á miðri leið og bara hangið á kaffiteríunni.

Jæja elskurnar, best að fara að sofa og reyna að reka pestina úr sér.


Indian!

Kópavogsbúar og nærsveitarmenn ættu að gleðjast því Austurlandahraðlestin (matstaðurinn, ekki farartækið) er mætt á svæðið.  Fjölskyldan fékk dýrlega kjúklingarétti og guðdómleg naan brauð þarna í kvöld og borðuðum heima.  Það varð reyndar að borðast heima því örverpið í fjölskyldunni náði sér í einhverja pest og er búin að vera lasin í dag. 

En, þess utan þökkum við góðar kveðjur og svo samveru við þá sem mættu hingað í litlu-miðausturlönd á laugardagskvöldið.  Afmælisbarnið er barasta nokkuð sátt við sinn hlut, fyrir utan að taka við fullt af bröndurum frá bræðrum sínum og öðrum fjölskyldumeðlimum.

 Annars bið ég ykkur vel að lifa þar til næst.


Dagur á Lansanum.

Afmælissnáði

Fyrst ber að nefna að húsbóndinn átti afmæli í gær og gáfum við mæðgurnar honum góða gjöf.  Ljós lífs míns er semsagt orðinn fertugur!

En í dag vorum við á Barnaspítalanum hvar Hulda var tekin í hin ýmsustu tékk.  Hún stóð sig vel litla stýrið en það var mikið lagt á mína manneskju og dálítið er nú búið að skæla í dag.  Núna liggur hún enn og sefur og missti þar af leiðandi af verðlaununum frá Lansanum sem var huggulegur hestur.  En eins og allir vita þá er Hulda talsverð áhugamanneskja um hesta.  Við versluðum líka verðlaun fyrir að standast þolraunirnar og verða þau afhent í kvöld þegar litla manneskjan er vöknuð og pabbi kominn aftur heim.

Ég er ekki búin að gleyma loforði mínu um seinni hluta ferðasögunnar en það hangir dálitið á því að ég hafi tíma til að setja inn myndirnar sem eiga að vera með. 

Nú ætla ég að fara að huga að prinsessunni og gá hvort hún fari ekki að rumska af lyfjasvefninum. (Á hverju var eiginlega Þyrnirós?)


Fixed!

Kæru bræður og systur í frysti! 

 

 

Samkvæmt góðri athugasemd frá Þórhildi þá er ég búin að stilla kommentakerfið þannig að maður þarf ekki að staðfesta kommentin.  Comment away my dears!


Hvernig er þetta elskurnar?

Eru allir hættir að kommenta?  Ég sé lítið aksjón í kommentakerfinu þótt ég sjái að ágætis mannfjöldi er að lesa.  Koma svo!   Ekki feimin, hafa samskipti!

Ferðasaga - Galway

Nýbökuð brúðhjón

Jæja, hér kemur þá hvað við höfum verið að bjástra í útlöndum.

Við fórum af stað frá Íslandi fáránlega snemma þann 28. ágúst.  Stoppuðum á Stansted og þurftum að hanga heillengi með ferðatöskurnar þar sem Ryanair byrjaði ekki að tékka inn fyrr en tveimur tímum fyrir brottför.  Á meðan við biðum, orðin glorhungruð, fórum við á "írskan" pöbb, O'Neil's, eins og ég var búin að minnast á og það er full þörf á að ræða þetta aftur því hamborgarinn þar bragðaðist eins og hann hefði verið hakkaður saman úr gamalli lifur og niðursneiddum þörmum. Bjakkfest galore!

Svo var flogið yfir til Dublin með Ryanair og tekin svo rúta í bæinn.  Við gistum á Jurys Inn á Parnell stræti fyrstu tvær næturnar og það var þokkalegasta hótel, snyrtilegt og hæfilega ópersónulegt!  Helsti kosturinn þar var ísvélin frammi á gangi.

Fyrsti dagurinn í Dublin fór í allrahanda stúss: kaupa bindi handa húsbóndanum sem hafði gleymt sínu nýkeypta bindi heima.  Fundum alveg eins bindi í Next og heimabindinu var skilað af Mary Poppins og félögum og keyptir bolir handa Huldu í staðinn.  Svo þurfti að sjálfsögðu að skreppa í Boots og kaupa þær snyrtivörur/sjampó/sturtusápu etc. sem vantaði.  Einnig var droppað inn í Monsoon þar sem húsfreyjan verslaði skartgripi til að fara við nýja kjólinn.

Daginn eftir var stokkið upp í lest til Galway og er lítið um þá ferð að segja nema það  að það er svo margfalt þægilegra að ferðast með lest að maður lét sig alveg hafa kostnaðarmuninn.  Reyndar heyrðum við svo sögur af því seinna hvernig var að taka rútu á milli.  Þórir og Renata, foreldrar  Marteins, hafa tekið rútuna af og til og það mun vera fjögurra tíma ferðir með engu pissubreiki, nema þegar farþegarnir gera uppreisn!

Svo var komið til Galway, í hífandi roki og rigningu enda leifarnar af hitabeltisstorminum Debbie að ganga yfir.  Debbie does Ireland.  Við komum inn á hið frábæra Bed and Breakfast, Bayberry House þar sem heiðurshjónin Tom og Marie Cotter ráða ríkjum.  Ég á ekki til næg orð til að lýsa hvað vistin var góð þar.  Dýrlegur morgunverður, yndisleg hjón.  Okkur var skutlað í brúðkaupið og skutlað á lestarstöðina þegar við fórum.  Ef ég ætti að vera á svona BnB aftur í Galway myndi ég hiklaust fara til þeirra aftur.

Um kvöldið fórum við á Glenlo Abbey hótelið og borðuðum kvöldverð með Íslendingunum.  Þetta er fimm stjörnu pleis, næstum því út í sveit og myndir af allra handa burgeisum og fyrirmennum eru upp á vegg á barnum þarna.  Nefni sem dæmi Pierce Brosnan og Hillary Clinton.  Veitingasalurinn var afar virðulegur, skreyttur með damaski og brókaði og píanóleikara að glamra hugguleg lög.  Merkilegt að kallinn spilaði þó lögin í meira eða minna sama takti.  Þetta var svo huggó að maður bjóst alveg eins við að sjá Hercule Poirot eða Miss Marple að snudda þarna.  En eins fínt og þetta var, og maturinn reyndar svakagóður, var svo merkilegt að fólkið sem var að vinna þarna var ekki með með neina uppskrúfaða stæla og var afar þægilegt.  Ég sæi það nú í anda á sambærilegum íslenskum stað, hver sem það væri.

Daginn eftir var náttúrlega stóri dagurinn.  Við Siggi brugðum okkur þó í bæinn um morguninn á meðan Valgerður chillaði uppi í rúmi, las og borðaði gotterí.  Svo var haldið til kirkju og það var doldið tense andrúmsloftið þegar fór að koma í ljós að brúðurinn var bara ekki að mæta.  Hún komst þó að lokum, hálftíma eftir áætlaðan byrjunartíma og allt gekk eins og í sögu.  Þá höfðu þau lent í allrahanda umferðarklandri á leiðinni, m.a. verið föst fyrir aftan flutningabíl í 20 mínútur, og eitthvað voru taugarnar farnar að þenjast þeim megin.  Brúðhjónin voru pússuð saman, kirkjugestir fengu að klappa í kirkjunni og athöfnin var falleg.

Svo var haldið á Glenlo hótelið aftur þar sem veislan var haldin.  Sami frábæri maturinn og svo svaka stuð eftir matinn þegar var dansað, fyrst við hljómsveitarundirleik og svo kom plötusnúður og hélt uppi fjörinu.  Byrjaði á því að spila 500 miles (með Proclaimers) og undirrituð tók þátt í að stappa og dansa svo drundi í trégólfinu ásamt öðrum brúðkaupsgestum.  Ótrúlegt stúð

Mér skilst að síðustu gestirnir hafi farið heim um fjögurleitið en við lúskruðumst heim um hálftvö, alveg búin. 

Daginn eftir var farið heim til Clodugh og Marteins þar sem fjölskyldurnar hittust.  Það var ekki síður skemmtilegt og gaman að tala við fókið í fjölskyldunni hennar Clodugh.  Merkilegast var þó að þetta minnti mig svo sterklega á okkar eigin fjölskyldu (Hulduherinn) því kvenfólkið er á svipaðri hæð, sami kjafturinn og stuðið á liðinu og fólk álíka röskt að ganga frá eins og gerist hér.  Það er líklega sterkt íragenið sem kemur úr Eyjafirðinum, því maður sér talsvert af litlu og kringlóttu kellingunum þegar maður fer norður.  Okkur Valgerði leið ágætlega því þarna vorum við í meðalhæð, ekki dvellar eins og Helga kallar það.  Og ég sá konu sem var glettilega lík Huldu Katrínu.  Ég sá reyndar líka slatta af krökkum sem voru krullótt á svipaðan hátt og okkar Huldur.

Daginn eftir fórum við aftur í lestina og fórum til Dublin.  Vistin í Galway var yndisleg og ég ætla mér að fara þangað aftur og hafa þá aðeins lengri tíma til að skoða mig um og slaka aðeins á.

Ég held ég verði að skrifa restina af ferðasögunni seinna því þetta er orðin svoddan langloka...


Fleiri myndir

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband