Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
Ég er mætt aftur til starfa eftir þá mestu afslöppunarpáska sem ég hef upplifað í nokkur ár. Við náðum að horfa á nokkrar bíómyndir í heilu lagi, skruppum í göngutúra með og án stubbsins, borðuðum fáránlega góðan mat og gátum hvílt okkur. Ég fer næstum því að þora að mæla blóðþrýstinginn! Það var starfsdagur á leikskólanum hennar Huldu í gær svo ég fékk frí í vinnunni og var heima hjá dætrunum. Við reyndar brugðum okkur upp í Hamraborg og sóttum bækur á pósthúsið og settumst svo inn á kaffihús.
Ég fékk frá Amazon ferðabækur um Mílanó og Flórens sem ætlunin er að hafa til handargagns í ferðum okkar. Ég var líka að kaupa bók um einhverf börn og matarvandamál sem geta fylgt þeim. Það getur nefnilega verið ansi gloppótt hvað ungfrúin borðar eða borðar ekki. Hún borðar yfirleitt þokkalega á morgnana en úr leikskólanum koma af og til þær fréttir að lítill áhugi sé á matnum þar. Svo er upp og ofan hvort hún borðar eitthvað af því sem er í boði á kvöldin. Þannig að nú sest ég við lestur.
Ég keypti líka bók um Asperger/einhverfu og snilligáfu. Ekki af neinni óskhyggju heldur vegna þess að ég hafði lesið um hana á BBC og hafði áhuga á að kíkja á hana. Ég er aðeins farin að kíkja í hana og finnst hún barasta nokkuð góð. Annars ætti ég að fara að taka saman á einum stað allar bækur sem ég er búin að viða að mér um einhverfu og skyld málefni. Þetta fer að verða efni í svona mini bókasafn innan bókaflóðsins sem ég sanka að mér. Systir mín spurði mig einhvern tímann (veit ekki hvort hún var að grínast!) hvort ég væri áskrifandi að Amazon! En þegar maður er að leita að ákveðnum bókum um ákveðin málefni er þetta náttúrlega eina leiðin. Bókasafnið hefur ekki nema brot af því sem ég hef áhuga á og svokallaðar bókabúðir hér á landi eru með takmarkað úrval og okra gífurlega á því sem þær selja. Maður er að sjá sömu bækurnar á fjórföldu verði í búðunum hér heima. Verst að það er ekki hægt að kaupa í matinn á sama hátt. En nú fer þetta að umbreytast í tuð um einokun og efnahagsástand og kannski efni í annan pistil.
Hafið það gott!
Bloggar | 26.3.2008 | 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggar | 21.3.2008 | 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Loksins komið langþráð páskafrí. Við eiginmaðurinn vorum að koma úr innkaupaferð í Smáralind og búin að kaupa í flestallar máltíðir páskanna. Gerðum barasta ágætis kaup held ég. Svo þegar heim var komið var drifið í að útbúa Huldu með nesti og nýja skó (aukaföt, náttföt og bangsa) þar sem Hulda Kata var komin að sækja hana til að fara í Njarðvíkurheimsókn. Okkar manneskja var aldeilis til í að fara og kvaddi mig margoft í þeirri von að það myndi flýta brottför! En ósköp er nú rólegt þegar stúlkan er farin.
Ég er verulega þreytt eftir vikuna og dottaði í sófanum þegar ég kom heim úr vinnunni í gær. Svo var erfitt að vakna í morgun. Svei mér þá ég ætla að sofa út í fyrramálið. Hér heima verður svo dálítil þvottavinna eins og venjulega (er enginn endi á þessu helv#$%?). Eldri dóttirin er að sverma fyrir Smáralindarferð en ég verð að viðurkenna að mig langar ekki baun út í kuldann og rokið.
Eftir mánuð, ef allt gengur upp, verður frúin svo stödd á Ítalíu, takk fyrir. Þar verða nokkrir dagar í Mílanó að skoða hönnunar og húsgagnasýningu, nokkuð sem telst til vinnu og verðum við eiginmaðurinn þar ásamt Mumma að meðtaka strauma og stefnur. Eigum líka bókaðar fimmtán mínútur til að horfa á síðustu kvöldmáltíðina hans Lenna (a.k.a. Leonardo) Svo skiljast leiðir, Mummi fer til Prag og við förum suður til Flórens. Þar verðum við í nokkra daga áður en heim er haldið á ný. Það er skylda að skoða allt það sem var messað yfir okkur í listasögutímum og ég þarf að finna mér góða skó til að ganga í fyrir allt labbið. Eina sem mér leiðist dálítið í þessu er að við virðumst ófær um að fara einfalda ferð til útlanda. Alltaf skal maður vera að þvælast í allra handa millilendingum, skiptingum, lestarstússi og þess háttar. Aldrei neitt einfalt. En maður ætti svo sem að vera orðinn vanur svona stússi. Ég hef aldrei komið til Ítalíu og hlakka talsvert til. Ekki síst að smakka matinn þeirra (maður verður að viðhalda mjúku línunum, skiljið þið!). Eins og frænkur mínar lýsa þessu, þá er maturinn í Frakklandi góður, ójá sammála því, en betri á Ítalíu. Og kaffi. Gott kaffi er eitthvað sem vantar í kerfið. Hulda og Valgerður fá svo góðar manneskjur í hlutverk Mary Poppins á meðan við þvælumst um suður Evrópu.
Hátíðamaturinn hér á bæ verður matreiddur með aðstoð frú Nigellu. Á föstudaginn langa verður búin til fiskibaka með laxi, ýsu, lúðu og rækjum. Kryddað með saffrani og fleiru góðu. Á páskadag skal eldað lambalæri að hætti gyðinga. Ekki seinna vænna að virða gyðingaforföðurinn ekki satt? Í þessum tveimur máltíðum gefst tækifæri til að nota eitthvað af saffraninu sem bræðurnir bera með sér úr ferðum sínum um heiminn. Við eigum til dæmis lítið gullslegið hylki sem inniheldur Íranskt saffran sem ku víst vera það besta í heimi (að sögn Írana). Einnig eigum við vænan poka af möluðu saffrani sem Bjössi keypti í Cairo. Í kvöld er svo eldaður svo oggulítill hamborgarhryggur sem fékkst í Hagkaup fyrir smánarverð. Aðra daga reikna ég með heldur léttara fæði til að rétta jafnvægið aðeins af. En nú ætla ég víst að strauja svolítið og brjóta svolítið saman og þvo dálítið og þurrka oggulítið og með smáheppni get ég tínt ponsulítið til í vinnuherberginu.
Vona að þið eigið góða páska! Á örugglega eftir að skrifa meira en þá fáið þið bara fleiri páskaóskir!
Bloggar | 20.3.2008 | 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bara að láta vita að ég er hér ennþá. Ég er ekki beinlínis búin að vera í banastuði undanfarna viku en er öll að hjarna við núna. Eiginmaðurinn tók sér líka fáheyrt frí á laugardegi til að aðstoða á heimilinu því húsfrúin var ekki alveg í stakk búin. Svo nú eru blómin búin að fá að drekka, búið að þrífa meira og við tæmdum fataskápa af óþarfa og röðuðum því litla sem eftir var. Rauði Krossinn fékk helling. Að vísu heyktist ég á að flokka smábarnafötin til fullnustu og varð bara meyr svo það var látið duga að taka þau úr skápnum hennar Huldu og ég mun klára það verk þegar ég er orðin hraustari. En í vinnunni var smá smit frá bilanaflensunni hér heima því hljóðtölvan mín varð lasin, móðurborðið lést semsagt. Þegar ég fór á föstudaginn var þó búið að fá nýtt og verið var að blása lífi í sjúklinginn. Bræðurnir hafa líka lent í tækniklandri því ADSLið hjá þeim hefur verið í klúðri og þeir koma reglulega og fá að brúka tölvu og tengingu.
Við skruppum svo í Byko í dag í Kauptúni og ráfuðum um eins og týndir sauðir. Ég hafði þó af að kaupa tappa í eldhúsvaskinn, ljósaperur (já, fleiri!) og rúmfatnað handa eldri dótturinni. Hún á víst afmæli á morgun stúlkukindin, sweet sixteen og allt það. Myndarleg ung kona og mér finnst ótrúlega stutt síðan hún náði ekki með nefið upp á stofuborðið!
Farin að finna mér eitthvað gott að hlusta á. Hafið það gott.
Bloggar | 16.3.2008 | 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur. Allar vélar fullar og eru í óðaönn að þvo og þurrka. Við Hulda búnar að skreppa í hádegismat til tengdó og borða þar heimavistarkássu. Snjórinn að detta í blautum hlössum af þakinu og sólin farin að góna inn til okkar. Kominn tími á að panta sólverjandi gluggatjöld hér á suðvesturhliðina því núna verður ekki líft hér á efri hæðinni fyrr en í október!
Við fórum í leikhús í gær að sjá Kommúnuna ásamt Göflurunum. Ágætis útfærsla en vantað samt dálítið kjarna og kraft í þetta miðað við myndina. Og var gert hálffarsakennt á köflum sem mér fannst óþarfi. En svo er náttúrlega spurning hvernig þetta gengur í þjóðir sem hafa aldrei séð myndina.
Ég er reyndar á einhverju innrænu trippi þessa dagana, nokkuð sem gerist af og til, og vil helst ekki vera mikið í margmenni. Við fórum að sækja leikhúsmiðana á fimmtudagskvöldið og fórum í framhaldi af því í Hagkaup í Kringlunni til að versla. Allt of mikið af fólki, of mikil nálægð, of mikil lykt og ég var afskaplega fegin þegar ég slapp út. Sömuleiðis var erfitt að vera í mannþrönginni í leikhúsinu af sömu ástæðum. Já, ég veit að einhverfa er erfðatengd og líklega á ég minn part í þessu. En ég skil svo sannarlega hana Huldu þegar hún fer að láta illa í margmenni. Það hefur reyndar minnkað um örugglega níutíu prósent frá því sem var fyrir svona einu og hálfu ári síðan. Þá var helst ekki hægt að taka hana með í búð. Maður gleymir nefnilega undrafljótt hjöllunum sem maður er kominn yfir og kannski er það bara ágætt. Það sem fylgir svo þessum pirringi í frúnni er að það verður óhóflega ertandi og leiðinlegt að hlusta og horfa á fjölmiðla, sérstaklega auglýsingar.
Þannig að nú er verkefnið að bauka bara eitthvað rólegt á heimaslóðum, horfa bara á það sem maður velur sjálfur, kannski lúsast út í göngutúr og ná aftur andanum. Í kvöld ætlum við að elda fiðurfénað og horfa svo á Stardust sem við vorum að kaupa. Hafið það gott!
Bloggar | 8.3.2008 | 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þetta eru búnir að vera skringilegir tímar á heimilinu síðustu viku. Hitt og þetta hefur bilað og önnur hver pera hefur sprungið á stuttu tímabili. Og svo kom Hulda Katrín með flakkara í heimsókn í gær, sem er nota bene, eins og okkar flakkari. Reynt var að tengja viðkomandi við tölvuna en eitthvað var hún lítið áhugasöm að sjá hann. Það gekk þó að lokum og flakkarinn birtist, en ekki var hægt að opna hann. Svo bara hvarf hann alveg. Ergo, bilaður og virðist hafa fallið undir niðurrifsálögin sem liggja yfir heimilinu þessa dagana. Sem betur fer hafa þessi áhrif ekki fylgt mér í vinnuna þar sem maður meðhöndlar tugi tækja á degi hverjum, það væri skelfilegt, 7-9-13 (bankar í hausinn). Hulda Katrín kom reyndar líka með nýja bjórinn, Skjálfta, og gaf okkur. Nokkuð góður fannst mér og sniðugt að Íslendingar séu farnir að búa til alls konar afbrigði af bjór. Til að mynda finnst mér Kaldi, afskaplega vel heppnaður. Takk fyrir mig Hulda.
En það gengur þokkalega að fá Huldu Ólafíu til að sofna og hún svaf til að mynda alla nóttina í sínu rúmi í nótt. Vaknar hress og kát og er með alls konar spaugsemi yfir morgunmatnum. Svo er hún búin að ná nýju stigi í málþroskanum og byrjaði á því um síðustu helgi. Það er hið alræmda "Hvað er þetta?" stig. Við höfum ekki undan því að svara allri upplýsingaöfluninni sem er í gangi. En þar sem þetta er einhverjum árum of seint eru þetta sæt orð og ég set sko ekki fyrir mig að svara. Hulda Kata benti reyndar á að nú myndi líklega fylgja í kjölfarið "Hvað ertu að gera" og "Af hverju" og vonandi gengur það eftir. Reyndar fylgir líka með að hún nefnir hluti: "Þetta er köttur. Þetta er kall. Þetta er stóll." og svo framvegis.
Síðasta helgi var ótrúlega annasöm, á góðan hátt þó. Við fórum í útskriftarveislu sem var aldeilis fínt og frábær matur á borðum. Þaðan fórum við beint í Laugardalshöllina að sjá Þursaflokkinn og Caput og það voru fínir tónleikar. Helst að ég myndi kveina yfir að Caput fékk full mikinn þátt í mixinu á kostnað Þursaflokksins en það er minni háttar steytingur því þetta var afar gott á heildina.
Á sunnudagskvöldið var svo haldið á Nasa að sjá Hayseed Dixie. Það var dálítið erfitt að hafa sig af stað, því það er dálítið strangt að fara að heiman báða daga helgarinnar, en þegar á staðinn kom var þetta algerlega þess virði. Stórskemmtilegir tónleikar og jafnvel þess virði að fara bara til þess að heyra sögurnar á milli. Náunginn er sögumaður af guðs náð, ótrúlega gott.En ég er svoddan heimalús að mér finnst erfitt að vera alltaf á útstáelsi svo þessi helgi verður hér í rólegheitunum. Eldað eitthvað gott og einfalt og glápt á sjónvarpið.
Að lokum: Við fórum á sýningaropnun í gær í Anima Gallerí sem er á Freyjugötu. Þar var að opna sýningu Jón Henrýsson, skólafélagi Sigga úr Mynd og Hand. Dúndurgóð sýning eins og við er að búast af þessum manni.
Núna gengur Hulda á milli herbergja og segir mér að þetta og hitt ljósið sé bilað. Ég þarf að leggja í meiriháttar ljósaperuinnkaup um helgina og reyndar fleira sem þarf að dytta að. Ég vona svo að lokum að flakkaranum batni og nái fyrri heilsu aftur.
Bloggar | 1.3.2008 | 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Eldri færslur
- Febrúar 2009
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
Nóv. 2024
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Ýmislegt áhugavert
- Auður AkureyrarAuður
- Birta og Helgi Danmerkurgengið
- Guðrún Björk Garún, Garún
- Hulda Katrín Eldri krullhausinn
- Valgerður Dóttirin
- Guðrún Mary Seltjarnarnesdaman
- Björninn Bjössi bekkjarbróðir
- Hörður Myndasmiður Myndirnar hans Harðar
- Vinnan Mitt daglega starf
- Drawn Krotarablogg
- Cartoon Brew Hreyfimyndablogg
- Autism Diva Donna Williams
- IllustrationMundo Krotarar alheimsins