Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

ÞAU UNNU!

Ég er þvílíkt að rifna úr monti og stolti núna að það hálfa væri nóg.

Valgerður semsagt tók þátt í First Lego League keppninni í dag.  Ég skrapp niður í Öskju í hádeginu og horfði á þau flytja kynninguna sína.  Fyrir mína parta var það aldeilis fínt og glæsilegt, þau eru búin að standa sig með þvílíkum sóma í störfum sínum að það dugði alveg prýðilega.  Verðlaun væru jú bónus en ekki atriði í sjálfu sér.

Svo fór ég heim en fylgdist með verðalaunaafhendingunni í gegnum netið.  Þau unnu ekki fyrir rannsóknarverkefnið og svo voru veitt hin og þessi verðlaun en ekkert var að gerast.  Svo komu næst síðustu verðlaun, besti bíll í braut minnir mig að það heiti, og þá unnu þau!  En svo voru aðalverðlaunin og haldið að þau hafi ekki barasta unnið þau líka!!!  Ég var með Sigga í símanum á meðan þetta var lesið upp og foreldrarnir eru alveg að tapa sér af stolti yfir vísindanördinum okkar.

Hér er heimasíða Nanóveranna sem er það sem liðið heitir.  Fullt af skemmtilegum myndum og lesningu.

Og svo segir maður barasta: HIP HIP!  HÚRRA! HIP HIP!  HÚRRA! HIP HIP!  HÚRRAAAAA!

LoLLoLLoL


Nanómóment í tölvunni!

Sloppin í tölvuna, loksins!  Eiginmaðurinn er að svæfa ungann svo ég hef sjaldgæfar fimmtán mínútur til að deila rausi mínu með blogglesendum.  Hífandi rok úti og gatan mín stendur víst ekki undir nafni í dag.  En það er búið að taka allt lauslegt inn frá því í síðasta óveðri og tjóðra grillið fast þannig að við erum bara róleg í rokinu.

Er komin á það stig í vinnunni að ég sé ekki fram úr því sem ég er að gera og geri ekki ráð fyrir að það ástand batni fyrr en síðasta vinnudag fyrir jól!  Þá er spurning um að gera eins og var talað um í Fóstbræðrum: Kveikja á kerti, því maður er orðinn allt of stressaður!

 Við vorum talsvert á ferðinni síðustu helgi, hjálpuðum tengdamömmu að halda afmæliskaffi og tókum svo til eftir herlegheitin.  Á sunnudeginum heimsóttum við svo Lilju, Braga, Daníel og litla kút.  Myndarlegur snáði mættur í heiminn þar.  Um kvöldið var svo nautasteik hjá Gísla mági mínum í tilefni afmælis hans.  Hulda stóð sig vel báða dagana sem pakkaupprífari en það tókst þó að gefa Daníel og litla bróður hans pakka án þess að Hulda tæki athafnirnar að sér.  Skemmtileg helgi en það skal viðurkennast að það verður dálítið rót á mannskapnum þegar við náum ekki að borða heima yfir helgina. 

Vikan hefur annars verið annasöm og ég barasta skil ekki hvert tíminn fer, mér líður enn eins og það sé mánudagur.

Valgerður er á fullu að undirbúa sig fyrir Legokeppnina á laugardaginn.  Hún er ekki að föndra við kubbana í þetta sinn en er að undirbúa rannsóknarverkefni um nanótækni og fleira gott.  Við höfum lítið séð hana, því hún ýmist hangir í skólanum eða heima hjá vinkonu sinni að fikta í vísindum!  Þvílíkir vandræðaunglingar!  Í fyrra unnu þær til verðlauna fyrir verkefnið sitt og við bara óskum henni góðs gengis í þessari atrennu.

Fróðlegt að sjá "þjóðernishyggjufólkið" koma skríðandi út úr skápnum, núna þegar frjálslyndir segjast vera með málefnalega umræðu um innflytjendur.  Ég er nokkuð viss og sýnist það líka á þeim viðtölum sem eru tekin við suma samborgarana, að skoðanirnar sem eru viðraðar eru  byggðar ekki á málefnalegum grunni.

Ef ég færi að agnúast út í útlendinga þyrftum við Siggi að hætta að tala við svo til alla vini okkar og jafnframt að hafa skömm á þeim pörtum í okkur sem við getum rakið til erlendra forfeðra okkar.  Það er víst Fransmaður sem lokkaði einhverja formóður Sigga í bólið og ég á víst forföður af gyðingaættum sem kom hingað frá meginlandi Evrópu.  Svo gætum við farið að skammast út í írska upprunann og svei mér þá ef við erum ekki komin af Norsurum líka!  Dear oh dear!  Við erum líklega öll komin af innflytjendum!

Eins er það merkilegt að sumir Íslendingar telja sig mega búa og vinna alls staðar en geta ekki umborið að aðrir komi hingað!  Það verður að taka á þessu strax og kannski er ágætt að þetta hafi fengið að koma upp á yfirborðið í stað þess að krauma undir niðri og skemma kannski meira en orðið er.

Núna streyma inn prófkjörsauglýsingar og alls konar lið sendir manni SMS og hringir til að biðja um stuðning.  Held mér hafi tekist að móðga einhverja ágæta konu sem hringdi fyrir hönd ágæts manns sem er í framboði.  Ég semsagt glopraði því út úr mér að ég hefði ekki hugmynd um hvaða maður þetta væri og svei mér þá ef henni sárnaði ekki að ég skyldi ekki þekkja svona mætan Kópavogsbúa!   Svona er að trufla maddömuna þegar hún er í sumarbústað með rauðvínsglas í hendi, kallinn í sófanum og að hlusta á Django!  Síðan þá hefur birst slatti af myndum af náunganum í blöðunum.  Það er eins og sumir haldi að mynd sé nóg til að gera þá fýsilega til stjórnmálaþáttöku. Takk, en nei takk.  Það er reyndar efni í heila ritgerð að stúdera auglýsingar, greinaskrif og almennt hvernig liðið kynnir sig þessa dagana en það verður ekki gert núna.

Já, ég sá Mýrina í gær.  Ágæt mynd, algjörlega hægt að horfa á hana og hún er prýðilega aðhæfð kvikmyndaforminu.  Tvö oggulítil feilspor í henni en engin er víst fullkominn, ekki einu sinni ég!

Góðar stundir


Hversu langt á að ganga?

Núna finnst mér ástæða til að vekja athygli manna á málflutningi Frjálslynda flokksins og þá sérstaklega hugmyndum Magnúsar Þórs Hafsteinssonar á innflytjendamálum.  Er ekki ansi langt seilst þegar þú þarft að sækja fylgið í sjálfhverfa hvíta klúbbínn?  Hvað með að flytja bara inn "kristna norðurlandabúa"?  Hvað með að takmarka innflutning á múhameðstrúarfólki.  Hvernig væri nú að leggja niður fúkkalyf, augnlinsur og getnaðarvarnir, while we're at it?  Fólkið sem að tekur að sér verkin sem Íslendingar eru of fínir fyrir (og gerir oft miklu betur!) á ekki þetta bull skilið!

Sorry maður, þessar hugmyndir runnu út á sama tíma (hugsanlega fyrr) og Nürnberg réttarhöldin urðu móðins. 

Þau hljóta að hafa betri hugmyndir til að afla sér fylgis....


Skamm!

Í kvöld er ég alveg gáttuð.  Og jafnvel meira en hneyksluð.  Því úrslit prófkjörs Samfylkingarinnar hér í Suðvesturkjördæmi eru alveg með ólíkindum.  Samfylkingarmenn hafa semsagt ákveðið að Katrín Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir hafi minna fram að færa en Gunnar Svavarsson.  Með fullri virðingu fyrir þeim karli. en þá hafði ég ekki heyrt  á hann minnst fyrr en í prófkjörsundirbúningnum sem fór fram undanfarna daga.  En þessar tvær sem lentu "undir" kallinum eru búnar að vera starfandi af fullri einurð  og heldur sýnilegri en þessi náungi.  Og þetta kemur vel á vondan þegar formaðurinn er búinn að vera að andskotast út í alla aðra flokka en sinn eigin fyrir slakan árangur í að kjósa kvenmenn sér í forsvari.  This makes me bloody furious.  Og það er sennilega merkilegast fyrir þær sakir að ég er flokksbundin Sjálfstæðiskona frá því í fyrravor en það kemur samt ekki í veg fyrir að ég þekki góðar gáfur, einurð og fylgni við málstaðin þrátt fyrir andstæðar skoðanir í pólitík.  Eins og eiginmaðurinn segir (sem er miklu helblárri en ég!), mér finnst þetta viðbjóður.  Skamm!  Þið getið gert svo miklu betur.  Skamm skamm!

 


Hollerasserí (datt engin fyrirsögn í hug)

Margt hefur á daga oss drifið frá því síðast...

Missti reyndar af heljarinnar reunion partýi hjá Hagaskólafólkinu en framkvæmdamaðurinn Björn Friðgeir hefur sett saman póstlista fyrir fólkið og ber að hrósa honum í hástert fyrir það.  Hér kemur það: HÁSTERTUR!!  Mæti næst, ekki spurning.

En þá helgina skruppum við smáfjölskyldan upp í Biskupstungur og vorum í sumarbústað.  Nauðsynlegt eftir annasamt haust.  Og við gátum gert allt sem við ætluðum að gera sem var: sofa, hanga í pottinum, borða góðan mat, drekka oggulítið af rauðvíni, hlusta á góða tónlist, horfa á velvaldar myndir, fara í góðan göngutúr, prjóna, hanga meira í pottinum og í tilfelli Huldu Ólafíu, leika sér að nýju legókubbunum sínum.  Huldu fannst reyndar afar merkilegt að fylgjast með þegar sokkar voru prjónaðir.  Göldrum líkast að breyta einhverjum spotta í snotra bleika ullarsokka sem pössuðu svo á hana sjálfa!

Á þriðjudaginn átti svo heiðurskonan hún tengdamóðir mín áttræðisafmæli og við skruppum upp á Víðivelli með fangið fullt af rósum til hennar.  Gat nú verið að hún ætti afmæli á Hrekkjavökunni! Einnig tókum við þátt í að gefa henni forláta hægindastól og Hulda var afskaplega dugleg að hjálpa til við að bera hann inn.  Verst var þó að þegar var búið að setja stólinn upp vildi Hulda sitja í honum, fikta í sveifinni sem setur upp fótskemilinn og hundskammaði hvern þann sem reyndi að taka stólinn af henni.  Amma fékk þó aðeins að prófa, með semingi þó!

Keyptum borðstofuborð og stóla notaða á miðvikudaginn.  Tekk og líklega smíðað um eða uppúr 1960.  Ég slysaðist nefnilega til að skoða smáauglýsingarnar á Moggavefnum og fann þetta þar.  Kúnstugt, því ég skoða þær svo til aldrei.  Borð sem er stækkanlegt, gæti passað við stólana mína og reyndar vantar alltaf stóla þegar stórfjölskyldurnar hittast.  Við þurfum aðeins að pússa og fínisera þetta en þetta eru fallegir gripir.   Ekki skemmir að núna fæ ég hitt borðið niður og get notað það sem vinnuborð sem var víst alltaf upphaflega meiningin. 

 Víst þarf ég að útvega mér skjalaskáp líka.  Sé það núna þegar ég horfi á köttinn leggja sig í miðri hrúgunni!

Í vinnunni er jólavertíðin hafin.  Ótrúlegar annir og maður er eiginlega útbrunnin á milli tvö og þrjú um daginn.  Svo kemur maður heim, missir meðvitund á sófanum nema hvað yngri dóttirin kemur reglulega, hristir mann og segir: "Vakna, vakna, komdu!"  Í fyrra fékk ég magabólgu fyrir jólin af stressi og kaffiþambi.  Kaffidrykkjan er reyndar því sem næst horfin núna þegar ég nota ekki lengur mjólk svo kannski ætti maður bara að panta valíum hjá heimilislækninum og vera í rólyndisrússi í jólaösinni!Shocking   Nei, ætli það....

Ég ætlaði að fara að tjá mig um önnur og alvarlegri málefni hér núna en nenni því ekki í bili.  Set kannski upp gáfumannasvipinn  næst.  Haha, sénsinn!


Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband