Færsluflokkur: Bloggar

Sokkar og sokkar

Hér er ferðaundirbúningur í fullum gangi, þvottavél og þurrkari ganga og frúin næstum búin að fata sig upp fyrir Ítalíuferðina.  Fékk smábreik frá ferðakvíðanum með því að fá höfuðverk og lúrði svolítið þegar ég kom heim úr vinnunni.  Bæði höfuðverkur og annað löguðust talsvert við það.

Annars langaði mig fyrst og fremst núna að benda á síðu sem Gunni vinur minn og félagar hans hjá Gogogic gerðu fyrir Iceland Express.  Hún heitir Iceland socks og þið getið búið til ferðamyndir eftir eigin höfði.  Hrikalega fyndið og ég mæli með heimsókn þangað.

En best að halda áfram störfum og Ásdís:  Ég man eftir fundinum!

Ciao!


Heimapúkinn skrifar

Hér er frúin að kafna út ferðastressi og tilheyrandi kvíða.  Við förum á fimmtudagsmorguninn ef Guð og vörubílstjórar lofa.   Það verður fínt að fara en mér er um og ó að fara frá afkvæmum og ketti.  Eins og hefur kannski komið fram er ég heimapúki hinn mesti og vil lítið vera á flandri dags daglega.  Mér líður nefnilega best heima hjá mér og hjá fólkinu mínu.  Og alltaf þegar ferðalög eru í aðsigi er ég hvekkt í nokkra daga á undan.  Allt svo í góðu lagi þegar komið er á staðinn og svaka fínt þegar ég kem heim aftur.  Á fimmtudagskvöldið á ég að vera komin til Como, þar sem við gistum, og verð svo að spankúlera á sýningu í Mílanó á föstudag og fimmtudag.  Á sunnudaginn er ferðinni heitið til Flórens og á fimmtudaginn kem ég heim aftur.

Á föstudaginn komst öll fjölskyldan í uppnám og var á mörkunum að allir fjölskyldumeðlimir beittu handablaki í hugaræsingnum.Wink  Það gerðist nefnilega í fyrsta sinn að það var bankað upp á og lítil stelpa stóð fyrir utan og spurði hvort Hulda gæti komið út að leika.  Við áttum alls ekki von á þessu og eins og ég sagði fyrr, vorum ansi hvumsa.  En Hulda var sallaróleg og sagði bara kát: "Hún er komin!  Hún er komin inn!"  Þess ber að geta að gesturinn okkar er jafnaldra Huldu, er á sömu deild og hún og býr að auki hér á móti.  Þær fóru svo saman út og Valgerður fór með til að hafa auga með okkar manneskju.  Þetta gekk allt vel en svo ákváðu þær að koma inn og gesturinn okkar sagði: "Mig langar að sjá herbergið hennar Huldu".  Þær fóru að leika sér, nágrannarnir fengu tilkynningu hvar dóttirin var niðurkominn og þetta gekk allt svo ljómandi vel.  Okkar manneskja var í sjöunda himni með heimsóknina og við að sjálfsögðu líka.  Óvænt og skemmtilegt og við sjáum svo hvernig félagslífið gengur í vor og sumar.

Og ein Huldusaga í viðbót (erfitt að hætta).  Á fimmtudagskvöldið voru pylsur í matinn sem er svo sem ekki í frásögur færandi.  Nema við keyptum flösku af Heinz relish.  Huldu þótti þetta forvitnilegt og sagði að þetta væri græn tómatssósa.  Við spurðum hvort hún vildi smakka og hún samþykkti það.  En þegar var kreist úr flöskunni á diskinn leist henni engan veginn á áferðina og eyddi mörgum orðum í að lýsa því hvað þetta væri nú ógeðslegt, vont og ætti að henda þessu bjakki í ruslið.  Þegar fólk svo fór að borða þennan ófögnuð á pylsunni sinni hafði hún þungar áhyggjur og hvatti okkur ákaft til að drekka vatn hið fyrsta og skola þessum óþverra niður.  Svo kláruðu allir að borða og það var gengið frá eftir matinn og sósur og þess háttar sett í ísskápinn.  Daginn eftir er Siggi að henda einhverju í ruslið og þar liggur efst flaskan með grænu sósunni!  Daman hafði semsagt farið inn í eldhús um kvöldið og haft vit fyrir þessari snarrugluðu fjölskyldu!

heinz

Stúlkan talar

Hulda kíkti hér fyrr í kvöld út um gluggann og sá að það var farið að snjóa.  Þótti þetta mikil firn og sagði að það væri mikill snjór og "tveir snjór", magnið var svo mikið!  Svo dró hún systur sína út að öðrum glugga og yfirheyrði hana um hvar grasið væri nú eiginlega.  Undir þessum rosalega snjó!

Svo sagði hún okkur að hún hefði fengið 'badeggí' að borða í leikskólanum.  Þetta áttum við erfitt með að skilja og spurðum hana í þaula hvort hún hefði fengið fisk? Nei.  Kjöt? Nei.  Pasta? Nei!  En svo rann upp fyrir mér ljós um síðir og ég spurði hvort hún hefði fengið spaghetti.  Já, eitthvað kannaðist hún við það.

Annars þrælaði hún móður sinni út í parís sem ég teiknaði á svalirnar og stóð sjálf sig gríðarlega vel.  Svo er hún svo dugleg að spyrja "hvað er þetta" um allt mögulegt og ómögulegt.  Reyndar verður mannfólkið dálítið skrítið þegar hún bendir á það og spyr "hvað er þetta" í staðinn fyrir "hver er þetta" en oss er nákvæmlega sama þegar hún er svona dugleg að tala.  Við foreldrarnir svífum um á bleiku skýi þessa dagana og bensínverðið hefur engin áhrif á okkur!


Snyrtileg og fróðleiksfús dama

Hulda komst í maskarann minn og náði að snyrta sig þetta líka huggulega.  Hún náði meira að segja að setja á augnhárinn svo þetta lofar góðu!Smile

Svo átti hún gullmola dagsins þegar við vorum uppi á Víðivöllum í dag.  Hún spurði pabba sinn, í þremur aðskildum spurningum hvort það væru hákarlar í Elliðavatni eða hvalir eða selir!  Algjörlega rökrétt hugsun og eðlilegar spurningar.  En þrælfyndnar!Grin

Snyrtipían!

1.apríl!

Þetta var skemmtilegasta aprílgabbið sem ég sá í dag!  Munur að geta sent tölvupóst aftur í tímann!

Annars er ég sátt við lífið og tilveruna því skatturinn er búinn að fá framtalið sitt.  Ég setti inn það sem ég gat sjálf og Þórhildur skattagúru yfirfór málið og bjargaði því sem ég er of mikill sauður til að hafa vit á sjálf.  Takk aftur og enn Þórhildur.

Árlegt eftirlit hjá Tannsa í gær og svo smá heimsókn í heilbrigðisgeirann á morgun og þá fer aðeins að léttast brúnin á minni.  Ekki það að hún hafi verið tiltölulega þung en það hefur verið dálítið mikið að gera og muna eftir (og það gengur ekki einu sinni alltaf!) og svo er frúin að auki að undirbúa Ítalíuferðina.  Kannski verð ég últraafslöppuð þegar ég kem tilbaka.

Maður verður að lifa í voninni, ekki satt?


Að loknum páskum

Ég er mætt aftur til starfa eftir þá mestu afslöppunarpáska sem ég hef upplifað í nokkur ár.  Við náðum að horfa á nokkrar bíómyndir í heilu lagi, skruppum í göngutúra með og án stubbsins, borðuðum fáránlega góðan mat og gátum hvílt okkur.  Ég fer næstum því að þora að mæla blóðþrýstinginn!  Það var starfsdagur á leikskólanum hennar Huldu í gær svo ég fékk frí í vinnunni og var heima hjá dætrunum.  Við reyndar brugðum okkur upp í Hamraborg og sóttum bækur á pósthúsið og settumst svo inn á kaffihús.

Ég fékk frá Amazon ferðabækur um Mílanó og Flórens sem ætlunin er að hafa til handargagns í ferðum okkar.  Ég var líka að kaupa bók um einhverf börn og matarvandamál sem geta fylgt þeim.  Það getur nefnilega verið ansi gloppótt hvað ungfrúin borðar eða borðar ekki.  Hún borðar yfirleitt þokkalega á morgnana en úr leikskólanum koma af og til þær fréttir að lítill áhugi sé á matnum þar.  Svo er upp og ofan hvort hún borðar eitthvað af því sem er í boði á kvöldin.  Þannig að nú sest ég við lestur. 

Ég keypti líka bók um Asperger/einhverfu og snilligáfu.  Ekki af neinni óskhyggjuGrin heldur vegna þess að ég hafði lesið um hana á BBC og hafði áhuga á að kíkja á hana.  Ég er aðeins farin að kíkja í hana og finnst hún barasta nokkuð góð.  Annars ætti ég að fara að taka saman á einum stað allar bækur sem ég er búin að viða að mér um einhverfu og skyld málefni.  Þetta fer að verða efni í svona mini bókasafn innan bókaflóðsins sem ég sanka að mér.  Systir mín spurði mig einhvern tímann (veit ekki hvort hún var að grínast!) hvort ég væri áskrifandi að Amazon!  En þegar maður er að leita að ákveðnum bókum um ákveðin málefni er þetta náttúrlega eina leiðin.  Bókasafnið hefur ekki nema brot af því sem ég hef áhuga á og svokallaðar bókabúðir hér á landi eru með takmarkað úrval og okra gífurlega á því sem þær selja.  Maður er að sjá sömu bækurnar á fjórföldu verði í búðunum hér heima.  Verst að það er ekki hægt að kaupa í matinn á sama hátt.  En nú fer þetta að umbreytast í tuð um einokun og efnahagsástand og kannski efni í annan pistil.

Hafið það gott!


Hundur er undinn!

Þeir sem þekkja til Hunds ættu að gleðjast núna því hann hefur fengið langþráð páskabað.  Þeir sem ekki þekkja Hund persónulega eru hér með upplýstir um að Hundur er tuskudýr í eigu Huldu og mér skilst hann hafi verið verslaður fyrir einhverjum árum fyrir 99 krónur af Stefáni í Rúmfatalagernum.  En kostnaður segir ekki til um hversu dýrmætur hlutur er því Hundur hefur verið æðsta tuskudýr hér á heimilinu lengi.  Hundur hefur ekið um Vestfirði, gist í sumarbústöðum á Suðurlandi og farið í heimsókn norður í Eyjafjörð.  Það lá við að hann gleymdist þegar við fórum suður aftur en sem betur fór uppgötvaðist það áður en Akureyri var að baki.  Annars hefði líklega þurft að snúa við á Holtavörðuheiðinni svei mér þá.  En þar sem Hundur er ferðaglaður og mikið elskaður af eiganda sínum hefur hann safnað skítaskán sem fær fullorðna karlmenn til að tárast.  Huldu var boðið að Hundur yrði þveginn fyrir nokkrum mánuðum.  Hún tók ágætlega í það og kom með mér niður í þvottahús.  En þegar henni var sagt að hún ætti að setja hann inn í þvottavélina hikaði hún aðeins og sagði svo: "Nei.  Ekki Hundur."  Og þar við sat.  Núna er frökenin þó stödd í Njarðvík og við vorum að nota tækifærið að taka til í herberginu hennar á meðan.  Fundum Hund, gráan af skít og skutluðum honum í þvottavélina.  Þar var hann þveginn og undinn og kom þetta líka skínandi hreinn úr vélinni.  Hvítu blettirnir eru hvítir, brúnu blettirnir brúnir og ég er ekki frá því að það hafi hýrnað örlítið yfir Hundi.  Eigandinn fær svo að sjá árangurinn þegar hún kemur heim í kvöld og þá skýrt frá því hvernig hann varð svona hreinn og fínn.  Við pukrumst ekki á þessum bæ (mikið).

Skírdagur

Loksins komið langþráð páskafrí.  Við eiginmaðurinn vorum að koma úr innkaupaferð í Smáralind og búin að kaupa í flestallar máltíðir páskanna.  Gerðum barasta ágætis kaup held ég.  Svo þegar heim var komið var drifið í að útbúa Huldu með nesti og nýja skó (aukaföt, náttföt og bangsa) þar sem Hulda Kata var komin að sækja hana til að fara í Njarðvíkurheimsókn.  Okkar manneskja var aldeilis til í að fara og kvaddi mig margoft í þeirri von að það myndi flýta brottför!  En ósköp er nú rólegt þegar stúlkan er farin. 

Ég er verulega þreytt eftir vikuna og dottaði í sófanum þegar ég kom heim úr vinnunni í gær.  Svo var erfitt að vakna í morgun.  Svei mér þá ég ætla að sofa út í fyrramálið.  Hér heima verður svo dálítil þvottavinna eins og venjulega (er enginn endi á þessu helv#$%?).   Eldri dóttirin er að sverma fyrir Smáralindarferð en ég verð að viðurkenna að mig langar ekki baun út í kuldann og rokið.

Eftir mánuð, ef allt gengur upp, verður frúin svo stödd á Ítalíu, takk fyrir.  Þar verða nokkrir dagar í Mílanó að skoða hönnunar og húsgagnasýningu, nokkuð sem telst til vinnu og verðum við eiginmaðurinn þar ásamt Mumma að meðtaka strauma og stefnur.  Eigum líka bókaðar fimmtán mínútur til að horfa á síðustu kvöldmáltíðina hans Lenna (a.k.a. Leonardo) Svo skiljast leiðir, Mummi fer til Prag og við förum suður til Flórens.  Þar verðum við í nokkra daga áður en heim er haldið á ný.  Það er skylda að skoða allt það sem var messað yfir okkur í listasögutímum og ég þarf að finna mér góða skó til að ganga í fyrir allt labbið.  Eina sem mér leiðist dálítið í þessu er að við virðumst ófær um að fara einfalda ferð til útlanda.  Alltaf skal maður vera að þvælast í allra handa millilendingum, skiptingum, lestarstússi og þess háttar.  Aldrei neitt einfalt.  En maður ætti svo sem að vera orðinn vanur svona stússi.  Ég hef aldrei komið til Ítalíu og hlakka talsvert til.  Ekki síst að smakka matinn þeirra (maður verður að viðhalda mjúku línunum, skiljið þið!).  Eins og frænkur mínar lýsa þessu, þá er maturinn í Frakklandi góður, ójá sammála því, en betri á Ítalíu.  Og kaffi.  Gott kaffi er eitthvað sem vantar í kerfið.  Hulda og Valgerður fá svo góðar manneskjur í hlutverk Mary Poppins á meðan við þvælumst um suður Evrópu.

Hátíðamaturinn hér á bæ verður matreiddur með aðstoð frú Nigellu.  Á föstudaginn langa verður búin til fiskibaka með laxi, ýsu, lúðu og rækjum.  Kryddað með saffrani og fleiru góðu.  Á páskadag skal eldað lambalæri að hætti gyðinga.  Ekki seinna vænna að virða gyðingaforföðurinn ekki satt?  Í þessum tveimur máltíðum gefst tækifæri til að nota eitthvað af saffraninu sem bræðurnir bera með sér úr ferðum sínum um heiminn.  Við eigum til dæmis lítið gullslegið hylki sem inniheldur Íranskt saffran sem ku víst vera það besta í heimi (að sögn Írana). Einnig eigum við vænan poka af möluðu saffrani sem Bjössi keypti í Cairo.  Í kvöld er svo eldaður svo oggulítill hamborgarhryggur sem fékkst í Hagkaup fyrir smánarverð.  Aðra daga reikna ég með heldur léttara fæði til að rétta jafnvægið aðeins af.  En nú ætla ég víst að strauja svolítið og brjóta svolítið saman og þvo dálítið og þurrka oggulítið og með smáheppni get ég tínt ponsulítið til í vinnuherberginu. 

Vona að þið eigið góða páska! Á örugglega eftir að skrifa meira en þá fáið þið bara fleiri páskaóskir!


Komin aftur...

Bara að láta vita að ég er hér ennþá.  Ég er ekki beinlínis búin að vera í banastuði undanfarna viku en er öll að hjarna við núna.  Eiginmaðurinn tók sér líka fáheyrt frí á laugardegi til að aðstoða á heimilinu því húsfrúin var ekki alveg í stakk búin.  Svo nú eru blómin búin að fá að drekka, búið að þrífa meira og við tæmdum fataskápa af óþarfa og röðuðum því litla sem eftir var.  Rauði Krossinn fékk helling.  Að vísu heyktist ég á að flokka smábarnafötin til fullnustu og varð bara meyr svo það var látið duga að taka þau úr skápnum hennar Huldu og ég mun klára það verk þegar ég er orðin hraustari.  En í vinnunni var smá smit frá bilanaflensunni hér heima því hljóðtölvan mín varð lasin, móðurborðið lést semsagt.  Þegar ég fór á föstudaginn var þó búið að fá nýtt og verið var að blása lífi í sjúklinginn.  Bræðurnir hafa líka lent í tækniklandri því ADSLið hjá þeim hefur verið í klúðri og þeir koma reglulega og fá að brúka tölvu og tengingu.

Við skruppum svo í Byko í dag í Kauptúni og ráfuðum um eins og týndir sauðir.  Ég hafði þó af að kaupa tappa í eldhúsvaskinn, ljósaperur (já, fleiri!) og rúmfatnað handa eldri dótturinni.  Hún á víst afmæli á morgun stúlkukindin, sweet sixteen og allt það.  Myndarleg ung kona og mér finnst ótrúlega stutt síðan hún náði ekki með nefið upp á stofuborðið!

Farin að finna mér eitthvað gott að hlusta á.  Hafið það gott.


Á innhverfunni

Laugardagur.  Allar vélar fullar og eru í óðaönn að þvo og þurrka.  Við Hulda búnar að skreppa í hádegismat til tengdó og borða þar heimavistarkássu.  Snjórinn að detta í blautum hlössum af þakinu og sólin farin að góna inn til okkar.  Kominn tími á að panta sólverjandi gluggatjöld hér á suðvesturhliðina því núna verður ekki líft hér á efri hæðinni fyrr en í október! 

Við fórum í leikhús í gær að sjá Kommúnuna ásamt Göflurunum.  Ágætis útfærsla en vantað samt dálítið kjarna og kraft í þetta miðað við myndina.  Og var gert hálffarsakennt á köflum sem mér fannst óþarfi.  En svo er náttúrlega spurning hvernig þetta gengur í þjóðir sem hafa aldrei séð myndina.

Ég er reyndar á einhverju innrænu trippi þessa dagana, nokkuð sem gerist af og til, og vil helst ekki vera mikið í margmenni.  Við fórum að sækja leikhúsmiðana á fimmtudagskvöldið og fórum í framhaldi af því í Hagkaup í Kringlunni til að versla.  Allt of mikið af fólki, of mikil nálægð, of mikil lykt og ég var afskaplega fegin þegar ég slapp út.  Sömuleiðis var erfitt að vera í mannþrönginni í leikhúsinu af sömu ástæðum.  Já, ég veit að einhverfa er erfðatengd og líklega á ég minn part í þessu.  En ég skil svo sannarlega hana Huldu þegar hún fer að láta illa í margmenni.  Það hefur reyndar minnkað um örugglega níutíu prósent frá því sem var fyrir svona einu og hálfu ári síðan.  Þá var helst ekki hægt að taka hana með í búð.  Maður gleymir nefnilega undrafljótt hjöllunum sem maður er kominn yfir og kannski er það bara ágætt.  Það sem fylgir svo þessum pirringi í frúnni er að það verður óhóflega ertandi og leiðinlegt að hlusta og horfa á fjölmiðla, sérstaklega auglýsingar.

Þannig að nú er verkefnið að bauka bara eitthvað rólegt á heimaslóðum, horfa bara á það sem maður velur sjálfur, kannski lúsast út í göngutúr og ná aftur andanum.  Í kvöld ætlum við að elda fiðurfénað og horfa svo á Stardust sem við vorum að kaupa.  Hafið það gott!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband