Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Gleðilegt ár!

Óska ykkur öllum, elsku vinir og ættingjar, gleðilegs árs, farsældar, fengsældar etc. og þakka ykkur ómetanlegan stuðning á árinu sem er að líða.

Vantar bara að segja "hugheilar"!

Hér kemur það:  Hugheilar áramótaóskir til ykkar allra. 

Gangið hægt um gleðinnar dyr en samt ekki of hægt!

 

 


Þriðji í aðventu

Bara að rapportera að hér sitjum við Guðbrandur Erlingur (a.ka. Lingur, Brandur, Eldibrandur, Miltisbrandur (ef hann gerir eitthvað af sér, sem er fátítt)), ein heima, og erum að pakka inn jólagjöfum.  Hann er þó mest í að skoða í pokana og elta afklippur af jólapappír og er svona frekar slakur í innpökkuninni.  En við höfum það bara bærilega jólalegt takk fyrir!  Við hlustum á jólamúsík og erum með oggupons rautt í glasi, þó ekki kisi, og höfum það fínt í einverunni.  Hafið það gott í kvöld!


Þvottahjal...

Það eru blendnar og undursamlegar tilfinningar þegar maður er að þrífa filterinn á þurrkaranum sínum og finnur miða þar sem stendur á "Hand Wash Only"!  Fyrir það fyrsta er augljóst að viðkomandi hlutur hefur farið í þvottavélina í fyrsta lagi og í þurrkarann að því loknu og á sér greinilega ekki viðreisnar von úr þessu.  Verst er þó að ég hef ekki hugmynd um af hvaða plaggi þetta er.

Leiðinlegasta heimilsstarfið?  Brjóta saman #$%#$%# þvott.


Einkennilegur þankagangur

Sáuð þið fréttina um að íslenska ríkið ætli að leggja fram 220 milljónir til skólamáltíða í Afríku næstu tvö árin?  Og sáuð þið líka fréttina um fátækt á Íslandi og um fólkið sem hefur ekki efni á að senda börnin sín með nesti í skólann?  Fátæk börn á Íslandi eru víst um 5.000 stk. 

Einhvern veginn finnst mér að stjórnvöld ættu að líta sér nær og bjóða íslenskum börnum upp á máltíðir áður en hafist er handa við svona verkefni.  Við erum meira að segja það efnað þjóðfélag að við gætum gert bæði, boðið öllum börnum upp á næringu í skólanum OG styrkt skólabörn í Afríku.  Er þetta ekki tilvalið til að minnka ójöfnuð í þjóðfélaginu og búa til betra fólk?


Neyðarhemillinn brúkaður.

Augun mín rauð

Frúin neyddist til að taka hlé á störfum sínum í dag og þurfti talsvert til.  Ég er nefnilega seinþreytt til vandræða hvað veikindi varðar og fer frekar í vinnuna en að hanga heima í sófanum.  Að sjálfsögðu hlýði ég ef pestin er meiriháttar og í dag lít ég út eins og ég hafi verið lamin í bæði augun.  Fékk nefnilega þessa hrottalegu augnsýkingu og er búin að vera að bera fúkkalyf (sem gera mig hálfblinda) í augun í sólarhring.  Það skal viðurkennast að ég er búin að ganga dálítið fram af mér í haust enda mikið að gera á stóru heimili og vinnustað.  Stundum barasta tekur líkaminn málin í sínar hendur og segir manni að stoppa oggulitla stund.  Point taken!

Valgerður var ógurlega góð við móður sína, fór út í búð og keypti skonsur og góðgæti, kom til baka og lagði á borð, kveikti á kerti og kallaða á mig að borða.  Yndisleg stúlka!

Guðrún Björk (a.k.a. Mary Poppins) á afmæli í dag.  Æðislega geggæðislega og magnaðar afmælisóskir berast henni héðan úr Kópavoginum.


Annar í aðventu!

Hér blogga ég aftur sama daginn en ég bara varð að stæra mig af því að hafa búið til aðventukrans.  Já, ég byrjaði víst á honum fyrir viku síðan en kláraði ekki fyrr en nú.  En þetta er allt í lagi því við Helga systir mín erum búnar að sammælast um að svissa yfir í Georg Jensen við fyrsta tækifæri.  Í það minnsta þangað til maður hefur meiri tíma til að föndra við svona hluti.  Eða ekki.

By the by, þá sést líka nýja borðstofuborðið sem við Siggi pússuðum upp og olíubárum af miklum þrótti.  Fallegt ekki satt?  Og passar við Jacobsen....

 

 

DSCN2485


Jólapælingar

Okkur að óvörum varð dagurinn í gær hinn jólalegasti þrátt fyrir að menn hafi ekki verið beint stemmdir þannig til að byrja með.

Við skruppum til Lilju og Braga í jóla "brunch", mættum að vísu seint því kallurinn var svo upptekinn í vinnunni.  Það var fín heimsókn og Hulda var nú á því að við ættum ekkert að fara því það var svo mikið af skemmtilegu dóti þarna.

Þegar heim var komið ákvað ég að bjarga verðmætum frá glötun en sú aðgerð fólst í því að rúlla tveimur jólamyndum sem teknar voru upp á VHS fyrir 11 árum, inn á harða diskinn á DVD græjunni.  Það er skemmst frá því að segja að við Valgerður vorum límdar yfir sjónvarpinu í nokkra tíma.  Fyrst horfðum við á "It's a wonderful life" og svo á "Muppet Christmas Carol".  Á meðan kom stormur, snjófjúk og reyndar seinna meir, rigning úti og þetta var bara alveg æðislegt.Eftir matinn límdi familían sig aftur í sófana og við borðuðum eplaböku og horfðum á Elf.  Fínt kvöld.

Þess ber að geta að önnur störf fóru líka fram á heimilinu þrátt fyrir sjónvarpsgláp þótt hreingerningastormurinn hafi fengið að bíða aðeins.

En að öðrum málum, þó tengdum.  Ég barasta næ ekki þessu svarta jólaskrauti sem er vaðandi uppi um allt núna.  Finnst það kuldalegt og ekki baun jólalegt.  Og þeir sem mig þekkja, vita að ég og svarti liturinn höfum átt mikla og góða samleið í gegnum árin.  Man reyndar eftir því að ég bjó til aðventukrans með svörtum og dumbrauðum borðum svona í byrjun sambúðar þegar gotharinn var meira ráðandi í mér.  Mömmu þótti þetta nú síðasta sort en ég held samt að kransinn hafi verið ögn jólalegri en svarta dótið sem er núna í gangi.  Kannski var ég barasta 17 árum á undan minni samtíð?  Svo finnst mér líka merkilegt að sjá jólaskraut úr burstuðu áli og stáli, svona minimalískt.  Mér finnst bara svona "smekkleg" og "stílhrein" jól vera þverstæða.  Það var eiginlega útséð með það um leið og vitringarnir mættu með sínar jólagjafir á svæðið, gull, reykelsi og myrru.  Ekki beint minimalískt, eða hvað?

 


Álitsgjafar hinna fullkomnu jóla.

Ég bendi einlægum aðdáendum síðunnar að ég þjáist ekki af bloggleti heldur eru núna að koma jól og ég vinn við þjónustu og verslunarstörf að þjóna stressuðum Íslendingum og kúnnum sem fá kikk út úr því að hella sér yfir mann.  Merkilegt, en ég man ekki eftir því eftir að hafa verið stressuð fyrir jólin fyrr en ég fór að vinna á núverandi vinnustað.  Það er semsagt annað fólk sem leggur það til.  En þetta þýðir að ég er að kafna úr þreytu og stressi þegar ég kem heim og kveiki ekki mikið á tölvunni.  Restin af lífinu stoppar nefnilega ekki á meðan Íslendingar undirbúa jólin, maður þarf líka að sinna börnunum, þvottinum, tiltektum, mat og fleira þannig að ákveðnir hlutir barasta sitja á hakanum.  Og svo má ekki gleyma að það er fötluð lítil stelpa á heimilinu, sem mætir núna í ýmsa aukatíma og foreldrarnir með og að auki þarf að hafa vakandi auga með henni á öllum stundum.  Ég man að ég fékk netta athugasemd í fyrra um skort á jólakortum...sorrí, það eru svona hlutir sem fá að fjúka þegar mikið er að gera.  Snemmtæk íhlutun hefur forgang á pappaspjöld með jólasveinum.

Siggi heyrði reyndar í konu í útvarpinu um daginn sem lýsti skoðun sinni á því þegar fjölmiðlar og jólapúristar eru að siða fólk til í desember.  Menn eiga ekki að vera stressaðir, ekki að gera of mikið, ekki hlaupa í búðum, endilega sækja jólatónleika, kveikja á kertum, gera kökur, handgerð jólakort og fleira.  Sama kona skildi nefnilega ekkert í því af hverju það þætti þá svona slæmt að byrja að útbúa jólin snemma!  Prógrammið er orðið jafnstrangt og hjá ömmum okkar sem gerðu jólahreingerningu, bökuðu, saumuðu jólafötin og gerðu allt sjálfar.  En núna er þetta í nafni þess að "slappa af" og "hafa það huggulegt".  En það gleymist í öllu orðagjálfrinu að þetta bætist ofan á fulla vinnu og oft nám hjá fólki.  Og allt á að gera á þessum þremur vikum sem eru frá byrjun desember/aðventu.  Það eru yfirleitt konur sem setja sér svona vonlausa dagskrá.  Og svo þegar menn koksa á hinum fullkomnu jólum, hlýtur ósigurinn að vera hrikalegur.  Ekki gott fyrir sálarlífið. 

Ég hef enga lausn á þessu máli, bara það að anda með nefinu, redda því sem hægt er að redda og eiga smá jólabjór í kælinum þegar maður kemur heim með (jóla)öndina í hálsinum.  Og feisa það að maður getur ekki gert "allt", hvað sem það á nú eiginlega að vera.  Ég hins vegar kveiki á kertum árið um kring og breyti því ekkert sérstaklega í desember.  Umfram allt, loka eyrunum þegar álitsgjafar hinna fullkomnu jóla fara að jarma í fjölmiðlunum.  Og setja dagblöðin sem birta svona þvætting undir kattasandinn í kattadallinum (þið sem eigið ketti), það er rétti staðurinn fyrir svona hluti.  En hins vegar ætla ég að lumma upp fullt af jólaskrauti og ljósum og það verður til þess að gleðja börnin mín.  Það finnst mér vera forgangsatriði.  Það verður ábyggilega svona Suðurnesjastemning á húsinu en hvað með það...

En....ég vona að þið eigið góða aðventu með hæfilega miklu að gera og verið góð við fólk í verslunar og þjónustustörfum.  Annars er mér og VR að mæta.  (Við mætum með heftara, teip, skiptimynt í rúllum og gamla reikninga til að hrella jóladóna!)

P.S.  Fór með strákunum úr vinnunni að spila pool í gærkvöldi.  Fyrsta sinn sem ég munda svoleiðis kjuða á ævinni og það var feiknalega gaman.  Mun leitast við að endurtaka það sem fyrst.  Hver vill spila? 

 


Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband