Enda Norðmenn að mæta hér með her og tilheyrandi innan tíðar. Það er minnisvarði hér í Kópavoginum um síðustu afrek þeirra félaga (1262)!
Þess utan virtist vera ágætt hljóð í dömunni þegar ég talaði við hana í gær nema hvað hún var að vonum þreytt eftir langa ferð og lítinn svefn.
Hulda Ólafía fer í dag í sveitaferð í Biskupstungur með Njarðvíkingum svo undirrituð verður ALEIN (fyrir utan köttinn) að taka til og hringla um í húsinu. En ég ætla að sjá hvort mér gangi ekki eitthvað að sinna mínum verkum hér heima fyrir án þess að heyra reglulega sönginn: "Mamma, ég vil pissa!" Merkilegt hvað hún Valgerður þarf ennþá hjálp við þetta! Bara að grínast gott fólk!
Gleðilegan Upsteppers Day! (Ja vi elsker dette landet)
Bloggar | 17.5.2007 | 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég ætla að að leyfa mér að setja stórt spurningamerki við myndina Hear the Silence sem er í kvöld á RÚV.
Hún fjallar um þær hugmyndir að bólusetningar með MMR bóluefninu (samsett bóluefni v/ mislinga, hettusóttar og rauðra hunda) valdi einhverfu.
Þessi hugmynd kom fram í kjölfar einnar rannsóknar sem seinna var talin gölluð og allmargar rannsóknir hafa verið gerðar í kjölfarið sem hafa ekki fundin nein tengsl á milli bólusetninga og einhverfu.
Mér sýnist að efnið sé sett fram á vilhallan hátt svo sem má sjá í dómi Guardian. Ég ætla samt að renna myndinni inn á harða diskinn og líta á hana seinna.
Ég veit það bara að dóttir mín 'versnaði' ekki eftir bólusetningar. Hulda er búin að vera það sem hún er frá fæðingu. Hún horfði alltaf miklu meira á fólk heldur en hluti og hlustaði frekar á tónlist frekar en tal. Fantafínn krakki, hvað sem hún kallast á fagmáli.
En það er örugglega freistandi að finna blóraböggul þegar unginn manns reynist vera öðruvísi en önnur börn. Það er óhemju sárt og erfitt að þurfa að horfast í augu við slík sannindi. Og bólusetningin er gerð á svipuðum aldri og einhverfa fer að verða greinanleg. En einhverfa var til löngu áður en bólusetningar urðu almennar. Einhverfa finnst líka þar sem börn eru ekki bólusett. En síðustu árin hafa sjúkdómarnir sem bólusett er gegn, látið á sér kræla í þeim samfélögum þar sem bólusetningartíðnin hefur lækkað. Í fyrra minnir mig að breskur drengur hafi dáið af völdum fylgikvilla mislinga.
En kannski liggur vandamálið frekar í því að nútímasamfélag gerir miklar kröfur um að allt sé fullkomið. Börnin fullkomin, bíllinn fullkominn, húsið fullkomið,lífið fullkomið (Helst ekki að deyja. Það er bæði ósmekklegt og vandræðalegt!) Við skiljum sennilega ekki enn að varíantar finnast í nátturunni, líka hjá okkur. Við gleymum hreinlega að gera ráð fyrir því að lífið sé óútreiknanlegt.
Og við værum ekki hér í dag nema vegna þess að lífverurnar sem voru á undan okkur tóku stökkbreytingum og voru ekki allar eins.
Og ef einhverfurófið væri þurrkað út væri vafalaust hægt að leggja niður einhverjar deildir í Háskólanum.
Annars.... það líður að kosningum og ég mun fagna þegar kosningapósturinn hættir að berast. En ég ætla að fylgjast með kosningasjónvarpinu á morgun, svona á eftir Júróvisjón. Vona að frambjóðendur verði sáttir við sinn árangur og landslýður sömuleiðis.
Bloggar | 11.5.2007 | 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Valgerður er komin með síðu hér á Moggablogginu. Tengill hér til vinstri hefur verið uppfærður en endilega kíkja á stúlkuna.
Svo hvet ég þá sem ekki gera það nú þegar að kíkja á síðuna hennar Auðar hvar hún segir frá ævintýrum sínum á Sri Lanka og í Malaysíu. Sérdeilis góður penni hún systir mín.
Svo finnst mér að Garún megi byrja að blogga aftur, tala nú ekki um að segja frá yfirvofandi framkvæmdum í Vesturbænum.
Ég sjálf er í hæfilegu stuði, mikið að gera og margt að hugsa um þessa dagana. Valgerður að fara út í næstu viku, fer til Bodö og það virðist ekki vera mikið vorveður þar, frekar en hér.
Lifið heil.
Bloggar | 9.5.2007 | 13:26 (breytt kl. 13:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég er búin að liggja í myndaglápi frá því á föstudag. Þá settist fjölskyldan niður og horfði loksins á Little Miss Sunshine. Frábær mynd - alveg frábær. Svo sá ég Elling í sjónvarpinu, var búin að sjá hana áður, en hún er líka tær snilld. Entist meira að segja yfir henni til enda. Gærdagurinn var þó ekki nýttur í sjónvarpsgláp, við tókum til og svo skruppum við Siggi í grill til Gaflaranna. Vaknaði svo klukkan níu í morgun, ekkert hægt að kúra því krullhausinn rauk snemma á fætur. Þá var náttúrlega ekki annað hægt en að horfa á The Devil Wears Prada. Svo var Cats and Dogs mallandi í bakgrunninum á meðan undirrituð lá í sófanum og las. Þetta eru meiriháttar afrek fyrir manneskju sem nær oftast ekki að horfa á heila mynd í einu. Það eru engin stórkostleg verk á dagskrá það sem eftir lifir dags, nema að elda lax með lime sósu, mat sem mig er búið að dreyma um alla vikuna. Helga systir sagði mér frá þessari sósu, við höfum gert hana einu sinni og hún er frábær. Þið finnið hana hérna. Nú er ég búin að hugsa of mikið um mat, orðið órótt og verð að fara í kalda sturtu til að jafna mig.
Bloggar | 29.4.2007 | 16:14 (breytt kl. 16:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég notaði síðasta sumarleyfisdaginn minn núna á föstudaginn þar sem leikskólinn hennar Huldu var lokaður. En það hefur ekki verið neitt sérstaklega mikið um frí þar sem tíminn hefur verið notaður í allra handa tiltekt, tilfæringar, þvott og fleira gaman. Gerði meira að segja svona sjaldgæfa hluti eins og að þrífa örbylgjuofninn, kaffivélina og síðast en ekki síst, hreinsa út af hörðu diskunum á gömlu tölvunni. Hugmyndin er sú að hún nýtist í netbrúk og leiki og mín fái að sinna alvarlegri verkefnum (eins og Sims 2 og þ.h. - grín). En þetta er búið að vera þrælskemmtilegt og alltaf gaman að finna fullt af dóti sem má henda. Ég er sko ekki hætt!
Hulda fór í Njarðvík í gær og fékk huggulegt bleikt hjól og hjálm hjá Helgu og Stefáni. Þar sem varla er þúfa til að detta um þarna á Suðurnesjunum er náttúrlega tilvalið að hún hjóli þar, annað en hér uppi á heiðum þar sem hægt er að detta upp og niður um allar brekkur. Það stendur upp á Huldu Katrínu og Guðrúnu að blogga um hvernig hjólreiðatúrarnir gengu.
En tíminn nýttist vel á meðan Hulda var í burtu og við enduðum sprettinn á að elda sítrónukjúkling sem var gríðarlega góður. Stelpurnar komu svo með Hulduna steinsofandi og henni var plantað í rúmið hvar hún lúrði hálfan sólarhring. Systurnar fengu svo lögg (eða laggir!) af rauðvíni og voru í banastuði og gaman að hitta þær.
Núna er Hulda komin í pils og fín föt og er allra stúlkna fínust. Til að styðja við pjattrófuna erum við að fara að setja upp fínan spegil úr IKEA inni hjá henni sem er með hólfum fyrir hárbursta, og fleira fallegt svo unga konan geti dáðst að sér. Við eigum í talsverðum vanda við að klippa táneglurnar hennar, henni finnst þetta erfitt og æpir að það sé verið að skemma hana. Þetta er þriggja manna verk og við erum öll með verki í handleggjum eftir aðgerðina því barnið er nautsterkt. Við höfum reynt að gera þetta þegar hún er sofandi en barnið virðist hafa ofurskynjun í fótunum og sparkar og jafnvel vaknar þegar þetta er reynt, sama hversu fast hún virðist sofa. Allar ábendingar eru vel þegnar, ég hins vegar ætla að fara að leita að eða útbúa svona félagshæfnisögu um tánaglaklippingar í þeirri von að það hjálpi.
Bloggar | 22.4.2007 | 14:24 (breytt kl. 14:26) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þetta finnst mér afskaplega gott mál og frábært að húsið fái að vera áfram í miðbænum. Mér hefur alltaf þótt þetta skemmtilegt hús, sérstaklega þar sem maður fékk að skottast þarna um sem krakki þegar fjölskyldan var að skipta sér af rekstrinum á Zimsen.
Og ég var alltaf handviss um að það væru draugar uppi á lofti!
Zimsen-húsið fari í Grófina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 19.4.2007 | 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hluti af barnæskunni, unglingsárunum og fullorðinsárunum hvarf í dag þegar brann í miðbænum. Mikil eftirsjá af þessum húsum. Í þessum húsum eignaðist ég "skvísuföt" 13 ára, keypti ófáar plötur, borðaði í fyrsta sinn á ævinni nautasteik "bleu", verslaði ditten og datten í litlu bókabúðinni sem var þarna og fyrir utan að heimsækja stöku sinnum þá skemmtistaði sem voru þarna. Reyndar hefði verið kominn tími á að gera þessi hús myndarlega upp, svona á svipaðan hátt og hefur verið gert í Aðalstræti en við vonum bara að fólk hafi söguna í heiðri þegar endurbyggingin hefst.
Í öðrum fréttum þá eignaðist stórfjölskyldan bíl í dag. Samsorta hinum gamla en nýrri árgerð, kraftmeiri og plássmeiri. Fyrir þá sem ekki vita, þá gerðist það í byrjun mánaðar að klesst var aftan á okkur þar sem við vorum kyrrstæð á ljósum, okkar bíll kastaðist á næsta bíl fyrir framan og við urðum áleggið í samloku tveggja jeppa. Gamli bíllinn var talinn of laskaður og aldurhniginn til að það borgaði sig að gera við hann svo hann var greiddur út. Hvorug dætranna var með og við getum verið þakklát fyrir það en við sjálf fengum hinn hefðbundna hálshnykk og eymsli eftir öryggisbelti. En nýji bíllinn er snotur, svo mikið er víst.
Svo skrapp Valgerður í Debenhams og keypti sér flík. Kvaðst hafa gert kostakaup því viðkomandi plagg var á niðursettu verði, átti að kosta 4.690 kr. en fékkst á 1.300,- Þegar ég fór að skoða miðana sá ég að þetta var merkt sem skemmd vara - á ensku - og stóð að saumspretta væri á flíkinni og ætti að gefa 10% afslátt - á ensku. Saumsprettan var þarna, dóttirin lagaði hana, en mergurinn málsins er sá að þessi vara var aldrei í almennri sölu í búðinni. Hún er flutt inn sem útsöluvara og seld sem slík. Þannig að íslenska "upprunalega" verðmerkingin hefur aldrei átt við rök að styðjast. Ég hafði nefnileg nokkrum sinnum velt fyrir mér að maður sá stundum kynlegar flíkur í búðinni sem ég hafði ekki séð í sölu fyrir útsölu. Einhvern veginn hélt ég að nóg væri til af útsöludóti hérna án þess að það væri flutt sérstaklega inn?
Ég man eftir að í "Men in Black" þá æpir einn ofurákafur drengur: "We're the best of the best of the best. SIR!" Við getum þá sagt: "We get the rest of the rest of the rest. SIR!"
Bloggar | 18.4.2007 | 20:28 (breytt kl. 20:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggar | 31.3.2007 | 18:33 (breytt kl. 18:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Maður lifandi hvað þetta var stressandi mánuður. Eins og Omron mælirinn minn getur vitnað um (hann er nebblega með minni) er blóðþrýstingurinn í hærri kantinum þessa dagana. Ég kenni um langvarandi svefnleysi, stressi og 111 meðferð á Þórdísum. En mars er að verða búinn og páskavikan að byrja. Skattskýrslan var kláruð í gær og Þórhildur þurfti ekki að gera sér sérferð í Kópavoginn til að hjálpa mér heldur var með svona fjaraðstoð í síma og tölvu. Takk fyrir það!
Sumir kúnnanna í vinnunni haga sér merkilegt nokk eins og jólin séu að koma og þurfa afskaplega mikið á hlutunum sínum að halda fyrir páska og því miður þá viðra sumir líka fýluskapið sem ég hélt að væri almennt bara bundið við desember. En kosturinn við havaríið sem hefur gengið yfir hérna að maður tekur ekkert nærri sér ergelsi annarra, gerir það sem maður getur og ef það er ekki nóg þá er það bara þeirra vandamál. Eins er ég tiltölulega ónæm fyrir stjórnmála og álversumræðum og held ég spenni mig ekki upp yfir svoleiðis heldur. Sýnist vera alveg nóg af fólki til að sjá um þá hlið mála án þess að ég fari að pressa upp þrýstinginn fyrir slíkt hjal. Ég er búin að ákveða hvað ég kýs í vor, byggi það á fjögurra ára reynslu og svo ágætis minni fyrir stjórnmálasögunni en ekki á kosningaauglýsingum.
Ég held að það sé kominn tími á að gera eitthvað skemmtilegt. Hvað haldið þið?
Bloggar | 30.3.2007 | 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Við fórum að versla í Nóatúni um daginn og tókum yngri dótturina með. Hún útvegaði sér litla kerru og rölti með hana um búðina og hugðist gera magninnkaup á kaffi og sjampói. Pabbi hennar var nú á því að það myndi ekki ganga því Hulda ætti enga peninga. Okkar manneskja svaraði að bragði (og með nokkrum þjósti) "Þeir vilja ekki peninga!"
Annars er allt bærilegt að frétta héðan. Valgerður er hálfaum ennþá og fékk kvef svona í kaupbæti við annað. Okkur býðst að fara í svona foreldrahóp fyrir börn eins og Huldu og mig vantar aðstoð fyrir Valgerði á mánudagskvöldið á meðan við erum í burtu. Einhverjir umsækjendur?
Bloggar | 25.3.2007 | 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Febrúar 2009
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
Jan. 2025
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Ýmislegt áhugavert
- Auður AkureyrarAuður
- Birta og Helgi Danmerkurgengið
- Guðrún Björk Garún, Garún
- Hulda Katrín Eldri krullhausinn
- Valgerður Dóttirin
- Guðrún Mary Seltjarnarnesdaman
- Björninn Bjössi bekkjarbróðir
- Hörður Myndasmiður Myndirnar hans Harðar
- Vinnan Mitt daglega starf
- Drawn Krotarablogg
- Cartoon Brew Hreyfimyndablogg
- Autism Diva Donna Williams
- IllustrationMundo Krotarar alheimsins