Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Föstudagsflýtimaturinn

Á föstudögum hér á bæ eru yfirleitt allir uppgefnir og langar síst að bauka við eldamennsku.  Einu sinni var þessu reddað með pizzu og þess háttar skyndimat en allir hér á heimilinu eru búnir að fá nóg af slíku sulli, tala nú ekki um hvað það er lítið hollt fyrir líkama og sál.

En í kvöld borðuðum við eftirfarandi samlokur:....smella á tengilinn hér og skoða.

Við vorum í öngviti af því þetta var svo gott og ekki spillti fyrir að ég hafði keypt lítil baguette brauð (spelt/súrdeigs) og burtséð frá trefjum og hollustu þá voru brauðin sjálf afar góð.  Við gefum þessum rétt alla þumla (og þófa fyrir hönd kattarins) upp.


Að loknu afmæli

Jæja nú er ca. vika af hátíðahöldum um garð gengin og lauk með litlu boði heima hjá mér á laugardaginn fyrir nánustu fjölskyldur okkar og þeim örfáu vinum sem við erum ekki búin að hrekja af klakanum!Wink

Ég var að hugleiða að hafa svona stórveislu með glans eins og Hafnfirðingarnir hafa snarað tvisvar fram úr erminni en mér óx það svo í augum að ég ákvað að skala þetta talsvert niður.  Einnig var stórt atriði að undirbúningur og framkvæmd væri afslöppuð því ég ætlaði helst ekki að undirbúa og upplifa fertugsafmælið mitt í stresskasti.  Þannig að fram voru bornar samlokur (pan bagna), litlar kjötbollur að hætti Huldu Kötu og rækjuskot (litli bróðir rækjukokkteils, þið vitið eins og í seventies).  Bjór, léttvín, vatn og gosdrykkir borið með.  Ég er afar ánægð með niðurstöðuna og þakka gestum mínum kærlega fyrir samveruna.Wizard

Annars erum við Hulda búnar að vera heima í dag því hún byrjaði daginn með hitaslæðingi, hæsi og hóstum.  En seinni partinn hefur hún verið miklu hressari og gæti jafnvel verið leikskólatæk á morgun.  Við sjáum til.

En ég er enn að elda úr leifum helgarinnar: Gerði rækjurétt í gærkvöldi úr þeim rækjum sem gengu af eftir kokkteilagerðina og núna mallar í potti restin af lambakjötinu frá því á sunnudagskvöld og við komumst að því á sunnudaginn að pan bagna þokkalega svínvirkar í paninigrillinu.  En eftir þessi hátíðahöld er örugglega kominn tími á smá aðhald.Wink


Snemmbúin afmælisgjöf!

Í kvöld þegar ég var að leggja litlu manneskjuna í rúmið sitt, búin að teikna á bakið á henni og strjúka henni á alla enda og kanta kom eftirfarandi spurning frá stúlkunni: "Mamma.  Ert þú vinkona?"  Ég sagði að sjálfsögðu: "Já.  Ég er vinkona þín.  Ert þú vinkona mín?" - "Já, mamma!".

Allir sem eitthvað þekkja okkar mál og okkar fólk vita að þetta er stór áfangi fyrir litla manneskju.  Aftur og enn fór mamman svo að brynna músum þegar hún kom fram.  Ég held ég biðji ekki um það betra.

Annars er stúlkan alltaf á kafi í líffræðinni og við lesum alltaf sama doðrantinn fyrir svefninn og núna kann Hulda að nefna, lungu, þarma, hjarta, þvagblöðru og fleira gott.  En hún tók pabba sinn fyrir um daginn og bað um að fá að sjá upp í hann og sjá "gullið" (skoða tennur) og svo sagði hún við hann: "Gaptu meira.  Má ég sjá lungu?"

En ljónynjan á víst afmæli í dag Wizard og stefnir á að borða eitthvað blóðugt í kvöld!


Meira hvað maður verður þreyttur!

Laugardagur og ég er alltaf jafnhissa á því hvað maður verður þreyttur þegar stendur til að fara að þrífa baðherbergin!  Ég meina það, ég gæti lagt mig núna og haft það afar náðugt.  Valgerður ætlar að stinga nokkrum hlutum ofan í uppþvottavélina og mér sýnist að hún sé líka afar þreytt.

Annars féllum við báðar eftirminnilega áðan á kókbindindinu sem fjölskyldan hefur verið í í nokkra mánuði og ekki þótt tiltökumál.  Við vorum semsagt að ljúka búðarferðum niðri í Smára og förum síðan að tala um það að okkur langi svo rooosalega mikið í kók.  Við komum við í búð, keyptum tveggja lítra kók til að taka með heim og svo eina litla sem við skiptum á milli okkar og svolgruðum í okkur á leiðinni til að fullnægja þörfinni strax.  Himneskt.  Merkilegt vegna þess að ég var komin á þá skoðun að þetta væri vont sull og saknaði þess ekki neitt.  En þetta sukk verður bara í dag og á morgun verð ég aftur óvirkur kókisti.

En í kvöld höldum við gamla settið út á Nes í tilefni þess að Guðrún vinkona átti fertugsafmæli í síðasta mánuði.  Svo styttist víst í að sú sem þetta ritar eigi eitt svoleiðis!

Hafið góða helgi, ég er farin að bóna hásætin!


Hlandhausaklúbburinn!

Almennur félagsfundur í Hlandhausaklúbbnum hefur líklega verið haldinn áðan í IKEA.  Eins og kúnnar þeirrar búðar vita er svona svæði við útganginn þar sem þú kemur með bílinn þinn að og nærð í vörurnar sem þú varst að versla.  Semsagt, fræðilega séð er þetta ætlað fyrir stutt stopp, bara rétt til að hlaða bílinn.  En áðan, þegar við eiginmaðurinn vorum að draga tvo risastóra kassa með bókahillum út úr búðinni blöstu við okkur feitir afturendarnir á ca. 6-7 jeppum sem var LAGT þarna með engum í og engan eiganda sjáanlegan.  Þá eru hinir örþreyttu, aðþrengdu jeppaeigendur svo bjargarlausir að þeir leggja greinilega þarna áður en farið er inn í sænska himnaríkið svo þeir eigi nú öruggt stæði þegar þeir staulast út aftur með góssið sitt.  Siggi lagði í stæði sæmilega nálægt og við bárum stöffið út á milli bensínskrímslanna og út í bíl en maður sá að það var fólk sem var ekkert fært um að standa í slíkum stórræðum enda með heilu innréttingarnar sem biðu eftir því að komast frá húsinu.  Það er greinilega nóg af bjánum í okkar þjóðfélagi og gott að þeir eru ekki feimnir við að deila flónsku sinni með samborgurum sínum.

Semsagt, búin að ausa úr skálum reiði minnar yfir lötum samlöndum mínum og segi eins og Billy Connolly: "Oh,  I do love a good rant!"

Annars hefur verið mikið að gera heima og heiman.  Mikið mokað í garðinum og núna eru allir staurar og allar undirstöður komin á sinn stað.  Við Valgerður hreinsuðum upp moldar og steypuhrúgurnar eftir kallana síðasta sunnudag, tíndum burt steina og gerðum bakgarðinn snyrtilegan.  Verkefni kvöldsins hjá mér er að prenta út teikningar af báðum pöllum svo Siggi hafi eitthvað til að veifa í BYKO á morgun þegar hann kaupir efni. 

Ég er ekki alveg komin í taktinn aftur eftir að ég fór að vinna og er yfirleitt hálfdottandi þegar ég kem heim.  Hulda Óla er á aldeilis skemmtilegu mótþróaskeiði og brúkar sívaxandi orðaforðann til að mótmæla öllum áætlunum sem henni eru kynntar.  Segist til dæmis EKKI ætla í bað þegar hún á að fara í bað og hnýtir aftan í að hún sé EKKI skítug.  Og svo er hún að komast upp á lagið með að þrasa og tuða þegar hún er orðin þreytt og gefur ákveðnum fjölskyldumeðlimum ekkert eftir þeim efnum Wink.

Síðast en ekki síst fór ég að sjá Eric Clapton um síðustu helgi í hinni illa loftræstu Egilshöll.  Hvernig er það, stóð til að kála kallinum þarna uppi á sviði eða hvað?  Eða þá áhorfendum?  Ég ætla ekki að fara að telja upp hversu laklega var staðið að þessum tónleikum, það er víst búið að skammast nóg um það í bloggheimum en þetta voru, held ég, klúðurslegustu tónleikar sem ég hef farið á á löngum ferli mínum.  Það var svalara loft í Laugardalshöllinni þegar Rammstein var með eldsprengjur með reglulegu millibili, hér um árið.  Úpps, finn að ég er að trekkja upp í tuðgírinn aftur svo, down girl.  En Clapton karlinn var góður.  Ég hef aldrei verið neinn últra aðdáandi og finnst til að mynda þessi týpísku popplög hans ekkert spes.  Mér er alveg sama þótt ég heyri ekki Layla og Cocaine og Wonderful Tonight má alveg koma fyrir annað fólk.  En ég ELSKA blús og kallinn er brilljant blúsgítarleikari og er náttúrlega blúsmaður á undan og eftir poppgutlinu.  Sérstaklega fílaði ég þegar hann var að taka Robert Johnson.  Núna langar mig dálítið að kaupa þennan disk.  En ég get þakkað bróður mínum sem  komst ekki til Íslands, þessa tónleikaferð og geri það hér með: Takk Gvendur og takk Dísa.  Þetta var óvæntur glaðningur.

En, farin að bauka í landslagsforritum svo eitthvað þokist hér í framkvæmdum og Edda fái fallegra útsýni út um eldhúsgluggann!Wink


Fjölskyldufundur hjá Hulduhernum

Tiltektinni sem rætt var um í síðustu færslu var frestað því við og Suðurnesjafólkið mæltum okkur mót við Norðlendingana þar sem þau voru komin suður til að vera í sumarbústað í Biskupstungunum.  Fórum semsagt austur fyrir á laugardagsmorgninum, gistum á Laugarvatni um nóttina og fórum svo heim á sunnudagskvöldið.  Skemmst frá því að segja að það var svakalega, obboðslega gaman og takk kærlega fyrir okkur.  Kristín, Siggi og afkvæmi komin heim frá Baunalandi og ægilega gaman að allir skyldu hittast.  Vantar bara Kanadabúana en það verður þá bara seinna.  Ég tók engar myndir í kvöldmatnum því ég var upptekin af því að setja saman salat og fleira en Njarðvíkurfólkið kom með hrikalega góðan kjúkling með sérútbúinni grillsósu, ásamt hinu sígilda kartöflusalati hennar Auðar.  Skora hér með á fólkið að birta eða vísa á þessar fínu uppskriftir.

Myndir og skýringar á eftir, athugið að sjálfsögðu að smella á myndirnar til að stækka þær.

Kubb var spilað í gríð og erg í sumarbústaðnum.  Ég tók ekki myndir í fyrsta hollinu því ég var að spila þá sjálf en kallpeningurinn tók sér mót sem endaði á hrikalegan hátt, svo hrikalegan að sumir voru farnir að grátbiðja um að mega skipta um lið!Wink

Siggi Hrafn kastar í Kubb

Siggi Hrafn sýnir snilldartakta, æfða í Danmörku.  Jón Gestur og Siggi fylgjast með af aðdáun!

 Sexkallarnir á Kubb móti

Önnur mynd af Sexköllunum (það voru 6 stk. af þeim semsagt!)

Gísli Freyr krútt

Gísli Freyr stórsjarmör og kvennaljómi var ekki með í Kubb en hélt frúnum félagsskap á meðan drengirnir spiluðu.

Komið heim af stóra róló

Og restin af börnunum fór á meðan á stóra rólóinn ásamt fylgdarliði.  Hér eru þau að koma tilbaka úr þeirri ferð.

Skvísur í pottinum

Skvísurnar Rebekka, Birta og Hulda í pottinum.

Pottagæslumenn

Pottagæslumenn voru á staðnum og Gerður skrásetti aðgerðirnar.

Smartar

Kristín búin að bætast í pottinn og farin að hafa sín áhrif á börnin!

Gísli Freyr og ormurinn langi

Á meðan var Gísli Freyr að gera að Orminum Langa og naga bolta til hlýðni.

Potturinn seinna um kvöldið

Seinna bættist svo fleira fólk í pottinn og spillti ungviðinu jafnvel meira en orðið var! Allt fór þó vel fram.

Laugarvatn um nótt

Við vorum komin inn á Hótel Eddu á Laugarvatni um hálftólfleytið og ég bara varð að taka þessa mynd af útsýninu. 

Morguninn eftir var morgunmaturinn afgreiddur í Samkaup-Strax og borðað fyrir utan í glampandi sól og eins og sést var Hulda Ólafía á því að besti morgunverðurinn væri Pepsi Max og vatn til skiptis þar til Helga tók í taumana og kom ís ofan í barnið svo hún fengi einhverja næringu.

Morgunverðurinn hennar Huldu   Guðrún og Hulda Kata

Svo var haldið aftur í Brekkuskóg og heilsað upp á liðið aftur, grillaðar pylsur, spilað meira Kubb og meira að segja farið í snúsnú!

Snemmbúnar gönguæfingar

Gísli Freyr æfir göngu með Þórhildi og Stefaníu

Snúsnú   Rebekka og Birta

Stefán fylgist með snúsnú 

Rosaleg tilþrif í snúsnú en Stefán tók lífinu með ró á meðan.

Helgi og Hulda að krúttast saman

Frændsystkinin Helgi Hrafn og Hulda Ólafía náðu vel saman í ferðinni.

Hulda nær pabba sínum með strái   Sveitastelpa

Hulda "nær"pabba sínum með myndarlegu strái! Hulda sveitastelpa að chilla!

Hulda og Siggi bíða eftir StrokkiHjá Strokki

Skruppum líka á Geyssvæðið, hér eru feðginin að bíða eftir að Strokkur gjósi og á hinni myndinni eru aðrir fjölskyldumeðlimir að bíða eftir hinu sama.  Skringilegur skurður á þeirri mynd er vegna þess að ég þurfti að skera burt heilan ferðamann sem potaði sér í veginn.

Strokkur gýs

Og hér gaus Strokkur!

Jólasteikin   Kankvís Hulda, Birta og Helgi

Eftir Geysisferðina var farið í Slakka og þar sáum við jólasteikina, ég meina kalkún, holdi klædda.  Svo var auðvitað sjálfgefið að fá sér ís áður en rennt var í bæinn.

Fyrst kom þetta   Svo þetta

Og hér getið þið séð hvernig krapaát Valgerðar og Stefaníu skilaði sér.  Reyndar kom Auður auga á að þetta var nefnt "Crap" í sjoppunni á Slakka og stúlkurnar sem voru að afgreiða urðu nú heldur kindarlegar þegar þeim var sagt hvað crap þýðir í raun og veru!

Svo brenndum við í bæinn með viðkomu í Nóatúni á Selfossi, elduðum dýrðlegan lambahrygg með hunangsmöndluhjúp og hrundum svo uppgefin í bólin.  Alveg svakalega gaman að gera þetta svona og skemmtilegt að hitta fólkið úti á landinu okkar bláa.  Alveg spurning hvort það eigi ekki að gera eitthvað svipað á næsta ári, kannski á nýjum og spennandi stað?  Hvað finnst ykkur?


Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband