Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006
Ég veit ekki hvort á að kalla þetta vor, haust eða vetrarveður, því sumar er þetta svo sannarlega ekki. Er meira að segja að elda matinn sem maður hefur þegar er kalt úti, nautakjötspottrétt og kartöflustöppu. Hulda komin með kvef og hnerra og kisi fer ekki út í kuldann. Ég held að það séu rúmar þrjár vikur í sumarfríið mitt og hvað í ÓSKÖPUNUM á þetta að þýða?
Svo hélt ég að nú myndi kosningaruglinu linna en þá tekur við allrahanda þvarg og tuð hjá öllum þeim sem eru ósáttir við niðurstöður kosninganna. Vaknaði í morgun við að Ömmi var að skammast í útvarpinu um að stjórnarflokkarnir hafi verið að gera einhverja díla um hagsmunamál sín. Skil reyndar ekki hvað Vinstri Grænir eru að skammast. Þeim bauðst að tala við Sjálfgræðismennina um setu í borgarstjórn en hvað gera þau? Ómögulega takk. Var það þetta sem kjósendurnir pöntuðu? "Nei, elskan mín! Ef þú hefur einhvern séns á að hafa nokkur áhrif, fyrir alla muni, afþakkaðu!" Og þetta er, liggur við, vantrú á að nokkuð sé hægt að gera nema meirihlutinn heiti "Vinstri". Halda þau að fólk hafi verið að kjósa þau af því þau fari svo vel við Samfylkinguna? Þá ætti þetta barasta að vera sami flokkurinn. Búin...búin að ausa úr skálum pirrings míns.
Nei annars. Steingrímur Joð heldur því fram að vegna slaklegrar útkomu Frammarana þá sé ríkisstjórnin fallin? Þekkir maðurinn ekki mun á sveitarstjórnarkosningum og þingkosningum? Þó mér finnist Framsókn vera eins og þaulsætinn fótsveppur og aðlaðandi eftir því þá mega greyin nú fá að klára kjörtímabilið mín vegna. Það er í það minnsta plentí af flór sem þarf að moka eftir Ex-Béingana. Mér finnst ákjósanlegt að þau sjái um það sjálf.
Bloggar | 30.5.2006 | 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Greetings and Salutations!
Nú er liðin meira en vika síðan ég skrifaði síðast en hef því miður ekki komist að tölvunni fyrr en núna. Þannig að frá mörgu er að segja í þessari atrennu.
En áður en lengra er haldið skal Kristínu frænku óskað hjartanlega til hamingju með þrítugsafmælið! Hluti af Hulduhernum skrapp til Danmerkur til að samfagna frúnni og við verðum bara að hitta afmælisbarnið þegar hún kemur til Íslands.
Laugardaginn síðasta var hýst hér í Kópavoginum útskriftarveisla Helgu systur. Fór sú veisla fram með miklum ágætum og var borðað hér nýsjálenskt nautakjöt og fleira gott. Við fylgdumst einnig með Eurovision með öðru auganu og er óhætt að segja að fjöldi hundleiðinlegra laga hafi sjaldan verið jafnmikill. Finnska lagið var þó ágætt og óhætt að óska Finnum til hamingju með sigurinn. Þegar gestir tíndust heim hringdum við út á Nes og þar voru Seltirningarnir að fara í háttinn. Þannig að við leyfðum þeim að hvíla sig eftir Eurovision átökin. Gömlu hjónin fóru að labba um hverfið og hlusta á partílætin í húsunum en þá bárust SMS skilaboð frá Hafnfirðingunum. Þau sátu heima og stumruðu yfir lösnum syni sínum og við skelltum okkur snöggvast í Hafnarfjörðinn og aðstoðuðum þau eftir bestu getu með smá bjór og rauðvíni (samt ekki handa syninum!).
Svo eru Helga og Stefán farin í heimsókn til Hund-Tyrkjans og hafa það víst bara mjög gott hjá honum.
Svo er hér hlutur sem verður að minnast á af því ég er svo stolt. Á sunnudeginum var tekið til í þvottahúsinu og verður það að teljast til kraftaverka því fjölskyldan var farin að brúka það eins og geymslu. Það er stefnt að því að kisi hafi sína aðstöðu þar en það verður þó ekki alveg strax.
Svo á þriðjudaginn fórum við á tónleika með Ian Anderson úr Jethro Tull, ásamt Valgerði og Mumma. Fantagott satt best að segja og brjálæðislegur músíkant. Firnagóður fiðluleikari með honum líka, Lucia Micarelli, og flottur trommari. Annars er það ekkert að marka því ég er veik fyrir trommurum. Anyways, snilldartónleikar og hollt og gott fyrir sálina.
Morguninn eftir fór ég á námsskeið hjá Kópavogsbæ um tjáskipti við einhverf börn og börn með málhamlanir. Þetta var mestmegnis ætlað leikskólastarfsmönnum en nokkrir foreldra flutu með. Afar fróðlegt námsskeið og ég er þakklát bæjarsýsteminu að bakka okkur svona vel upp.
Aðfaranótt fimmtudags dreymdi mig draum. Eða martröð eftir því hvernig á það er litið. Þið vitið jú að ég er ekki mikil Samfylkingarmanneskja. Mig semsagt dreymdi að ég væri að fara í veislu hjá Samfylkingunni. Var í svörtum Benz með Stefáni Jóni Hafstein og svo stoppuðum við fyrir utan hús þar sem veislan var haldin. Þá kom þar að Flosi Eiríksson og leiddi mig inn í veisluna og lóðsaði mig um. Verst þótti mér að ýmsir Vesturbæingar sáu til mín og ég hafði miklar áhyggjur af því að þetta eyðilegði reppið mitt í Vesturbænum. Inni var svo Dagur B. Eggertsson sem röflaði tómt malbik og ég sagði honum það. Ásamt því að ég gæti bara ekki látið sjá mig með honum. Til allrar hamingju birtist þarna Edda frænka (?) og keyrði mig heim.
Gott og blessað. Svo vaknaði ég og var að draugast um á náttsloppnum, sinna Huldu og glápa á sjónvarpið. Þá er bankað á útidyrnar. Ég hélt ég yrði ekki eldri því þar stóð Flosi Eiríksson og mundaði rauða rós í áttina að mér. Þá var Samfylkingarliðið að ganga í hús og gefa rauðar rósir. En ég hélt mig væri enn að dreyma! En það er alltaf gaman að fá rósir og ég tók við henni með virktum.
Ef þið eruð ekki búin að átta ykkur á því ennþá þá er hún Guðrún Björk búin að setja upp síðu. Allir að fara að lesa og kvitta fyrir sig. Einnig er Valgerður búin að setja upp nýja síðu sem hún segist ætla að verða dugleg að skrifa á.
En, nú tekur laugardagshreingerningin við. Og svo stutt búðarráp. Þið hérna sem eruð innanlands, druslist þið til að kjósa, hinir sem kjörgengir eru hér og eru utanlands, ég vona að þið hafið kosið áður en þið fóruð.
Ég? Ég er búin að kjósa og þótt Flosi sé fallegur þá kaus ég það sem best er fyrir Kópavog.
Bloggar | 27.5.2006 | 15:49 (breytt kl. 15:52) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú er forkeppninni lokið og Silvía Nótt ekki komin áfram. Gott og blessað... þá er það búið! Skildi nú ekki afhverju áhorfendur voru að púa á Litháaræflana þegar þeir komust áfram. Eru grikkirnir svona miklir dónar? En því ber að fagna að hollensku klofbumburnar komust ekki áfram, sveiattan hvað þetta var ömurlegt.
En, það er örugglega hægt að horfa á þetta með öðru á laugardaginn á milli þess sem útskrift Helgu systur verður fagnað. Bendi á fyrir fólk utan fjölskyldunnar að hægt er að sjá fína mynd af henni niður á Lækjartorgi frá árinu 1974 þar sem hún er að labba niður Skólavörðustíginn með barnavagn. Þetta er veturinn sem ég var hjá henni og hef líklega verið í skólanum á þessum tíma. Annars fórum við og kíktum á þetta síðasta sunnudag og fórum í leiðinni framhjá þar sem Zimsen húsið stóð. Nú er þarna bara hola. Nostalgían náði smá tökum á mér þarna og á leiðinni heim í bílnum volaði undirrituð doldið með sjálfri sér. Þarna var fjarlægður smá partur af barnæskunni.
En til að taka upp léttara hjal... hjal, hjal, hjal! Hulda Ólafía var með meiningar þegar ég sótti hana í dag, ég var ekki með kerru svo við löbbuðum heim. Hún fékk dálítið að ráða hraðanum og vildi til að mynda sitja á öllum bekkjum á leiðinni. Svo bauð ég henni að koma heim og fá ís, en nei, mín hristi bara hausinn og sagði nei. Og svo til að árétta þetta kom alveg nýtt frá henni "Vil ekki, vil ekki, vil ekki heima!" Það tókst þó að lokum að lóðsa litla dýrið heim og eftir smá stopp í sandkassanum fékkst hún til að koma inn og fá hinn rómaða ís.
Kisi er farin að skreppa út við og við en heldur sig nálægt húsinu. Honum finnst best að vera á bakvið hús þar sem er rólegt frekar en að vera fyrir framan þar sem börn og bílar ráða ríkjum. Ég ákvað að það væri betra að hann færi út með opinberu leyfi, frekar en að vera að laumast niður af svölunum. Hann í það minnsta ratar heim og kann greinilega bærilega við okkur hér. Ég vigtaði hann í morgun og hann er ennþá 7,6 kg. Á kattamatspakka sem við eigum er talað um að meðalkötturinn sé um 4 kg. á þyngd. Þetta er semsagt næstum því tvöfaldur köttur. Mér finnst samt bumban hafa minnkað á honum og ekki tek ég eftir því að hann sé beinlínis feitur, bara stór, stór. Kannski er þetta míníatúr gaupa? Eða lítið tígrisdýr eins og Guðrún Björk kallar hann.
BM Vallá sendi bækling í dag, ég sé fram á ljúfa og rómantíska kvöldstund að skoða hellulagnir. Það þarf lítið til að gleðja litlar sálir, ekki satt?
Ég gæti virkilega brúkað sumarfrí núna, kæru bræður og systur í frysti....
Bloggar | 18.5.2006 | 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú styttist í kosningar og stórskemmtilegt að horfa á pólitíkusuna lofa upp í ermarnar á sér og öðrum. Frábærastar eru hugmyndirnar sem gera ráð fyrir því að nota annarra manna peninga og eignir til að framkvæma hugmyndir sínar. Til dæmis flugvöll á Lönguskerjum fyrir 22 milljarða fyrir peninga sem ekki er ljóst hvaðan koma og á stað sem nokkuð ljóst er að Reykvíkingar eiga ekki. Hvernig væri að nota eitthvað af þeim seðlum til þess að bæta samgöngur til Keflavíkur og nýta þennan stóra flugvöll sem þar er? Það kostar örugglega minna en 22 milljarða. Eða bara að halda áfram að nota þennan gamla sem er nýbúið að gera upp. Ég bara sé ekki að þetta sé þvílíkt velferðarmál að hræra í þessu máli akkúrat. Svo er það Árbæjarsafn sem hugmyndin er um að flytja úr Árbænum og út í Viðey af verktakafyrirtæki sem á hvorugan staðinn en er væntanlega að sverma fyrir landinu sem safnið stendur á. Kannski til að byggja fleiri blokkir? Það er að myndast svona ákveðin Gropiusarstemning á ákveðnum svæðum í borginni þar sem verið er að hámarka hagnað undir formerkjum "þéttingu byggðar"
Annars var heimsfrægur arkitekt, Rem Koolhaas minnir mig að hann heiti, fenginn til að gefa sprenglært álit sitt á Reykjavík. Var spurður um nauðsyn á þéttingu byggðar og hvort þurfi ekki að byggja meira upp í loftið. Hann svaraði því til að það væri engin nauðsyn þar sem nóg landssvæði væri umleikis og eitthvað á þá leið að við ættum að nýta okkur þann kost og fara ekki upp fyrir tvær þrjár hæðir. Landrýmið er munaður og afhverju í ósköpunum erum við að bera okkur saman við borgir sem telja aldur sinn í mörghundruð árum eða meira og þurfa að eiga rými fyrir margfalt meiri mannskap en er að draugast hér um á suðvesturhorninu.
Eins og R-lista fólkið gerði mikið hoopla áður en náunginn kom þá hefur lítið farið fyrir þessum pælingum eftir á, væntanlega því þær samræmast ekki samfélagslegum hugmyndum "flokksins" sem var. Svo var mætur skipulagsfræðingur, sá hinn sami og vildi setja flugvöll á Löngusker fyrst, að skamma bæjarstjóra á Álftanesi og Seltjarnarnesi fyrir að bera ekki hag heildarinnar fyrir brjósti. Má þá ekki að sama skapi að hann beri ekki hag smáborgaranna fyrir brjósti? Og hvað með náttúruvernd? Skiptir hún engu máli þegar á að fara að hræra í miðbænum og hirða skerin?
Miðað við fagurgalann sem allir flokkar hafa uppi núna þá verður aldeilis djúsí hlutskipti að vera barnafjölskylda eða gamalmenni eftir kosningar. Væntanlega kominn tími til en svo er að sjá hvort efndirnar verða eins frábærar og kortér í þrjú málflutningurinn hjá stjórnmálaflokkunum.
Jæja, hafið góðan laugardag, ég er farin að þrífa mitt litla horn á heiminum.
Bloggar | 13.5.2006 | 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gafst upp á að hlaða inn einfaldri mynd af kettinum á blogger svo hér hef ég aðsetur í bili.
Allt meinhægt á þessu vígstöðvum, starfsdagur á leikskólanum hennar Huldu svo dagurinn hefur farið í pössunarskiptingar og hlaup til og frá vinnu í tveimur hollum.
Erum að leggja drög að garðbleðlunum sem við eigum fyrir framan og aftan hús og urðum því miður að hætta við tíu hæða gosbrunninn. Eitthvað kjaftæði um byggingareglugerð, grenndarkynningar og byggingarreit. Hélt að það tíðkuðust svona insane byggingar hér í Kópavoginum.
Nei, bara grín, en við erum samt búin að krota uppdrætti á blað og ef guð lofar kemst sköpunarverkið á koppinn einhvern tímann. Eins ætlum við að láta moka burt hlíðinni í bakgarðinum og setja í staðinn vegg úr holtagrjóti. Bakgarðurinn mun þá nefnast hér eftir "Pytturinn" eða "The Pit" á útlensku. Það verður hægt að vera allsber í honum og svo verður sundlaug, sólpallur, sauna, fótsnyrtingaraðstaða og kattasandskassi þarna. Og ekki má gleyma vatnsrennibrautinni og barnum. Feel free to visit. Greinilegur föstudagur mættur í mína.
En, nóg að sinni. Ef þið villist inn á þessa síðu þá endilega kommenta/kvitta svo ég sjái að þið hafið fylgt mér hingað.
Góðar stundir,
Þórdís.
Bloggar | 12.5.2006 | 17:59 (breytt kl. 18:00) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eldri færslur
- Febrúar 2009
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
Jan. 2025
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Ýmislegt áhugavert
- Auður AkureyrarAuður
- Birta og Helgi Danmerkurgengið
- Guðrún Björk Garún, Garún
- Hulda Katrín Eldri krullhausinn
- Valgerður Dóttirin
- Guðrún Mary Seltjarnarnesdaman
- Björninn Bjössi bekkjarbróðir
- Hörður Myndasmiður Myndirnar hans Harðar
- Vinnan Mitt daglega starf
- Drawn Krotarablogg
- Cartoon Brew Hreyfimyndablogg
- Autism Diva Donna Williams
- IllustrationMundo Krotarar alheimsins