Nanómóment í tölvunni!

Sloppin í tölvuna, loksins!  Eiginmaðurinn er að svæfa ungann svo ég hef sjaldgæfar fimmtán mínútur til að deila rausi mínu með blogglesendum.  Hífandi rok úti og gatan mín stendur víst ekki undir nafni í dag.  En það er búið að taka allt lauslegt inn frá því í síðasta óveðri og tjóðra grillið fast þannig að við erum bara róleg í rokinu.

Er komin á það stig í vinnunni að ég sé ekki fram úr því sem ég er að gera og geri ekki ráð fyrir að það ástand batni fyrr en síðasta vinnudag fyrir jól!  Þá er spurning um að gera eins og var talað um í Fóstbræðrum: Kveikja á kerti, því maður er orðinn allt of stressaður!

 Við vorum talsvert á ferðinni síðustu helgi, hjálpuðum tengdamömmu að halda afmæliskaffi og tókum svo til eftir herlegheitin.  Á sunnudeginum heimsóttum við svo Lilju, Braga, Daníel og litla kút.  Myndarlegur snáði mættur í heiminn þar.  Um kvöldið var svo nautasteik hjá Gísla mági mínum í tilefni afmælis hans.  Hulda stóð sig vel báða dagana sem pakkaupprífari en það tókst þó að gefa Daníel og litla bróður hans pakka án þess að Hulda tæki athafnirnar að sér.  Skemmtileg helgi en það skal viðurkennast að það verður dálítið rót á mannskapnum þegar við náum ekki að borða heima yfir helgina. 

Vikan hefur annars verið annasöm og ég barasta skil ekki hvert tíminn fer, mér líður enn eins og það sé mánudagur.

Valgerður er á fullu að undirbúa sig fyrir Legokeppnina á laugardaginn.  Hún er ekki að föndra við kubbana í þetta sinn en er að undirbúa rannsóknarverkefni um nanótækni og fleira gott.  Við höfum lítið séð hana, því hún ýmist hangir í skólanum eða heima hjá vinkonu sinni að fikta í vísindum!  Þvílíkir vandræðaunglingar!  Í fyrra unnu þær til verðlauna fyrir verkefnið sitt og við bara óskum henni góðs gengis í þessari atrennu.

Fróðlegt að sjá "þjóðernishyggjufólkið" koma skríðandi út úr skápnum, núna þegar frjálslyndir segjast vera með málefnalega umræðu um innflytjendur.  Ég er nokkuð viss og sýnist það líka á þeim viðtölum sem eru tekin við suma samborgarana, að skoðanirnar sem eru viðraðar eru  byggðar ekki á málefnalegum grunni.

Ef ég færi að agnúast út í útlendinga þyrftum við Siggi að hætta að tala við svo til alla vini okkar og jafnframt að hafa skömm á þeim pörtum í okkur sem við getum rakið til erlendra forfeðra okkar.  Það er víst Fransmaður sem lokkaði einhverja formóður Sigga í bólið og ég á víst forföður af gyðingaættum sem kom hingað frá meginlandi Evrópu.  Svo gætum við farið að skammast út í írska upprunann og svei mér þá ef við erum ekki komin af Norsurum líka!  Dear oh dear!  Við erum líklega öll komin af innflytjendum!

Eins er það merkilegt að sumir Íslendingar telja sig mega búa og vinna alls staðar en geta ekki umborið að aðrir komi hingað!  Það verður að taka á þessu strax og kannski er ágætt að þetta hafi fengið að koma upp á yfirborðið í stað þess að krauma undir niðri og skemma kannski meira en orðið er.

Núna streyma inn prófkjörsauglýsingar og alls konar lið sendir manni SMS og hringir til að biðja um stuðning.  Held mér hafi tekist að móðga einhverja ágæta konu sem hringdi fyrir hönd ágæts manns sem er í framboði.  Ég semsagt glopraði því út úr mér að ég hefði ekki hugmynd um hvaða maður þetta væri og svei mér þá ef henni sárnaði ekki að ég skyldi ekki þekkja svona mætan Kópavogsbúa!   Svona er að trufla maddömuna þegar hún er í sumarbústað með rauðvínsglas í hendi, kallinn í sófanum og að hlusta á Django!  Síðan þá hefur birst slatti af myndum af náunganum í blöðunum.  Það er eins og sumir haldi að mynd sé nóg til að gera þá fýsilega til stjórnmálaþáttöku. Takk, en nei takk.  Það er reyndar efni í heila ritgerð að stúdera auglýsingar, greinaskrif og almennt hvernig liðið kynnir sig þessa dagana en það verður ekki gert núna.

Já, ég sá Mýrina í gær.  Ágæt mynd, algjörlega hægt að horfa á hana og hún er prýðilega aðhæfð kvikmyndaforminu.  Tvö oggulítil feilspor í henni en engin er víst fullkominn, ekki einu sinni ég!

Góðar stundir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er svo forvitin hver feilsporin eru? Þetta var bara ansi góð mynd. Það sem mér fannst standa upp úr sem sannri Suðurnesjakonu er hversu frábær myndatakan var af þessu brjálæðislega landslagi á Suðurnesjunum. Það var allt sýnt, ólgusjór, marglitað hraun og litlu sjávarþorpin.

Kveðja,

Guðrún Björk

Garún (IP-tala skráð) 10.11.2006 kl. 22:54

2 Smámynd: Þórdís Guðmundsdóttir

Atriðið með meinafræðingnum fannst mér ekki alveg gott, þreyttur brandari þar á ferðinni og svo var gamla konan á Grund látin tala þvílíkt fornaldarmál að annað eins hefur ekki heyrst síðan á nítjándu öld.   Mér fannst það óþarfi.  Hins vegar er ég hjartanlega sammála þér með landslagið, litina og veðurfarið.  Og á heildina fannst mér myndin dúndurgóð.

Þórdís Guðmundsdóttir, 11.11.2006 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband