Tuð á laugardegi

Nú styttist í kosningar og stórskemmtilegt að horfa á pólitíkusuna lofa upp í ermarnar á sér og öðrum.  Frábærastar eru hugmyndirnar sem gera ráð fyrir því að nota annarra manna peninga og eignir til að framkvæma hugmyndir sínar.  Til dæmis flugvöll á Lönguskerjum fyrir 22 milljarða fyrir peninga sem ekki er ljóst hvaðan koma og á stað sem nokkuð ljóst er að Reykvíkingar eiga ekki.  Hvernig væri að nota eitthvað af þeim seðlum til þess að bæta samgöngur til Keflavíkur og nýta þennan stóra flugvöll sem þar er?  Það kostar örugglega minna en 22 milljarða.  Eða bara að halda áfram að nota þennan gamla sem er nýbúið að gera upp.  Ég bara sé ekki að þetta sé þvílíkt velferðarmál að hræra í þessu máli akkúrat.  Svo er það Árbæjarsafn sem hugmyndin er um að flytja úr Árbænum og út í Viðey af verktakafyrirtæki sem á hvorugan staðinn en er væntanlega að sverma fyrir landinu sem safnið stendur á.   Kannski til að byggja fleiri blokkir?  Það er að myndast svona ákveðin Gropiusarstemning á ákveðnum svæðum í borginni þar sem verið er að hámarka hagnað undir formerkjum "þéttingu byggðar"

 Annars var heimsfrægur arkitekt, Rem Koolhaas minnir mig að hann heiti, fenginn til að gefa sprenglært álit sitt á Reykjavík.  Var spurður um nauðsyn á þéttingu byggðar og hvort þurfi ekki að byggja meira upp í loftið.  Hann svaraði því til að það væri engin nauðsyn þar sem nóg landssvæði væri umleikis og eitthvað á þá leið að við ættum að nýta okkur þann kost og fara ekki upp fyrir tvær þrjár hæðir.  Landrýmið er munaður og afhverju í ósköpunum erum við að bera okkur saman við borgir sem telja aldur sinn í mörghundruð árum eða meira og þurfa að eiga rými fyrir margfalt meiri mannskap en er að draugast hér um á suðvesturhorninu.

Eins og R-lista fólkið gerði mikið hoopla áður en náunginn kom þá hefur lítið farið fyrir  þessum pælingum eftir á, væntanlega því þær samræmast ekki samfélagslegum hugmyndum "flokksins" sem var.  Svo var mætur skipulagsfræðingur, sá hinn sami og vildi setja flugvöll á Löngusker fyrst, að skamma bæjarstjóra á Álftanesi og Seltjarnarnesi fyrir að bera ekki hag heildarinnar fyrir brjósti.  Má þá ekki að sama skapi að hann beri ekki hag smáborgaranna fyrir brjósti?  Og hvað með náttúruvernd?  Skiptir hún engu máli þegar á að fara að hræra í miðbænum og hirða skerin?

Miðað við fagurgalann sem allir flokkar hafa uppi núna þá verður aldeilis djúsí hlutskipti að vera barnafjölskylda eða gamalmenni eftir kosningar.  Væntanlega kominn tími til en svo er að sjá hvort efndirnar verða eins frábærar og kortér í þrjú málflutningurinn hjá stjórnmálaflokkunum.

Jæja, hafið góðan laugardag, ég er farin að þrífa mitt litla horn á heiminum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyndnasta við flugvöllin á Löngskerjum er að ég var að hlusta á hádegisfréttir rásar 1 í vikunni,,og veistu hvað,þessi blessað Löngusker,,er friðað fyrir fuglalífi,,og eitthvað fleiri! Greinilega einhver gerði ekki heimavinnuna sína þegar hann kom með þessa hugmynd! Það er alveg hætt að tala um flugvöllinn á Löngsker eftir þessa frétt! Bara fyndið!

Hulda Katrín (IP-tala skráð) 13.5.2006 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband