Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Útskrift og undirskriftasöfnun

Rólegheit hérna eftir allt fjörið um síðustu helgi.  Eftir hádegsmat komu Helga og Stefán og sóttu Huldu og Valgerður fékk að fljóta með í Vesturbæinn.  Ég ákvað að slaufa öllum framkvæmdum og taka mér smá frí.  Settist niður og las svolítið fyrst það var næði.  Lagði mig svo stutta stund því það er svo gott að lúra þegar rigningin skellur á þakinu.  Vaknaði og var eitthvað að dandalast um húsið þegar síminn hringir.  Og þar hringdi hún Erla æskuvinkona mín, nýkomin frá U.S of A, eftir margra ára fjarveru.  Það sem mér fannst svo vera hálftíma spjall sagði mælirinn á símanum mér að hefði verið tveggja tíma spjall.  Time flies when you're having fun!

Annars útskrifaðist Valgerður úr grunnskóla á miðvikudaginn með glæsibrag.  Hulda Ólafía og amma Lóa komu með og litla dýrið hagaði sér barasta vel á meðan á athöfninnin stóð.  Að vísu líkaði henni ekki klappið og hélt fyrir eyrun í hvert sinn og tautaði: "Það er búið að plappa!".  En það er svo ótrúlega stutt ,finnst manni, að Valgerður byrjaði í skólanum (ári eftir að skólinn var opnaður) og öll þessi stuttu börn sem maður sá þá hafa umbreyst í ungt og myndarlegt fólk.  Ég er ekki frá því að stúlkan sé strax farin að sakna skólans síns en fjölskyldan missir þó líklega ekki tengslin því líkurnar eru góðar á því að Hulda hefji þarna sína skólagöngu þegar þar að kemur.

Önnur heiðursvinkona mín, hún Rannveig, var að koma frá Múmínálfalandinu í dag.  Hún sendi mér ábendingu um undirskriftalista sem er í gangi hér á netinu gegn meðferð Spánverja á hundategundunum Galgo og Podenco.  Ég fór og las mér til og skrifaði umsvifalaust undir.

Hérna getið lesið um hvað er í gangi og hérna getið þið skrifað undir.


Skemmtileg helgi

Helgin hjá okkur var þéttpökkuð og vel heppnuð.  Hinn sígildi laugardagsmatur var borðaður hjá tengdó eins og getið var um í fyrri færslu og að því loknu brenndum við í Vesturbæinn að skoða Hagaskóla.  Hulda var nokkuð impóneruð að sjá skólann hennar mömmu og hófst handa um leið og hún kom heim að pakka í tösku nokkrum vel völdum hlutum og bókum og kvaðst svo vera að fara í skólann.  Henni er reyndar alltaf bent á skólann hennar Valgerðar (sem hún kveður eftir tvo daga), þegar við göngum framhjá og er farin að koma með yfirlýsingar um að hún eigi líka að fara í skóla.  Um kvöldið komu svo Hafnfirðingarnir og borðuðu hjá okkur með tilheyrandi kjaftatörnum á eftir.

Ég og eiginmaðurinn tókum svo daginn snemma í gær og fórum í Blómaval.  Keyptum helling af stjúpum og króknuðum næstum í leiðinni í þessu ekki-vorveðri!  Versluðum vikuinnkaupin og gerðum svo það sem við aldrei annars gerum, borðuðum sunnudagsmatinn á miðjum degi!  Svo brenndi fjölskyldan upp á Víðivelli, sótti fleiri blóm og drifum okkur í Fossvogskirkjugarðinn.  Bræðurnir nebblega skipta með sér umhirðu á leiðum eftir árum og núna er okkar ár.  Hreinsuðum beð og settum niður blóm hjá pabba hans Sigga, ömmu hans og föðurbróður.  Settum svo einnig blóm niður hjá steininum hennar mömmu.  Afskaplega forvitnir og spakir fuglar nýttu sér jarðvegsvinnuna og nældu sér í feita ánamaðka um leið og maður mokaði holur fyrir blómin. 

Um kvöldið mættu svo Þórhildur og Guðrún til að vera hjá Huldunni á meðan við skruppum ásamt Valgerði í Borgarleikhúsið að sjá Ladda 6-tugan.  Bara nokkuð hressileg skemmtun.  En það hefði eiginlega þurft að vera þriðji frídagurinn til að jafna sig eftir allan hamaganginn.  En, það styttist í sumarfrí!


Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband