Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Ég er búin að vera lasin frá því ég kom heim og hef til dæmis sofnað í sófanum á hverju kvöldi. Sofnaði meira að segja á undan Huldu í gærkvöldi. En ferðasagan verður að bíða þar til ég er búin að ná meira þreki. Set þó inn eina mynd sem ég tók í Flórens. Brúin á myndinni heitir Ponte Grazie.
Bloggar | 28.4.2008 | 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sælt og blessað veri fólkið.
Ég er kom heim í nótt eftir langt og strangt ferðalag, labb á gígantískri húsgagna, hönnunar, innréttinga og húsbúnaðarsýningu, margar og langar lestarferðir og svo borgarlabb með meiru. Ég legg í ferðasöguna á morgun eða hinn en er gáttuð á atburðum á meðan ég var í burtu. Eru okkar ágætu bílstjórar að tapa vitinu? Það er búið að sækja um undanþágu frá Evrópureglunum um hvíldartíma, bensíngjald er í endurskoðun eftir að hafa verið óbreytt í fjölda ára og hverjar eru eiginlegu kröfurnar sem standa eftir? Og er líkamlegt ofbeldi svo þrautalendingin? Og hvað í dauðanum kemur þetta Abbas og Palestínumönnum við. Það sést best á því hvað við Íslendingar erum saklaus og höfum það gott, að í þau örfáu skipti sem lögreglan lætur til sín taka byrjar söngurinn um lögregluofbeldi. Manni hefur nefnilega sýnst að hér á Íslandi reyni menn öll önnur ráð áður en farið er að taka á fólki. Ég er náttúrlega nýkomin frá Ítalíu, með stoppi í Bretlandi og á báðum stöðum ganga lögreglumenn vopnaðir. Það er ekki gert hérna. Og svo eru mér sérstaklega minnisstæðar frönsku löggurnar sem allar sem ein voru með vel notaðar og snjáðar kylfur. Hefur einhver hér prófað að brúka sig við bandaríska lögreglumenn? Hvað þá að ráðast á þá eins og er reglulega gert hér á Íslandi. Ég legg til að áhugasamir reyni fyrir sér með svipaðar aðgerðir í öðrum Evrópulöndum eða US of A og athugi viðbrögðin.
Þetta var smáfjas svona í ferðalok. En ég er með fráhvarfseinkenni eftir Ítalíuferðina og er að búa til pizzu með mozzarella, hráskinku og rucola. Buon appetito!
Bloggar | 25.4.2008 | 19:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hér er ferðaundirbúningur í fullum gangi, þvottavél og þurrkari ganga og frúin næstum búin að fata sig upp fyrir Ítalíuferðina. Fékk smábreik frá ferðakvíðanum með því að fá höfuðverk og lúrði svolítið þegar ég kom heim úr vinnunni. Bæði höfuðverkur og annað löguðust talsvert við það.
Annars langaði mig fyrst og fremst núna að benda á síðu sem Gunni vinur minn og félagar hans hjá Gogogic gerðu fyrir Iceland Express. Hún heitir Iceland socks og þið getið búið til ferðamyndir eftir eigin höfði. Hrikalega fyndið og ég mæli með heimsókn þangað.
En best að halda áfram störfum og Ásdís: Ég man eftir fundinum!
Ciao!
Bloggar | 15.4.2008 | 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hér er frúin að kafna út ferðastressi og tilheyrandi kvíða. Við förum á fimmtudagsmorguninn ef Guð og vörubílstjórar lofa. Það verður fínt að fara en mér er um og ó að fara frá afkvæmum og ketti. Eins og hefur kannski komið fram er ég heimapúki hinn mesti og vil lítið vera á flandri dags daglega. Mér líður nefnilega best heima hjá mér og hjá fólkinu mínu. Og alltaf þegar ferðalög eru í aðsigi er ég hvekkt í nokkra daga á undan. Allt svo í góðu lagi þegar komið er á staðinn og svaka fínt þegar ég kem heim aftur. Á fimmtudagskvöldið á ég að vera komin til Como, þar sem við gistum, og verð svo að spankúlera á sýningu í Mílanó á föstudag og fimmtudag. Á sunnudaginn er ferðinni heitið til Flórens og á fimmtudaginn kem ég heim aftur.
Á föstudaginn komst öll fjölskyldan í uppnám og var á mörkunum að allir fjölskyldumeðlimir beittu handablaki í hugaræsingnum. Það gerðist nefnilega í fyrsta sinn að það var bankað upp á og lítil stelpa stóð fyrir utan og spurði hvort Hulda gæti komið út að leika. Við áttum alls ekki von á þessu og eins og ég sagði fyrr, vorum ansi hvumsa. En Hulda var sallaróleg og sagði bara kát: "Hún er komin! Hún er komin inn!" Þess ber að geta að gesturinn okkar er jafnaldra Huldu, er á sömu deild og hún og býr að auki hér á móti. Þær fóru svo saman út og Valgerður fór með til að hafa auga með okkar manneskju. Þetta gekk allt vel en svo ákváðu þær að koma inn og gesturinn okkar sagði: "Mig langar að sjá herbergið hennar Huldu". Þær fóru að leika sér, nágrannarnir fengu tilkynningu hvar dóttirin var niðurkominn og þetta gekk allt svo ljómandi vel. Okkar manneskja var í sjöunda himni með heimsóknina og við að sjálfsögðu líka. Óvænt og skemmtilegt og við sjáum svo hvernig félagslífið gengur í vor og sumar.
Og ein Huldusaga í viðbót (erfitt að hætta). Á fimmtudagskvöldið voru pylsur í matinn sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Nema við keyptum flösku af Heinz relish. Huldu þótti þetta forvitnilegt og sagði að þetta væri græn tómatssósa. Við spurðum hvort hún vildi smakka og hún samþykkti það. En þegar var kreist úr flöskunni á diskinn leist henni engan veginn á áferðina og eyddi mörgum orðum í að lýsa því hvað þetta væri nú ógeðslegt, vont og ætti að henda þessu bjakki í ruslið. Þegar fólk svo fór að borða þennan ófögnuð á pylsunni sinni hafði hún þungar áhyggjur og hvatti okkur ákaft til að drekka vatn hið fyrsta og skola þessum óþverra niður. Svo kláruðu allir að borða og það var gengið frá eftir matinn og sósur og þess háttar sett í ísskápinn. Daginn eftir er Siggi að henda einhverju í ruslið og þar liggur efst flaskan með grænu sósunni! Daman hafði semsagt farið inn í eldhús um kvöldið og haft vit fyrir þessari snarrugluðu fjölskyldu!
Bloggar | 13.4.2008 | 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hulda kíkti hér fyrr í kvöld út um gluggann og sá að það var farið að snjóa. Þótti þetta mikil firn og sagði að það væri mikill snjór og "tveir snjór", magnið var svo mikið! Svo dró hún systur sína út að öðrum glugga og yfirheyrði hana um hvar grasið væri nú eiginlega. Undir þessum rosalega snjó!
Svo sagði hún okkur að hún hefði fengið 'badeggí' að borða í leikskólanum. Þetta áttum við erfitt með að skilja og spurðum hana í þaula hvort hún hefði fengið fisk? Nei. Kjöt? Nei. Pasta? Nei! En svo rann upp fyrir mér ljós um síðir og ég spurði hvort hún hefði fengið spaghetti. Já, eitthvað kannaðist hún við það.
Annars þrælaði hún móður sinni út í parís sem ég teiknaði á svalirnar og stóð sjálf sig gríðarlega vel. Svo er hún svo dugleg að spyrja "hvað er þetta" um allt mögulegt og ómögulegt. Reyndar verður mannfólkið dálítið skrítið þegar hún bendir á það og spyr "hvað er þetta" í staðinn fyrir "hver er þetta" en oss er nákvæmlega sama þegar hún er svona dugleg að tala. Við foreldrarnir svífum um á bleiku skýi þessa dagana og bensínverðið hefur engin áhrif á okkur!
Bloggar | 8.4.2008 | 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hulda komst í maskarann minn og náði að snyrta sig þetta líka huggulega. Hún náði meira að segja að setja á augnhárinn svo þetta lofar góðu!
Svo átti hún gullmola dagsins þegar við vorum uppi á Víðivöllum í dag. Hún spurði pabba sinn, í þremur aðskildum spurningum hvort það væru hákarlar í Elliðavatni eða hvalir eða selir! Algjörlega rökrétt hugsun og eðlilegar spurningar. En þrælfyndnar!
Bloggar | 5.4.2008 | 17:35 (breytt kl. 19:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þetta var skemmtilegasta aprílgabbið sem ég sá í dag! Munur að geta sent tölvupóst aftur í tímann!
Annars er ég sátt við lífið og tilveruna því skatturinn er búinn að fá framtalið sitt. Ég setti inn það sem ég gat sjálf og Þórhildur skattagúru yfirfór málið og bjargaði því sem ég er of mikill sauður til að hafa vit á sjálf. Takk aftur og enn Þórhildur.
Árlegt eftirlit hjá Tannsa í gær og svo smá heimsókn í heilbrigðisgeirann á morgun og þá fer aðeins að léttast brúnin á minni. Ekki það að hún hafi verið tiltölulega þung en það hefur verið dálítið mikið að gera og muna eftir (og það gengur ekki einu sinni alltaf!) og svo er frúin að auki að undirbúa Ítalíuferðina. Kannski verð ég últraafslöppuð þegar ég kem tilbaka.
Maður verður að lifa í voninni, ekki satt?
Bloggar | 1.4.2008 | 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
- Febrúar 2009
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
Nóv. 2024
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Ýmislegt áhugavert
- Auður AkureyrarAuður
- Birta og Helgi Danmerkurgengið
- Guðrún Björk Garún, Garún
- Hulda Katrín Eldri krullhausinn
- Valgerður Dóttirin
- Guðrún Mary Seltjarnarnesdaman
- Björninn Bjössi bekkjarbróðir
- Hörður Myndasmiður Myndirnar hans Harðar
- Vinnan Mitt daglega starf
- Drawn Krotarablogg
- Cartoon Brew Hreyfimyndablogg
- Autism Diva Donna Williams
- IllustrationMundo Krotarar alheimsins