Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Snjór og pestir

Við Hulda sitjum hér heima með kverkaskít og pestareymsl og ég að auki með illvígan höfuðverk. Búnar að horfa á snjóinn hrannast upp hér fyrir utan í allan dag og loksins að stytta upp.  Hulda er búin að horfa á báðar myndirnar með Skógardýrinu Húgó og ég er búin að lesa Stúlku með perlueyrnalokk.  Nú eru bæði myndir og bók búin svo við verðum að finna eitthvað annað til að stytta okkur stundir í eymingjaskap okkar.  Annars er ágæt tilbreyting að fá fullt af snjó, lífgar upp á annars daufan janúar sem reynist mér oftar en ekki þungur.  Hér er snjólagið á svölunum, það er ca. 60-70 cm. þótt það sjáist ekki alls kostar á þessari mynd.

093

Svo er hérna Rjúpnahæðin og fallegi himininn sem kom í ljós þegar stytti upp:

089

Að lokum er svo mynd af jötunni eftir að Hulda var búin að endurraða í og við hana.  Búið að hópa saman rollur og vitringa og snúa Búddha svo hann geti líka fylgst með. Auðvitað ágætlega viðeigandi! Bastet stytturnar voru ekki taldar þess verðugar að fylgjast með kraftaverkinu sem var að gerast í fjárhúsinu.  Og, ég er auðvitað búin að taka jötuna niður, það þurfti bara að skjalfesta atvikið áður en fólkið færi aftur ofan í kassa!

084

 

Nú er Hulda búin að leggja fram ósk um að horfa á "Oj!" sem er það sem hún kallar Allt í drasli.  Barnið er einlæg áhugamanneskja um hreingerningar sem er bæði skrítið en þó skiljanlegt miðað við heimilið sem hún elst upp á!  Best að verða við þeim óskum og stúdera annara manna dót í stað fyrir sitt eigið!


Til hamingju með afmælið!

Gvendur bróðir minn á afmæli í dag! Wizard


Gleðileg rest...

Ég er loksins búin að klára textaskriftirnar sem ég minntist á í síðustu færslu.  Nú þarf ég bara að dratthalast til að prófarkalesa sjálfa mig og koma þessu frá mér.  Býst við að ég fái kallinn til að hjálpa mér því betur sjá augu en auga (eða fjögur í stað tveggja).

En ég ætlaði líka að segja frá matarævintýrum fjölskyldunnar.  Þannig var mál með vexti að við vorum orðin dálítið kjötþreytt þegar leið að áramótum svo við fengum þá hugmynd að elda hnetusteik á nýjársdag.  Þegar ég nefndi þetta í áramótapartíinu gerðust gestir afar yfirlýsingaglaðir og fannst þetta greinilega frekar kúnstugar hugmyndir.  Ég var búin að lofa að segja hvernig þetta gekk svo here goes:  Ég bjó fyrirbrigðið til frá grunni og studdist við þrjár uppskriftir.  Ég sleppti þeim uppskriftum sem innihéldu eitthvað sem mér fannst vont á bragðið og myndi ekki borða eitt og sér, hvað þá að setja í annan mat.  Þetta var talsverð handavinna og kannski aðeins meiri en ég hefði nennt á svona degi en allt gekk í sómanum.  Hnetusteikin var svo borin á borð með couscous, sveppasósu úr kastaníusveppum, salati og rósakáli sem var borið fram með möndlum og smá smjöri.  Þetta var gríðarlega gott, satt best að segja.  En við áttum samt talsverðar leifar af þessu því þetta var dágott magn.  Leifunum var fyrirkomið með því að setja þær í tortilla pönnukökur með salsa, salati, tómötum, sýrðum rjóma og osti.  Það lá við að það væri betra!  Ég veit ekki hvort ég myndi nenna þessari eldamennsku aftur á svona degi sem maður vill helst gera sem minnst en ég er alveg til í að elda aftur hnetusteik.

Á þrettándanum elduðum við lambaribeye, höfðum keypt rúm 600 grömm en merkilegt nokk, torguðum bara helmingnum.  Afgangurinn af þessu góða kjöti var svo afgreiddur með því að skera í litla bita, brúna á pönnu og borða svo í pítubrauðum (þessum frystu, ekki svampinum í loftþéttu umbúðunum!) með salati, tómötum og hvítlaukssósu.  Þið vitið, svona svipað og Grikkir borða.  Þetta var eins og fyrrnefnda restin, hrottalega gott.  Oftast gleymum við svona matarafgöngum í ísskápnum og þetta breytist í svona "Mystery Meat" og er hent en þetta var góð ráðstöfunum á restum.

En ég hef ekki grænan grun hvað skal elda í kvöldmat núna!


Ertu skarpari en skólaepli?

Þetta syngur yngri dóttirin hástöfum, að vísu ekki alveg skýrt en 'skólaepli' skilst vel.  Enda er þarna feikna epli í logoi þáttarins.

En...fyrsta blogg ársins, gleðilegt ár til ykkar allra og vona að þið eigið gott, skapandi og hamingjusamt ár!  Hér höfum við haft það ágætt þó svo að það hafi verið hörkuvinna að elta litla dýrið sem er uppátækjasöm með afbrigðum!  Fyrir svona fimm mínútum var ég að stoppa frökenina í að hella flösku af chilisósu út í kókglas (sitt eigið sem betur fer!) og lýsti hún yfir, sigri hrósandi, að þetta væri kók (kób). Ég var ekki sammála og sagði að þetta væri bjakk og það þótti henni gríðarlega fyndið.

Hér heima er nóg að starfa að vanda og að auki er ég með heimavinnu tengda vinnunni sem ég ætla að klára núna um helgina.  Ætla þó að leyfa mér þann "munað" að taka til í eldhúsinu áður en ég byrja, svo ég minnist nú ekki á þörfina til að blogga áður en ég byrja!  Sálfræðingurinn kallar þetta forðun og ég býst við að það sé það sem ég er að gera núna.  Fór í alvörunni að hugsa um hvort ekki væri tímabært að taka til í fataskápunum núna en stoppaði sjálfa mig af á þeim tímapunkti.  Þá er kannski betra að bíta á jaxlinn og setjast fyrir framan tölvuna að vinna!  Fljótlegra líka.

Ég ætla að reyna að vera vænni og betri við sjálfa mig á þessu ári.  Það er hægara sagt en gert skal ég segja ykkur því ég hef gríðarlega tilhneigingu til að láta sjálfa mig mæta afgangi.  Þessi pæling kemur líka af því að á síðasta ári leiddi þessi hegðun til veikinda og þar finnst mér eiginlega eitthvað vera komið yfir mörkin, allrækilega.  Það verða engin stórfengleg heit um megrun/hreyfingu/bindindi/meira sokkaprjón því ég held að það sé forgangsverkefni að líða vel í eigin skinni, þá fylgir restin á eftir.  Þegar ég keypti mér nýja tölvu í nóvember var það gert á þeim forsendum að Hulda væri svo áhugasöm um tölvur og þessi týpa af tölvu væri aðgengilegri en aðrar.  Ég nefndi þetta við sálfræðinginn minn og hún tók til þess að ég þyrfti afsökun til að fá mér tölvu, að það væri allt í lagi að leyfa sér að fá sér hluti sjálfur!  Hárrétt hjá henni og ég veit svei mér ekki hvernig hlutirnir þróuðust svona.  Ég ætla líka að huga að því að minnka aðeins við mig vinnu, á þó eftir að spekúlera það út nákvæmlega.

Hulda hefur tekið gríðarlegum framförum í tali í jólafríinu og greinilega allt kraumandi í litla kollinum. Hún á erfitt með að ná sér niður á kvöldin því það er svo mikið í gangi og þetta er fyrir utan hinn týpiska sólarhringsviðsnúning sem verður hjá landslýð yfir jólin.  Skringilegt samt að hún notar ennþá "il e" og "ell e" í stað þess að segja "hann er" "hún er" "það er".  Við höfum stundum grínast með að hún hafi byrjað of snemma að taka inn tungumálið því ég var í frönsku á síðustu mánuðum meðgöngunnar og hún hefur vafalaust heyrt góðan skammt af "Il est/elle est" og hefur ekki beðið þess bætur síðan!Wink

Ég fékk í jólagjöf frá fjölskyldunni DVD diska með Hercule Poirot sjónvarpsmyndunum.  Það eru þessar sem eru með David Suchet í aðalhlutverki, það dugar ekkert annað!  Einhvern veginn finnst mér alltaf vera punkturinn yfir i-ið ef maður á góða breska þætti til að horfa á yfir jólin.  Sitja með tebolla eða rauðvínsglas og glápa á sjónvarpið.  Svo eru í þessum þáttum svo fallegir leikmunir og liggur við kennslustundi í Art Deco stílnum sem ég hef elskað út af lífinu frá því ég var unglingur.  Og svo var afar gaman að sjá aftur Hastings með heiðríkjusvipinn og Japp hjá Scotland Yard að ógleymdri henni Miss Lemon.

Nú er Hulda farin að halda konsert með munnhörpu og víst komið að mér að tína til í eldhúsinu og setjast svo í textaskriftir (sem ég fæ borgað fyrir - ekki þetta!)

Poirot

Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband