Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

29 ára...ennþá

Þá er afmælisdagurinn runnin upp og ég er að sjálfsögðu enn 29 ára.  Lítur út fyrir að dagurinn fari í að taka til í bílskúrnum og henda rusli og í þessum töluðu orðum eru Siggi og Valgerður í Sorpu að losa heimilið við flöskur og dósir.  Það hafa engin ósköp gerst fyrir utan hús þar sem bóndinn hefur verið að vinna á kvöldin og brá sér meira að segja frá í miðju götugrilli á laugardagskvöldið og skrapp í vinnuna til að gera stykki sín (hí hí - það heitir víst að lakka nokkur stykki en hitt er fyndnara).  Götugrillið var svakaskemmtilegt og ég og Valgerður enduðum inni í eldhúsi hjá Eddu nágrannakonu að kjafta frameftir nóttu.  Daginn eftir var afskaplega rólegt í götunni svo ekki meira sé sagt.  Við Hulda gláptum dálítið á sjónvarp og fórum svo og hittum Valgerði í vinnunni hennar og borðuðum með henni.  Svo var rölt heim á leið og stoppað í sjoppu til að kaupa súkkulaðidýr handa Huldunni og komið við á róló að æfa sig í rennibrautinni og að leika í litla húsinu sem þar er.  Kvöldið var nokkuð mellow, unglingurinn kominn niður á Miklatún og við gamla fólkið elduðum okkur pasta og horfðum á sjónvarpið.  Í nótt dreymdi mig svo að John Cleese væri að kenna mér að búa til sápu með prímus og smjörpappír og honum fannst ég afleitur nemandi.  Ég var víst í stórhættu með að sprengja allt draslið í loft upp og gott ef æfingin endaði ekki með að herra Cleese hljóp öskrandi í burtu.  Þessa dagana er ég að lesa Fragile Things eftir Neil Gaiman, einn af mínum uppáhaldshöfundum, og þess má geta að myndin Stardust sem er að koma er gerð eftir sögu hans.  Svo maður minnist ekki á Sandman sem er algjör klassík.

En kvöldið í kvöld verður haldið heimavið, heilgrillaður grís, varðeldur, dansandi sveinar....nei, ætli það verði ekki eitthvað rólegra en það.  En kannski fæ ég pakka!


Óglaður dagur

Sumarfríið er búið og ég er búin að vera í vinnunni í tæpa viku.  Hafði þó ekki af að fara í dag þar sem ógleði og kveisa herja á mig.  Er að vona að heilsan sé að batna.

Hulda fékk hlaupahjól í gær, svona mini útgáfu með þremur hjólum sem kemst blessunarlega ekki mjög hratt.  Hún er ekki alveg búin að ná tökum á tækninni með að ýta sér áfram þannig að aðalsportið núna er að standa á hlaupahjólinu og láta tábrotna móður sína trilla sér fram og aftur um gangstéttina!  Hún er farin að vera duglegri að vera úti og stingur ekki af eins og hún gerði áður.  Svo þegar maður er með hana úti hittir maður nágrannana, þá er að gera sig vel að segja fólki frá því hvernig manneskja Hulda er og mér sýnist að hún fái konunglega meðferð fyrir vikið.  Skemmtileg og jákvæð þróun sem ég vona að haldi áfram.

Fyrsta "skóflustungan" að pallinum fyrir framan var tekin í gær þegar við byrjuðum að stinga upp bévítans grasið sem við ösnuðumst til að setja fyrir framan hús.  Lífið væri svo sannarlega einfaldara ef við hefðum bara hent afgangstorfinu þegar var tyrft aftan hús í stað þess að vera nýtin og troða því fyrir framan hús.  Eiginmaðurinn er búinn að fá áætluð verð á efni í pallinn en það er, nota bene, áður en bræður hans prútta verðið niður.  Og við erum að fá grófa kostnaðaráætlun á hellulögnina.  Við skruppum og skoðuðum Fornalund hjá BM Vallá til að spekúlera hvaða grjót okkur líst á en eitthvað gekk mér illa að settla mig á eitthvað ákveðið.  Línur gætu þó farið að skýrast.

Bókin á náttborðinu er Unstrange Minds og fjallar um hvort einhverfa sé raunverulegra að verða algengari eða hvort þetta sé spurning um breyttar skilgreiningar og betri greiningar.  Fyrir bók sem er skrifuð á fræðilegu nótunum er hún mjög læsileg og hreinlega bara gaman að lesa hana.  Svo er ég að sjálfsögðu búin að lesa Harry Potter hinn síðasta og fannst hún mjög góð.  Um daginn las ég svo "To kill a mockingbird"  sem ég hafði aldrei lesið áður og sama einkunn og hinar, snilldarbók.  Ég hef ekki lesið svona margar bækur í röð í nokkur ár held ég.  Þess ber að geta að ég fékk bókasendingu frá Amazon um daginn.  Næsta mál á dagskrá er að útvega sér fleiri bókahillur - eða halda tombólu!


Að taka eftir litlu hlutunum.

Af því mér gengur afleitlega þessa dagana að framkvæma stórverkin sem liggja fyrir, er ágætt að veita litlu hlutunum stöku sinnum athygli.

Húsið mitt er farið að líta út eins og vísir að nornabústað.  Á svo sem bærilega við! Wink
En það eru semsagt allnokkrar köngulær búnar að gera myndarlega vefi uppi við þakskeggið og ég hef  leyft þeim að gera þetta í næði.  Svo hef ég horft á þær stækka viku frá viku.  En í staðinn hefur varla komið fluga inn í sumar og ég vona að þær veiði vel þegar geitungasísonið byrjar (Köngulærnar uppi á Víðvöllum gæða sér á geitungum - ég hef staðfest vitni!).   Hulda fylgist líka vandlega með þessu og bendir mér á þær reglulega enda mikil áhugamanneskja um köngulær.  

Í eldhúsinu er hins vegar farinn að spíra lítill grænn sproti í potti eftir að ég stakk niður sítrónufræi í sumar.  Hafði enga trú á því að neitt myndi gerast en þetta kom skemmtilega á óvart.  Mér finnast laufblöðin í sítrustrjám svo falleg þannig að ég vona innilega að þetta vaxi vel.

Úti á svölum er líka farinn að vaxa hvítlaukur þar sem við Hulda stungum niður rifjum í vor.  Að vísu virðist bara einn af níu ætla að koma upp en einn er betra en ekki neitt.

Og Hulda kerlingin er farin að nota smáorð og ávörp í miklu meira mæli í sumarfríinu.  "Góðan daginn mamma!", "Já mamma" svo eitthvað sé nefnt.  Ég vona líka að þessi þróun haldi áfram.

Kötturinn er farinn að finna sér leið út úr húsinu á nóttunni.  Ég hef ekki hugmynd um hvar því gluggarnir eru bara opnir á efri hæðinni.  Honum er reyndar alveg trúandi til að hafa fundið leið niður fyrst hann getur hoppað upp á svalir!  Svo gólar hann og grætur fyrir utan gluggann minn þegar hann vill komast inn um miðja nótt og nágrannarnir eru örugglega farnir að hugsa honum þegjandi þörfina.  Og ég, sem sef laust, er sú sem opnar fyrir prinsinum!

Þetta var semsagt smáatriðapistill dagsins!  Þegar röðin kemur að stóru hlutunum eins og palla og garðasmíði, hellulagningu plansins eða tiltekt í þvottahúsinu, mun ég blogga um það af offorsi! (Vona að það verði sem fyrst!)


Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband