Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Bíóhelgin mikla

Ég er búin að liggja í myndaglápi frá því á föstudag.  Þá settist fjölskyldan niður og horfði loksins á Little Miss Sunshine.  Frábær mynd - alveg frábær.  Svo sá ég Elling í sjónvarpinu, var búin að sjá hana áður, en hún er líka tær snilld.  Entist meira að segja yfir henni til enda.  Gærdagurinn var þó ekki nýttur í sjónvarpsgláp, við tókum til og svo skruppum við Siggi í grill til Gaflaranna.  Vaknaði svo klukkan níu í morgun,  ekkert hægt að kúra því krullhausinn rauk snemma á fætur.  Þá var náttúrlega ekki annað hægt en að horfa á The Devil Wears Prada. Svo var Cats and Dogs mallandi í bakgrunninum á meðan undirrituð lá í sófanum og las.  Þetta eru meiriháttar afrek fyrir manneskju sem nær oftast ekki að horfa á heila mynd í einu.  Það eru engin stórkostleg verk á dagskrá það sem eftir lifir dags, nema að elda lax með lime sósu, mat sem mig er búið að dreyma um alla vikuna.  Helga systir sagði mér frá þessari sósu, við höfum gert hana einu sinni og hún er frábær.  Þið finnið hana hérna.   Nú er ég búin að hugsa of mikið um mat, orðið órótt og verð að fara í kalda sturtu til að jafna mig.Wink


Annasamt "frí"

Ég notaði síðasta sumarleyfisdaginn minn núna á föstudaginn þar sem leikskólinn hennar Huldu var lokaður.  En það hefur ekki verið neitt sérstaklega mikið um frí þar sem tíminn hefur verið notaður í allra handa tiltekt, tilfæringar, þvott og fleira gaman.  Gerði meira að segja svona sjaldgæfa hluti eins og að þrífa örbylgjuofninn, kaffivélina og síðast en ekki síst, hreinsa út af hörðu diskunum á gömlu tölvunni.  Hugmyndin er sú að hún nýtist í netbrúk og leiki og mín fái að sinna alvarlegri verkefnum (eins og Sims 2 og þ.h. Grin - grín).  En þetta er búið að vera þrælskemmtilegt og alltaf gaman að finna fullt af dóti sem má henda.  Ég er sko ekki hætt!

 Hulda fór í Njarðvík í gær og fékk huggulegt bleikt hjól og hjálm hjá Helgu og Stefáni.  Þar sem varla er þúfa til að detta um þarna á Suðurnesjunum er náttúrlega tilvalið að hún hjóli þar, annað en hér uppi á heiðum þar sem hægt er að detta upp og niður um allar brekkur.  Það stendur upp á Huldu Katrínu og Guðrúnu að blogga um hvernig hjólreiðatúrarnir gengu. 

En tíminn nýttist vel á meðan Hulda var í burtu og við enduðum sprettinn á að elda sítrónukjúkling sem var gríðarlega góður.  Stelpurnar komu svo með Hulduna steinsofandi og henni var plantað í rúmið hvar hún lúrði hálfan sólarhring.  Systurnar fengu svo lögg (eða laggir!) af rauðvíni og voru í banastuði og gaman að hitta þær.

Núna er Hulda komin í pils og fín föt og er allra stúlkna fínust.  Til að styðja við pjattrófuna erum við að fara að setja upp fínan spegil úr IKEA inni hjá henni sem er með hólfum fyrir hárbursta, og fleira fallegt svo unga konan geti dáðst að sér.  Við eigum í talsverðum vanda við að klippa táneglurnar hennar, henni finnst þetta erfitt og æpir að það sé verið að skemma hana.  Þetta er þriggja manna verk og við erum öll með verki í handleggjum eftir aðgerðina því barnið er nautsterkt.  Við höfum reynt að gera þetta þegar hún er sofandi en barnið virðist hafa ofurskynjun í fótunum og sparkar og jafnvel vaknar þegar þetta er reynt, sama hversu fast hún virðist sofa.  Allar ábendingar eru vel þegnar, ég hins vegar ætla að fara að leita að eða útbúa svona félagshæfnisögu um tánaglaklippingar í þeirri von að það hjálpi.


Góðar fréttir

Þetta finnst mér afskaplega gott mál og frábært að húsið fái að vera áfram í miðbænum.  Mér hefur alltaf þótt þetta skemmtilegt hús, sérstaklega þar sem maður fékk að skottast þarna um sem krakki þegar fjölskyldan var að skipta sér af rekstrinum á Zimsen.

Og ég var alltaf handviss um að það væru draugar uppi á lofti!


mbl.is Zimsen-húsið fari í Grófina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrítinn dagur

Hluti af barnæskunni, unglingsárunum og fullorðinsárunum hvarf í dag þegar brann í miðbænum.  Mikil eftirsjá af þessum húsum.  Í þessum húsum eignaðist ég "skvísuföt" 13 ára, keypti ófáar plötur, borðaði í fyrsta sinn á ævinni nautasteik "bleu", verslaði ditten og datten í litlu bókabúðinni sem var þarna og fyrir utan að heimsækja stöku sinnum þá skemmtistaði sem voru þarna.  Reyndar hefði verið kominn tími á að gera þessi hús myndarlega upp, svona á svipaðan hátt og hefur verið gert í Aðalstræti en við vonum bara að fólk hafi söguna í heiðri þegar endurbyggingin hefst.

Í öðrum fréttum þá eignaðist stórfjölskyldan bíl í dag.  Samsorta hinum gamla en nýrri árgerð, kraftmeiri og plássmeiri.  Fyrir þá sem ekki vita, þá gerðist það í byrjun mánaðar að klesst var aftan á okkur þar sem við vorum kyrrstæð á ljósum, okkar bíll kastaðist á næsta bíl fyrir framan og við urðum áleggið í samloku tveggja jeppa.  Gamli bíllinn var talinn of laskaður og aldurhniginn til að það borgaði sig að gera við hann svo hann var greiddur út.  Hvorug dætranna var með og við getum verið þakklát fyrir það en við sjálf fengum hinn hefðbundna hálshnykk og eymsli eftir öryggisbelti.  En nýji bíllinn er snotur, svo mikið er víst.

Svo skrapp Valgerður í Debenhams og keypti sér flík.  Kvaðst hafa gert kostakaup því viðkomandi plagg var á niðursettu verði, átti að kosta 4.690 kr. en fékkst á 1.300,-  Þegar ég fór að skoða miðana sá ég að þetta var merkt sem skemmd vara - á ensku - og stóð að saumspretta væri á flíkinni og ætti að gefa 10% afslátt - á ensku.  Saumsprettan var þarna, dóttirin lagaði hana, en mergurinn málsins er sá að þessi vara var aldrei í almennri sölu í búðinni.  Hún er flutt inn sem útsöluvara og seld sem slík.  Þannig að íslenska "upprunalega" verðmerkingin hefur aldrei átt við rök að styðjast.  Ég hafði nefnileg nokkrum sinnum velt fyrir mér að maður sá stundum kynlegar flíkur í búðinni sem ég hafði ekki séð í sölu fyrir útsölu.  Einhvern veginn hélt ég að nóg væri til af útsöludóti hérna án þess að það væri flutt sérstaklega inn? 

Ég man eftir að í "Men in Black" þá æpir einn ofurákafur drengur: "We're the best of the best of the best. SIR!"  Við getum þá sagt: "We get the rest of the rest of the rest.  SIR!"


Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband