Hlandhausaklúbburinn!

Almennur félagsfundur í Hlandhausaklúbbnum hefur líklega verið haldinn áðan í IKEA.  Eins og kúnnar þeirrar búðar vita er svona svæði við útganginn þar sem þú kemur með bílinn þinn að og nærð í vörurnar sem þú varst að versla.  Semsagt, fræðilega séð er þetta ætlað fyrir stutt stopp, bara rétt til að hlaða bílinn.  En áðan, þegar við eiginmaðurinn vorum að draga tvo risastóra kassa með bókahillum út úr búðinni blöstu við okkur feitir afturendarnir á ca. 6-7 jeppum sem var LAGT þarna með engum í og engan eiganda sjáanlegan.  Þá eru hinir örþreyttu, aðþrengdu jeppaeigendur svo bjargarlausir að þeir leggja greinilega þarna áður en farið er inn í sænska himnaríkið svo þeir eigi nú öruggt stæði þegar þeir staulast út aftur með góssið sitt.  Siggi lagði í stæði sæmilega nálægt og við bárum stöffið út á milli bensínskrímslanna og út í bíl en maður sá að það var fólk sem var ekkert fært um að standa í slíkum stórræðum enda með heilu innréttingarnar sem biðu eftir því að komast frá húsinu.  Það er greinilega nóg af bjánum í okkar þjóðfélagi og gott að þeir eru ekki feimnir við að deila flónsku sinni með samborgurum sínum.

Semsagt, búin að ausa úr skálum reiði minnar yfir lötum samlöndum mínum og segi eins og Billy Connolly: "Oh,  I do love a good rant!"

Annars hefur verið mikið að gera heima og heiman.  Mikið mokað í garðinum og núna eru allir staurar og allar undirstöður komin á sinn stað.  Við Valgerður hreinsuðum upp moldar og steypuhrúgurnar eftir kallana síðasta sunnudag, tíndum burt steina og gerðum bakgarðinn snyrtilegan.  Verkefni kvöldsins hjá mér er að prenta út teikningar af báðum pöllum svo Siggi hafi eitthvað til að veifa í BYKO á morgun þegar hann kaupir efni. 

Ég er ekki alveg komin í taktinn aftur eftir að ég fór að vinna og er yfirleitt hálfdottandi þegar ég kem heim.  Hulda Óla er á aldeilis skemmtilegu mótþróaskeiði og brúkar sívaxandi orðaforðann til að mótmæla öllum áætlunum sem henni eru kynntar.  Segist til dæmis EKKI ætla í bað þegar hún á að fara í bað og hnýtir aftan í að hún sé EKKI skítug.  Og svo er hún að komast upp á lagið með að þrasa og tuða þegar hún er orðin þreytt og gefur ákveðnum fjölskyldumeðlimum ekkert eftir þeim efnum Wink.

Síðast en ekki síst fór ég að sjá Eric Clapton um síðustu helgi í hinni illa loftræstu Egilshöll.  Hvernig er það, stóð til að kála kallinum þarna uppi á sviði eða hvað?  Eða þá áhorfendum?  Ég ætla ekki að fara að telja upp hversu laklega var staðið að þessum tónleikum, það er víst búið að skammast nóg um það í bloggheimum en þetta voru, held ég, klúðurslegustu tónleikar sem ég hef farið á á löngum ferli mínum.  Það var svalara loft í Laugardalshöllinni þegar Rammstein var með eldsprengjur með reglulegu millibili, hér um árið.  Úpps, finn að ég er að trekkja upp í tuðgírinn aftur svo, down girl.  En Clapton karlinn var góður.  Ég hef aldrei verið neinn últra aðdáandi og finnst til að mynda þessi týpísku popplög hans ekkert spes.  Mér er alveg sama þótt ég heyri ekki Layla og Cocaine og Wonderful Tonight má alveg koma fyrir annað fólk.  En ég ELSKA blús og kallinn er brilljant blúsgítarleikari og er náttúrlega blúsmaður á undan og eftir poppgutlinu.  Sérstaklega fílaði ég þegar hann var að taka Robert Johnson.  Núna langar mig dálítið að kaupa þennan disk.  En ég get þakkað bróður mínum sem  komst ekki til Íslands, þessa tónleikaferð og geri það hér með: Takk Gvendur og takk Dísa.  Þetta var óvæntur glaðningur.

En, farin að bauka í landslagsforritum svo eitthvað þokist hér í framkvæmdum og Edda fái fallegra útsýni út um eldhúsgluggann!Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér fannst þetta hundfúlt.  Ég fíla blús ágætlega, en verð að segja þegar ég fer á tveggja tíma blústónleika vil ég fá þægilegt sæti og rauðvínsglas og geta notið þess - kýs ekki að standa kófsveitt með svita lekandi á mig úr loftinu!

Guðrún Mary (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 13:53

2 Smámynd: Þórdís Guðmundsdóttir

Við stóðum hægra megin við sviðið, sömu megin og var opnað út um miðja tónleikana svo það kom smágustur til okkar.  En þegar maður þurfti að fara aftur fyrir A svæðið var eins og maður gengi á vegg af hita.  Sérstaklega furðulegt miðað við hvað fólk þurfti að borga mikið fyrir miðana.

Ég gleymdi þó reyndar að hrósa því að hljóðkerfið virkaði vel.  Þótt við stæðum ekki fyrir miðju var góður hljómur hjá okkur.  Hefði kannski mátt vera aðeins meiri bassi fyrir minn smekk.  En ég var hreint og beint farin að hafa áhyggjur af Claptoninum því það rann af honum svitinn í stríðum straumum í hitanum, plús það að þeir standa náttúrlega beint undir ljósunum.  En hann komst greinilega lifandi frá þessu!

Þórdís Guðmundsdóttir, 15.8.2008 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband