Kisuhremmingar

Hann kisi okkar var ekki mjög lukkulegur í gær.  Fyrst eyddum við Valgerður löngum tíma í að leita að honum út um allt hús og fundum hann eftir langa mæðu liggjandi í dúkkurúmi inni í geymslu.  Svo sáum við að það voru blóðblettir í stiganum og þá var kisi tekinn og grandskoðaður.  Það kom í ljós að kló á hægra afturfæti var löskuð og eftir samráð við kattaexpertinn í fjölskyldunni (Auði) var tekin sú ákvörðun að skjótast á Dýraspítalann að láta athuga lösnu loppuna.  Bjössi kattavinur var dræver og ég sat ásamt kisa (sem var í búri) í aftursætinu.  Ekki leist honum vel á ferðalagið enda hef ég svosem aldrei þekkt kött sem var lukkulegur með bílferðir.

Á Dýraspítalanum tók dýralæknirinn Hrund á móti okkur og skoðaði kisa sem var ljúfur sem lamb þótt ekki væri beinlínis verið að gera skemmtilega hluti við hann.  Líklega hefur hann fest klóna í einhverju í ferðum sínum, við bara vitum ekki hverju.  Svo var hann deyfður og sofnaði eiginlega á meðan skemmda klóin var snyrt, brennt fyrir svo hætti að blæða og búið um fótinn.  Svo fékk hann pensillínsprautu og var örmerktur í leiðinni.  Þetta er orðið svo þróað, hætt að tattóvera númer í eyrun á köttum heldur er pínulítill örflögu rennt undir skinnið á bakinu og svo er hægt að skanna kisa eins og ostbita í Bónus.  Talsvert fljótlegra og örugglega þægilegra en að fá sér tattú.

Þegar heim var komið fékk kisi að liggja og var ekki til stórræðanna í nokkra klukkutíma.  Hulda vildi kanna hvað væri í gangi með hann og þegar henni var sagt að hann væri lasinn þótti henni við hæfi að leggja sundbol hjá honum, væntanlega til að gleðja hann.  Seinna um kvöldið þegar hann var kominn á ról en doldið valtur á fótunum kom Hulda til hans og vildi leika.  Þau hafa nefnilega einn leik saman sem er að skrattast um með laufblöðin af drekatrénu.  Kötturinn var augljóslega ekki í ástandi til að leika og ég útskýrði fyrir Huldu að kisa væri með meiddi, hefði farið til læknis að láta laga það og væri lasinn núna.  Hún fór þá að klappa kisa en til þess að hún gerði það nógu varlega þá hélt hún um höndina á sjálfri sér á meðan hún klappaði, líkt og var gert við hana þegar var verið að kenna henni að klappa fyrst.  En þegar leið á kvöldið og kisi fór að hressast þá losaði hann sig við umbúðirnar í hvelli, held svei mér þá að hann hafi hrist þær af loppunni og virðist bara merkilega brattur eftir hremmingarnar.  Dýralæknirinn var reyndar búin að segja að það væri ekki stórmál þó hann losaði sig við umbúðirnar og kannski eins gott því kötturinn var búin að bleyta upp í þeim í vatnsdallinum og við hefðum þurft að fjarlægja þær hvort eð er.  En, hann verður inni í nokkra daga og er nú bara búinn að vera miklu kátari í dag heldur en í gær.

Við hins vegar ákváðum að borða bara heima svo við gætum fylgst með sjúklingnum.  Borðuðum alveg ágætar nautalundir frá Hagkaup og drukkum Chateau Coucheroy með.  Svo höfðum við Créme Brulée á eftir og horfðum á Chaplin með dætrunum.  Alls ekki slæmt að hafa kvöldið svona og við förum bara út að borða seinna í rólegheitunum.

Í dag hins vegar erum við kvensurnar búnar að þvælast aðeins í Smáralind eftir hádegismatinn hjá ömmu Lóu og fórum svo heim þegar Hulda var farin að vera erfið og leiðinleg.  Það eru víst takmörk fyrir því hvað hún þolir að vera lengi í innkaupaparadísinni. 

Eigið góða helgi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að Stór-Brandur er kominn í lag. Þetta er alltaf töluvert mál að skemma á sér klærnar og hætta á ígerðum í fótameiðslum. Munið það sem ég er alltaf að segja. Það eru fleiri sýklar á löppunum á mönnum og málleysingjum en í r.... á þeim! Vísindalega sannað hvorki meira né minni. Við óskum ykkur "gömlu" skötuhjúunum til hamingju með daginn og allra heilla í framtíðinni.

Auður stóra systir (IP-tala skráð) 1.7.2006 kl. 18:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband