Margt að segja...

Greetings and Salutations! 

Nú er liðin meira en vika síðan ég skrifaði síðast en hef því miður ekki komist að tölvunni fyrr en núna.  Þannig að frá mörgu er að segja í þessari atrennu.

En áður en lengra er haldið skal Kristínu frænku óskað hjartanlega til hamingju með þrítugsafmælið!  Hluti af Hulduhernum skrapp til Danmerkur til að samfagna frúnni og við verðum bara að hitta afmælisbarnið þegar hún kemur til Íslands.

Laugardaginn síðasta var hýst hér í Kópavoginum útskriftarveisla Helgu systur.  Fór sú veisla fram með miklum ágætum og var borðað hér nýsjálenskt nautakjöt og fleira gott.  Við fylgdumst einnig með Eurovision með öðru auganu og er óhætt að segja að fjöldi hundleiðinlegra laga hafi sjaldan verið jafnmikill.  Finnska lagið var þó ágætt og óhætt að óska Finnum til hamingju með sigurinn.  Þegar gestir tíndust heim hringdum við út á Nes og þar voru Seltirningarnir að fara í háttinn.  Þannig að við leyfðum þeim að hvíla sig eftir Eurovision átökin.  Gömlu hjónin fóru að labba um hverfið og hlusta á partílætin í húsunum en þá bárust SMS skilaboð frá Hafnfirðingunum.  Þau sátu heima og stumruðu yfir lösnum syni sínum og við skelltum okkur snöggvast í Hafnarfjörðinn og aðstoðuðum þau eftir bestu getu með smá bjór og rauðvíni (samt ekki handa syninum!).

Svo eru Helga og Stefán farin í heimsókn til Hund-Tyrkjans og hafa það víst bara mjög gott hjá honum.

Svo er hér hlutur sem verður að minnast á af því ég er svo stolt.  Á sunnudeginum var tekið til í þvottahúsinu og verður það að teljast til kraftaverka því fjölskyldan var farin að brúka það eins og geymslu.  Það er stefnt að því að kisi hafi sína aðstöðu þar en það verður þó ekki alveg strax.

Svo á þriðjudaginn fórum við á tónleika með Ian Anderson úr Jethro Tull, ásamt Valgerði og Mumma.  Fantagott satt best að segja og brjálæðislegur músíkant.  Firnagóður fiðluleikari með honum líka, Lucia Micarelli, og flottur trommari.  Annars er það ekkert að marka því ég er veik fyrir trommurum.  Anyways, snilldartónleikar og hollt og gott fyrir sálina.

Morguninn eftir fór ég á námsskeið hjá Kópavogsbæ um tjáskipti við einhverf börn og börn með málhamlanir.  Þetta var mestmegnis ætlað leikskólastarfsmönnum en nokkrir foreldra flutu með.  Afar fróðlegt námsskeið og ég er þakklát bæjarsýsteminu að bakka okkur svona vel upp.

Aðfaranótt fimmtudags dreymdi mig draum.  Eða martröð eftir því hvernig á það er litið.  Þið vitið jú að ég er ekki mikil Samfylkingarmanneskja.  Mig semsagt dreymdi að ég væri að fara í veislu hjá Samfylkingunni.  Var í svörtum Benz með Stefáni Jóni Hafstein og svo stoppuðum við fyrir utan hús þar sem veislan var haldin.  Þá kom þar að Flosi Eiríksson og leiddi mig inn í veisluna og lóðsaði mig um.  Verst þótti mér að ýmsir Vesturbæingar sáu til mín og ég hafði miklar áhyggjur af því að þetta eyðilegði reppið mitt í Vesturbænum.  Inni var svo Dagur B. Eggertsson sem röflaði tómt malbik og ég sagði honum það.  Ásamt því að ég gæti bara ekki látið sjá mig með honum.  Til allrar hamingju birtist þarna Edda frænka (?) og keyrði mig heim.

Gott og blessað.  Svo vaknaði ég og var að draugast um á náttsloppnum, sinna Huldu og glápa á sjónvarpið.  Þá er bankað á útidyrnar.  Ég hélt ég yrði ekki eldri því þar stóð Flosi Eiríksson og mundaði rauða rós í áttina að mér.  Þá var Samfylkingarliðið að ganga í hús og gefa rauðar rósir.  En ég hélt mig væri enn að dreyma!  En það er alltaf gaman að fá rósir og ég tók við henni með virktum. 

Ef þið eruð ekki búin að átta ykkur á því ennþá þá er hún Guðrún Björk búin að setja upp síðu.  Allir að fara að lesa og kvitta fyrir sig.  Einnig er Valgerður búin að setja upp nýja síðu sem hún segist ætla að verða dugleg að skrifa á. 

En, nú tekur laugardagshreingerningin við.  Og svo stutt búðarráp.  Þið hérna sem eruð innanlands, druslist þið til að kjósa, hinir sem kjörgengir eru hér og eru utanlands, ég vona að þið hafið kosið áður en þið fóruð.

Ég?  Ég er búin að kjósa og þótt Flosi sé fallegur þá kaus ég það sem best er fyrir Kópavog.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Þórdís Guðmundsdóttir
Þórdís Guðmundsdóttir
Áráttukrotari og úthverfabúi

Færsluflokkar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nota bene

Veður

Click for Reykjavik, Iceland Forecast

Nýjustu myndir

  • orchid-07
  • Svo þetta
  • Fyrst kom þetta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband